Af litlum neista verður oft mikið bál

Af litlum neista verður oft mikið bál “Við félagarnir tókum tal saman í kringum síðustu áramót og langaði að koma saman og rifja upp gamla takta.” Segir

Fréttir

Af litlum neista verður oft mikið bál

Vanir Menn og Þuríður Sigurðardóttir
Vanir Menn og Þuríður Sigurðardóttir

“Við félagarnir tókum tal saman í kringum síðustu áramót og langaði að koma saman og rifja upp gamla takta.” Segir Birgir Ingimarsson (betur þekktur sem Biggi Inga) í samtali við siglo.is og á við félaga sína Leó Ólason og Magnús Guðbrandsson (Magga Guðbrands).

Þessa stórpoppara þekkir hvert mannsbarn, norðan Tröllaskaga, eldra en tvívetra úr siglfirskri poppsögu. „Okkur félagana langaði að taka upp þráðinn, hittast og æfa nokkur lög frá gullaldarárum, fyrir tveimur til þremur áratugum síðan þegar við spiluðum á hverju sveitaballinu á fætur öðru. Við vildum sannfæra okkur sjálfa og aðra um að við hefðum engu gleymt,“ heldur Birgir áfram.

Það varð úr að félagarnir ákváðu að halda tónleika í Bátahúsinu um páskana og fengu til liðs við sig Harald Gunnar Hjálmarsson (Halla Gunna). Rúsínan í pylsuendanum kom svo við þegar Þuríður Sigurðardóttir bættist í hópinn , að sögn Birgis: „Bátahúsið hreinlega stútfylltist af fólki og fjöldi manns varð frá að hverfa.

Fljótt flýgur fiskisagan, ekki síst norðan heiða, og skömmu síðar var haft samband við okkur frá Græna hattinum og við beðin um að endurtaka leikinn þar, sem við gerðum að sjálfsögðu.“

Eins og þetta hafi ekki verið nóg til að belgja út sjálfstraust piltanna frá Siglufirði, ákvað hópurinn að halda tónleika í Salnum í Kópavogi og fagna í leiðinni söngafmæli Þuríðar. Dagskráin fékk nú nafnið Minningar og þar rifjar söngkonan upp feril sinn í tali og tónum, segir sögur af sjálfri sér og kollegum sínum.

Það er skemmst frá því að segja að uppselt var á fyrstu tónleikana, sem áttu að vera þeir einu, í júní. Öðrum tónleikum var þá bætt við nú í lok september og þá komust færri að en vildu svo nú hefur verið ákveðið að bæta þriðju tónleikum við og verða þeir haldnir 27. október næstkomandi. Gestasöngvarar í Salnum eru Jóhann Vilhjálmsson og Sigurður Pálmason.

„Undanfarnir mánuðir hafa verið ævintýri líkast og við félagarnir glaðir að fá að endurtaka leikinn frá því fyrir 25 árum. Við erum greinilega ekki þeir einu sem hafa gaman af að hlusta á það sem við höfum upp á að bjóða. Fólk hefur gaman af að rifja upp gamla daga og kannski getum við kennt ungu kynslóðinni eitthvað um leið og við skemmtum okkur sjálfum.“ Segir Birgir um leið og við kveðjum hann.



Birgir Ingimarsson



Magnús Guðbrandsson

Texti: Helga Rún
Myndir: Salurinn

 


Athugasemdir

29.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst