Fróðleiksmoli - Díxill

Fróðleiksmoli - Díxill Díxill, beykisöxi, er helsta verkfæri beykisins, tunnusmiðsins og eitt af einkennistáknum síldarsöltunar um aldir. Díxillinn var

Fréttir

Fróðleiksmoli - Díxill

Díxlar
Díxlar
Díxill, beykisöxi, er helsta verkfæri beykisins, tunnusmiðsins og eitt af einkennistáknum síldarsöltunar um aldir. Díxillinn var notaður við alla tunnuvinnu, allt frá smíði hennar og að eftirsóttri markaðsvöru; full tunna af gómsætri og hollri fæðu.


Með díxlinum er botninn sleginn úr tunnunni og í hana aftur.
Botninn tekinn úr: Að slá upp, uppsláttur.
Botninn settur í: Slegið til, tilsláttur.
Díxilmenn hétu þeir sem höfðu þennan starfa á hverri söltunarstöð.

Díxlarnir voru nokkuð misjafnir að stærð og þyngd, þannig voru uppsláttardíxlar að jafnaði léttari en tilsláttardíxlar.

Díxillinn er eins og blanda af hamri og öxi, með mjóu bognu blaði og all efnismiklum skalla.
Beitt og hvasst blaðið á “axar” hluta díxilsins var fyrst og fremst notað til að höggva til svigaböndin á meðan þau voru notuð sem gjarðir til að halda saman tunnunni. Hvert svigaband höggvið í hæfilega lengd og síðan voru höggvin hök í báða enda trébandsins þannig að þau gripu hvort á móti öðru og “læstu” hringnum. Til þessa verks og til að reka svigana á tunnurnar voru notaðir bandadíxlar sem voru minni og nettari en járngjarða-díxlarnir.

Orðið díxill er tökuorð í íslensku, sennilega komið frá Noregi ásamt þeirri þekkingu sem fylgdi notkun verkfærisins. Til Norðurlanda hefur verkfærið og nafnið upphaflega komið frá Hollandi – að líkindum, því þar var upphaf gríðarmikillar tunnunotkunar fyrir síldarsöltun.
Þannig barst verkþekkingin og orðanotkun henni tengd frá einni þjóð til annarrar. Og í samhengi síldarsögunnar má segja að einn kenndi öðrum að veiða og verka síld – til að afla fæðu og auðgast!
Verkfærin, þekkingin og tungutakið fluttist frá einni þjóð til annarrar.

hollenska: dissel
þýska: deichsel, dechsel
norska: diksel
finnska: dikseli
íslenska: díxill, dixill
Á myndinni eru tilsláttardíxill með botnajárni í stað axarblaðs, venjulegur (gamall) tilsláttardíxill og bandadíxill.

Síldarminjasafn Íslands - ök


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst