Spjallað við burtfluttan – Árna Valdimar Þórðarson.

Spjallað við burtfluttan – Árna Valdimar Þórðarson. Ég var á röltinu um Aðalgötuna á Siglufirði á dögunum, þegar ég rakst á hann Árna sem ég hef ekki séð

Fréttir

Spjallað við burtfluttan – Árna Valdimar Þórðarson.

Árni Þórðar. Ljósmyndari Birgir Ingimarsson
Árni Þórðar. Ljósmyndari Birgir Ingimarsson
Ég var á röltinu um Aðalgötuna á Siglufirði á dögunum, þegar ég rakst á hann Árna sem ég hef ekki séð í áratug eða svo. Hann stóð fyrir framan Sparisjóðinn og spjallaði við nokkra sveitunga sem höfðu staldrað við til að heilsa upp á þennan ágæta dreng sem sést reyndar ekkert allt of oft á heimaslóðum.

“Er þetta virkilega hann Árni” hugsaði ég þegar ég nálgaðist, “jú, þetta er alveg örugglega hann Árni Þórðar.” Hann heilsaði mér með miklum virktum eins og við búast mátti af honum og ég bætti sjálfum mér í spjallhópinn. Þar sem við stóðum þarna, minntist ég þess að ég hafði tekið með mér diktafóninn norður og hugsaði þá með mér að nú bæri virkilega vel í veiði.

“Heyrðu Árni, við þurfum að spjalla svolítið saman við svolítið rólegri og einangraðri aðstæður” sagði ég en hann hváði svolítið skilningsvana.

“Jú, við þurfum að rifja upp kajakárin á Leirunum, næstu ár á eftir og svo vil ég fá að vita hvað þú ert að gera í dag.”

 Þá kviknaði á perunni og hann áttaði sig á hvert ég var að fara. Það var auðsótt mál og daginn eftir leit hann inn í kaffi og við tókum tal saman.


Stoltar systur þær Tóta, Sigga og Dísa með litla prinsinn ungan að árum.

(Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Ég fæddist á Túngötu númer 26 (sem er húsið á horninu gegnt gamla Allanum og Hólakoti) árið 1954, en flutti held ég bara nokkra mánaða gamall á Laugarveginn þar sem ég bjó allt þar til ég skreið endanlega úr hreiðrinu. Það var ómetanlegt að alast upp fyrir ofan Leirurnar sem voru leikvöllur okkar krakkanna í suðurbænum og þar var ævintýrahöllin okkar Sjávarborg byggð úti í sjónum.

 

Mig minnir að upphafið hafi verið með þeim hætti að við vorum nokkrir strákar á samkomu í Herkastalanum og þar voru sýndar myndir af kofum sem voru byggðir á staurum úti í sjó. Þetta þótti okkur alveg rosalega flott og við vildum endilega reyna þetta líka. Það voru því í framhaldinu nokkrir guttar af Laugarvegsendanum sem stóðu saman að þessu framtaki, þ.e. ég, Þórður bróðir, Kiddi og Árni Haralds, Baddi og Kjartann Óla, Maggi Ben, Brandur Jóns, Bjössi Ingiborgar og vonandi gleymi ég engum.

 

Við byrjuðum á því að ná okkur í tóma kapalrúllu á haugunum og rúlla henni suður Leirurnar. Þar var hún lögð á hliðina og varð undirstaða byggingarinnar. Við drógum að okkur allt það timbur sem við náðum í. Mikið af því kom úr snurpunótabátunum á Langeyrinni, en auðvitað alveg heill hellingur af haugunum. Á þessum tíma var Jón Björnsson að byggja og hann gaf okkur háffulla tunnu af bognum nöglum úr uppslættinum sem var mikil búbót og entist okkur lengi.

 

Við byrjuðum á að reisa kofa ofan á rúllunni en þegar við áttum eftir að þekja, kom stórstraumsflóð og það flaut svo hátt yfir gólfið að stígvélin dugðu ekki einu sinni til að halda okkur þurrum í fæturna. Við rifum þá allt niður, byrjuðum upp á nýtt og að þessu sinni var tekið tillit til sjávarfallana. Fyrst var aðeins einn kofi ofan á rúllunni, en seinna var prjónað við og byggingin stækkuð. Þetta var mikið ævintýri, við gistum stundum þarna og höfðum þá með okkur nesti og tilheyrandi. Samgöngur við Sjávarborg voru með tvennum hætti. Á fjöru var hægt að ganga þangað út, en þegar flæddi  notuðum við auðvitað kajakana sem voru gerðir úr bárujárnsplötum.


Sigga, Þórður yngri, Þórður eldri í Hrímni Árni, Gréta með Maddy í fanginu og Tóta.

(Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Miðvikudaginn 24. júní 1964 birtist stórskemmtileg frásögn í máli og myndum í Mogganum þar sem aðstandendur Sjávarborgarinnar voru teknir tali. Höfundur greinarinnar var Steingrímur Kristinsson sem veitti fúslega leyfi til birtingar hennar þegar leitað var efir því.


Sjávarborg. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar – Steingrímur Kristinsson)

 

“HÉR á Siglufirði tóku nokkrir vaskir drengir sig saman fyrir skömmu og byggðu þar  félagsheimili á staurum úti á sjó. Það er næstum fullbúið nú og hefur verið tekið í notkun. Húsið er 4 herbergi og gangur niðri, auk tveggja herbergja í risi Til flutninga til og frá húsinu, sem drengirnir nefna Sjávarborg, hafa þeir litla kænu. Ég er 80 kg að þyngd, en þeim óx ekkert í augum að ferja mig út í Sjávarborg þegar ég heimsótti þá á dögunum. Strákarnir stofnuðu í byrjun með sér  félagsskap í þeim tilgangi að reisa hús þetta, þar sem þeir gætu stytt sér stundir. Lög félagsins voru ekki mjög flókin, enda aðeins í gildi meðan Sjávarborg var í byggingu. Þau hljóða svo: Allir skulu vinna að  byggingunni meðan á verkinu stendur, en mæti einhver félagsmanna ekki til vinnu, skal hann greiða kr. 2.00 í sjóð, sem nota skal til að kaupa fyrir nagla og aðrar byggingavörur.

 

Árni, gjaldkeri, sagði mér á  ferjunni á Leiðinni út í Sjávarborg, að  nauðsynlegt hefði verið að meðlimirnir  fengju sér frí við og við, til þess að eitthvað  kæmi í sjóðinn. Annars kvað hann mest af  byggingarefninu hafa fengist í fjörunni og af  öskuhaugunum, sem eru þarna í grenndinni. Meðlimir félagsins hafa að sjálfsögðu með sér verkaskiptingu. Kristján er forstjóri, arkitekt, trésmíðameistari og uppfinningamaður, Árni gjaldkeri, Magnús  kokkur, Árni kyndari, Björn aðstoðarmaður, Kjartan hjálparkokkur, Þórður aðstoðarmaður, Björn aðstoðarmaður og Guðbrandur vélsög. Guðbrandur notar þó ekki vélsög við starfa sinna, heldur hefur verið skírður nafni þessu þar sem vinnubrögð hans í höndum þykja líkjast vélsög. - S.K.”

 

Kajakaútgerðin var svo auðvitað heill kapítuli út af fyrir sig eins og þeir vita sem til þekkja. Aðalefnið var bárujárnsplata sem helst þurfti að vera upp á 11 bárur, en það bárust auðvitað kynstrin öll af slíku efni á haugana. Það var hamast á henni með sleggju eða slaghamri og hún flött út og endarnir síðan brotnir saman utan um spýtustubba sem mynduðu stefni og skut. Yfirleitt var eitthvað um naglagöt á plötunni, en það var brætt í þau með stálbiki svo og auðvitað samskeytin til endanna.

 

 Þá þurfti að búa til ár sem var oftast gerð út sóp eða hrífuskafti og masonít eða krossviðspjötlum sem voru negldar á endana. Þar með var farkosturinn tilbúinn og ekkert því til fyrirstöðu að sigla út á pollinn. En það var ekkert sérlega vel séð að krakkar úr öðrum hverfum kæmu á Leirurnar eða væru að sniglast um svæðið okkar. Ef einhverjir aðkomuguttar skildu kajakana sína eftir í fjörunni hjá okkur eða á haugasvæðinu að kvöldi, máttu þeir ganga að því sem vísu að þeir sigldu ekki framar því að morgni var undantekningalítið búið að brjóta þá nokkuð snyrtilega saman.


Í fjörunni fyrir neðan Laugarvegsendann.

(Ljósmyndasafn Siglufjarðar – Steingrímur Kristinsson)

 

Yfirleitt lét löggan okkur í friði ef við héldum okkur innan við stálþilið, en það kom þó fyrir að einhverjir voru að þvælast óþarflega langt út fyrir þilið, út á höfnina eða jafnvel alla leið yfir í Evangerrústirnar. Þá varð yfirleitt allt vitlaust og sú umræða blossaði jafnvel upp að þetta gæti verið hættulegt eða eitthvað svoleiðis. Í kjölfarið mátti þá búast við að löggan léti sjá sig á svæðinu og gerði jafnvel einhver fley upptæk sem okkur þótt ekki gott. Það breytti þó sáralitlu máli því einn eða tveir guttar sem kunnu þokkalega til verka gátu auðveldlega smíðað nokkra kajaka á dag.

 

Slíkar aðgerðir heyrðu þó frekar til undantekninga, en ég vissi að það var mun betur fylgst með kajakaútgerðinni í Hvanneyrarkróknum sem var líka talsverð. Ég sagði það einhvern tíma við hana mömmu gömlu að ef foreldrar liðu krökkum það í dag sem við komumst upp með á sínum tíma, væri viðbúið að barnaverndaryfirvöld gripu inn í og það jafnvel með einhverjum afgerandi aðgerðum. En frjálsræðið var næstum því algjört, við vorum farin út um leið og við vöknuðum, komum kannski heim ef við vorum svöng og svo aftur rétt til að sofa yfir blánóttina.


Á leið út í Sjávarborg. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar – Steingrímur Kristinsson)

 

 Við vorum alltaf eitthvað að busla í sjónum og við fjöruborðið, en á þessum tíma runnu fimm eða sex litlir opnir lækir út í fjöruna milli öskuhauganna og Langeyrar. Þetta voru síður en svo einhverjar tærar lindir, því að í þá voru tengd frárennsli syðsta hluta suðurbæjarins. Við gengum stundum milli þeirra, töldum smokkana sem lágu þar milli fjörusteinana og reyndum að heimfæra þá upp á íbúana í húsunum fyrir ofan. Þetta hefur líklega verið okkar fyrsta lexía í líkindareikningi. Einu sinni fluttu ung hjón í hús sem stóð mjög sunnarlega í bænum og þá fjölgaði smokkunum verulega í einum læknum sem okkur fannst alveg rosalega fyndið. En fjaran var líka baðströndin okkar, þarna busluðum við heilmikið á sumrin og engum varð meint af.


Öskuhaugasvæðið í forgrunni, eða haugarnir eins og við nefndum svæðið. Næst okkur eru steinprammarnir þar sem búið var að reyna fiskeldi löngu áður en það taldist vera orðin atvinnugrein hérlendis. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar – Steingrímur Kristinsson)

 

Við vorum líka mikið úti í steinprömmunum sem Óskar Halldórsson flutti inn á sínum tíma. Þar gerðum við alls konar tilraunir m.a. með fiskeldi. Inni í þeim var alla jafna flóð og fjara, en við stífluðum götin sem höfðu verið gerð undir sjólínu og slepptum síðan seiðum í þá. Við reyndum að rækta silung, kola og e.t.v. eitthvað fleira en það skilaði nú litlum árangri. Haugarnir voru líka sá hluti af leiksvæðinu sem skipti ekki minnstu máli, því þar mátti finna ótrúlegurstu hluti. Ef bíll sást koma þangað og losa eitthvað drasl, var eins víst að eftir stutta stund væru nokkrir guttar komnir hlaupandi og farnir að gramsa í því leitandi að einhverju nýtilegu eða bara af einskærri forvitni. Stundum söfnuðum við þar heilmiklu af gosflöskum sem við seldum síðan niður í bæ og náðum í einhverjar krónur sem við nýttum til efniskaupa eða bara í gotterí.


Leiksvæðið okkar, innfjörðurinn eða Leirurnar eins og þær litu út um það leyti sem ég fór að muna eftir mér. Þarna var innri uppfyllingin rétt að byrja að myndast og þarna áttum við guttarnir okkar bestu stundir. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar)

 

Á veturna vorum við mikið á skautum í mýrinni eða lænunni austan við nýja flugvöllinn og á pollinum sunnan við Langeyrina. Þarna var lítil selta og því mynduðust alveg frábær skautasvell á þessum stöðum. Það var ekki mikið um að fullorðna fólkið væri að skauta með okkur krökkunum en það kom þó fyrir. Ég man best eftir Kela Ben, en hann var algjör snillingur. Það var alveg ótrúlegt að sjá til hans, en hann gerði hluti sem maður hélt að væri alls ekki hægt að gera.

 

En okkur var hálfilla við sanddæludýpin hvort sem við vorum siglandi, gangandi eða skautandi, en þau voru tvö. Annað var meðfram öllum nýja flugvellinum, en hitt út af Langeyrinni. Þegar það var stórstraumsfjara var hægt að ganga nánast þurrum fótum yfir fjörðinn, en sandbotninn var mjög bleytukenndur við dýpin. Mig minnir að að hafi verið Árni Haralds sem einhverju sinni hætti sér aðeins of nálægt barminum og festist ofan í sandinum. Við gátum þó náð honum upp þar sem hann var komin í frekar vond mál, orðinn blýfastur og sökk alltaf dýpra og dýpra. En engu að síður var innfjörðurinn og næsta nágrenni hans algjör Paradís fyrir krakka, ég fer ekki ofan af því.


Með þórði litla bróður á skíðum. (Myndina tók annað hvort Óli eða Pétur Konn.)

(Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Ég hætti í skóla eftir þriðja bekk og fór þá að vinna á planinu hjá pabba. Þar voru eitthvað yfir fjörutíu stæði og við bræðurnir skiptum með okkur verkum, en við vorum þó mest í því að sjá síldarstúlkunum fyrir hringjum og tómum tunnum. Þrátt fyrir að við værum ekki í erfiðustu verkunum gat þetta verið lýjandi og við vorum oft þreyttir. Einhvern tíma urðu stelpurnar alveg organdi vitlausar því það vantaði bæði tunnur og hringi, en þá átti Þórður bróðir að vera á vaktinni. Ég varð auðvitað að bjarga málunum í hvelli en þegar ég ætlaði að velta einni tómtunnunni var hún alls ekki eins tóm og hún átti að vera. Þórður hafði nefnilega skriðið inn í hana og sofnað.

 

Ég möndlaði hana þá varlega fram á bryggjukantinn og vakti hann með miklum látum. Hann gægðist út og sá þá bara ofan í grútinn við bryggjustaurana, en ég sagðist myndu sturta honum í sjóinn nema hann borgaði mér fimmkall næst þegar hann fengi útborgað. Þú getur rétt ímyndað þér hvort hann var ekki fljótur að samþykkja það alveg nývaknaður og við þessar aðstæður.

 

Maður kynntist mörgum skemmtilegum karakterum í síldinni, en síðast þegar ég vann á plani var ég beykir hjá Skapta á Nöf. Það var að hausti til, undir lok síldarævintýrisins og í síðasta skipti sem Skapti saltaði. Maggi Ben var að vinna þarna líka og við vorum að pækla með karlinum. Skapti borgaði mér aðeins hærri laun en öðrum því honum fannst ég vera svo góður beykir. Hann spurði þá hver hefði kennt mér handtökin og ég sagði honum eins og var að það hefði verið hann Steini Gosa sem var mikið í Hrímni.


Hrönn SI 44 við bryggju, en á henni sjóaðist ég. Ældi þó eins og múkki fyrsta mánuðinn en hef ekki fundið til sjóveiki síðan. (Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Pabbi keypti síðan trillu og það var róið stíft, en við strákarnir fáruðumst mikið yfir því að þurfa að fara á sjó þegar jafnaldrar okkar voru að leika sér. Karlinn fór á sjó í öllum veðrum, og oft var það svo að engum öðrum datt í hug að róa. Ef það var austanátt var farið inn á Hraunamöl og þar drógum við smáfisk sem var saltaður í bútung og seldur í fiskbúðir í Reykjavík eða einhvers staðar, en ef hann blés að vestan var farið inn á Héðinsfjörð.

 

Í fyrstu var trillan opin, en hann fékk Konna bátasmið til að aðstoða sig við að smíða stýrishús á hana. En eftir á að hyggja, þá var þetta mjög skemmtilegur tími. Pabbi keypti líka plastbát með utanborðsmótor sem var einhver fimmtán hestöfl eða svo. Það dugði til þess að draga fólk á sjóskíðum um fjörðinn og eitthvað vorum við jafnvel að láta menn borga fyrir þá þjónustu þó ekki væri nema fyrir bensíni. Mig minnir að það hafi verið Þ. Jónsson sem flutti inn sjóskíðin sem voru algjör nýjung. Þetta hefur líklega verið fyrsta sjóskíðaleigan á Íslandi, en það var oftast í lygnunni á kvöldin sem við vorum að og þá var yfirleitt biðröð.


Árni með Jónas litla bróður um það leyti sem hann gerðist togarasjómaður.

(Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Við Ásbjörn Blöndal og Steini Þóroddar vorum miklir mátar og gerðum auðvitað eitt og annað af okkur sem er ekki rétt að vera að segja neitt mikið frá, að minnsta kosti er það varla orðið tímabært ennþá. En ég man þó eftir því að húsmóðir við Laugarveginn var stundum eitthvað að gera okkur lífið leitt, skammast að okkur fannst af litlu tilefni og leggja okkur lífsreglurnar. Við vorum búnir að fá meira en nóg af nöldrinu í henni og ákváðum því að þakka fyrir okkur á viðeigandi hátt. Þannig var að Óli Blöndal hafði keypt gríðarlegt magn af Royal búðing á einhverju ótrúlega mikið niðursettu verði og við náðum okkur í nokkra pakka. Við tróðum upp í okkur alveg eins og við gátum af búðingsduftinu og bönkuðum síðan upp á hjá henni. Um leið og þessi ágæta kona opnaði dyrnar blésum við og hún huldist vanillu, karmellu og súkkulaðiduftskýi. Við hlupum auðvitað í burtu og þegar fór að rofa til vorum við löngu horfnir. Ég held að hún hafi ekki séð hverjir þetta voru, alla vega bar hún þetta prakkarastrik aldrei upp á okkur.

 

Annars minnir mig að það hafi stundum komið fyrir að snjókúlur flugu gegn um loftið og rötuðu á flesta glugga eftir endilöngum Laugarveginum ef við áttum leið þar um og auðvitað var hringt á öllum dyrabjöllum í leiðinni. Þegar ég byrjaði í sexárabekk í barnaskólanum kenndi Arnfinna okkur og það var nú meiri aginn þar. Ég man að hún rak mig einu sinni út af því að ég klikkaði á reiknisdæminu 4+3. Ég var þá tekinn upp og stóð ráðþrota við töfluna án þess að vera með útkomuna á hreinu og var fírað út á gang með það sama. Einu sinni stóð Árni Friðgeirs upp, ávarpaði kennslukonuna á þann hátt sem hún krafðist af okkur og var greinilega mjög órólegur. “Frú Arnfinna, má ég fara á klósettið?” Árni fékk afdráttarlausa neitun og átti nú greinilega enn erfiðara með sig en áður. Hann ákvað að nálgast vandamálið frá hliðarlínunni og stóð aftur upp. “Frú Arnfinna, má ég ydda blýantinn minn?” Hún horfði yfir gleraugun á Árna og jánkaði því. Árni gekk þá hröðum skrefum með blýandinn og tálgarann í hendinni að ruslatunninni sem var í horninu á stofunni. Allt í einu heyrðist eitthvað bunulækjarhljóð við ruslatunnuna og, frú Arnfinna stökk á fætur og Árni fékk “flýtimeðferð” fram á gang.

 

 Einhvern tíma mættum við með sirkla í skólann, en þá vorum við líklega orðnir 11 ára. Við laumuðumst til að stinga stelpurnar í rassinn í röðinni og Haukur sem kenndi okkur, hastaði á þær fyrir orgin og skrækina sem okkur fannst auðvitað mjög gaman. Jóhann Þorvalds kenndi okkur svo í 12 ára bekk og við þorðum ekki að hreyfa okkur hjá honum. Hann var hörku góður kennari og við krakkarnir lærðum mjög vel hjá honum. Þegar við vorum komnir í 1. bekk í Gagganum datt okkur í hug að gera svolítinn usla í tíma, við drógum upp spilastokk, settumst í kring um eitt borðið og fórum að spila í tíma. Fleiri bættust síðan við og áður en yfir lauk var farið að spila einum fimm borðum. Þetta var í tíma hjá öndvegiskarlinum honum Guðbrandi, en lengi vel gerði hann ekkert veður út af þessu. Að lokum brast hann þó þolinmæðina og stjakaði hressilega við Þorgeiri Reynis sem átti það alveg margfalt skilið. Daginn eftir settum við upp mikinn leikþátt, útbjuggum fatla á Þorgeir og plástuðum hann í bak og fyrir. Guðbrandur varð alveg miður sín en það var auðvitað ekkert að Þorgeiri. Maður hefur oft hugsað um það eftir á hvað það var með miklum ólíkindum sem hann Guðbrandur var búinn að líða okkur.


Kunnuglegt umhverfi sem vekur upp minningar um það sem horfið er. Bryggjurnar sem voru leiksvæðið okkar guttanna, Löndunarkranarnir á Rauðkuplani þar sem sprangkaðallinn var, Hrönn báturinn hans pabba bundinn við bryggju og Björninn að dýpkva úti á pollinum.

(Mynd úr fjölskyldualbúmi)

 

Við guttarnir vorum í skátunum og fórum stundum yfir á Ás þar sem við dvöldum í skátakofanum yfir nótt eða jafnvel helgi. Það voru skátaforingjarnir Siggi Ása, Jón Finnur og Örvar Möller sem tóku okkur strákabjánana að sér og við tókum ekki séns á að fíflast neitt í þeim. Hópurinn var ágætur samsetningur úr árgangnum og það sem við gerðum var mjög gefandi og skemmtilegt. Það var farið yfir um og verið í alls konar leikjum, stundum jafnvel í kolvitlausum veðrum, en það var bara öðruvísi skemmtilegt. Foringjunum tókst með ágætum að halda uppi aga og við bárum virðingu fyrir þeim, enda voru þetta mjög ábyrgir ungir menn á þessum tíma.

 

Pabbi átti fiskihjall sem stóð við Laugaveginn þar sem húsið þeirra Sverris og Guðnýar Sölva stendur núna. Hann þótti alveg sérstaklega heppilegur til að notast við þegar við fórum í “yfir” sem var ekki svo lítið vinsæll leikur. Þá voru það tveir af foreldrunum í hverfinu sem áttu það til að koma út og taka þátt í leiknum með okkur, en það voru Ægir rakari og Bassi Möller. Okkur krökkunum þótti mikill fengur af að fá þá í leikinn með okkur. Við áttum það líka til að ná okkur í eitt og eitt harðfiskflak í hjallinum og tókum hann þá “ófrjálsri hendi” eins og það er stundum kallað, en á móti kom að við pössuðum hann ákaflega vel í staðinn fyrir öðrum og utanaðkomandi.

 

 En eins og ég sagði áðan er ekki alveg orðið tímabært að segja frá sumum gömlu skammarstrikunum. Alla vega ekki meðan maður er enn með 16 ára ungling á heimilinu. Það fengum við Ásbjörn vinur minn að reyna einhvern tíma úti á Nesi, en við fórum þangað einu sinni yfir helgi og tókum krakkana með. Þegar leið á kvöldið og allt komið í ró að við töldum, settumst við niður, fengum okkur kaffi og koníak og duttum síðan í spjallgírinn. Við rifjuðum upp flest þau gömlu skammar og prakkarastrik sem við mundum eftir og höfðum auðvitað mjög gaman af.

 

 Allt í einu heyrðist eitthvað þrusk uppi á skörinni og við fórum auðvitað að athuga hverju sætti. Þá lá krakkahópurinn þar og var auðvitað ekkert nema eyrun, því þau höfðu verið að hlusta á gömlu mennina rifja upp ferilskrána. Þeim hafði aldrei dottið í hug að fullorðnir menn hefðu hagað sér alveg nákvæmlega eins og hafði alla tíð verið brýnt fyrir þeim að mætti alls ekki vera eða gera. Það þýddi mér því lítið að setja ofan í við þau í mörg ár á eftir sama hvað þau gerðu af sér, því þá var bara farið að rifja upp einhverja tröllasöguna sem þau höfðu heyrt á Nesinu forðum.


Haförninn að landa í fyrsta sinn á Siglufirði 18-19 þúsund málum.

(Ljósmyndasafn Siglufjarðar – Steingrímur Kristinsson)

 

Ég fékk að vera messagutti eitt sumar á Haferninum og þá hef ég líklega ekki verið meira en fjórtán ára eða svo. Þá var Jónas Bubba löggu þar líka og einnig bryti sem hét Sverrir Torfason, en hann hafði verið á mótorbátnum Fróða þegar það var skotið á hann í stríðinu. Hann var svolítið strekktur karl en samt mjög skemmtilegur karakter. Þegar hann var að segja frá vitnaði hann oft í okkur græningjana og sagði “eins og Jónas veit” eða “eins og Árni veit” o.s.frv. Þetta þótti okkur svolítið skrýtið en gengumst kannski pínulítið upp við þessa stérstöku framsetningu.

 

Þá vorum við að flytja síld frá Jan Mayen svæðinu og vorum þar yfir mest allt sumarið. Við fórum þar í land og skoðuðum okkur um, en við komum líka til Svalbarða. Þar fórum við á bátnum upp í fjöruna og skildum hann eftir meðan við rannsökuðum svæðið svolítinn dagspart. Þar var ákaflega sérstakt skipbrotsmannskýli sem við stöldruðum við í. Fyrir utan það lágu stærstu hvalbein sem ég hef séð á víð og dreif, en inni voru líka hvalbein og þau voru notuð í mjög hagnýtum tilgangi. Meðal annars voru hryggjaliðir úr hval notaðir sem kollar við borðið sem þar var.

 

Þegar við ætluðum svo aftur út í skip, hafði fjarað svo mjög að báturinn var lengst uppi á landi. Rétt við fjörukambinn rakst ég á alveg rosalega flottan hundasleða, hnýttan saman með ólum og vildi endilega taka hann með. Karlarnir tóku það hins vegar ekki í mál, því þeim fannst alveg nóg að bera bátinn alla leið niður að sjónum þó ekki væri bætt á byrðarnar. Þegar við komum um borð sagði ég Sigurði Þorsteinssyni sem þá var skipstjóri frá þessum merkilega grip og hann vildi helst fara aftur og sækja hann, en það varð nú samt ekkert úr því. Seinna áttaði ég mig á hvað mikið var af ísbjörnum þarna. Ég er ekkert viss um að við hefðum verið eins spenntir fyrir að fara þarna í land og við vorum, ef við hefðum vitað af öllu því dýralífi.


Hafliði SI 2 í Hafís. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar.)

 

Sumarið eftir var ég á Hafliða hjá Adda Jóns. við vorum þarna austur frá og fiskuðum vel og það var alveg þrælgóður tími. Ég átti upphaflega að vera á hálfum hlut því ég var ekki nema fimmtán ára gamall. Ég hef þó sennilega staðið mig alveg þokkalega vel, því ég fékk heilan hlut þegar kom að uppgjöri. Um haustið fór ég í skólann, en fékk frí síðustu vikurnar fyrir jól til að fara aftur á Hafliða og þá í siglingu. Það var landað í Aberdeen í Skotlandi og þetta var auðvitað alveg gríðarleg lífsreynsla. Ég man hvað það var rosalega kalt í Skotlandi og inni á knæpunum var kannski bara logandi í einum arni sem dugði mjög skammt.

 

Eftir þriðja bekkinn ákvað ég að hætta í skóla og fara á sjóinn. Ég var alveg hættur að nenna að líta í skólabækurnar og árangurinn var auðvitað eftir því, en svo voru menn farnir að slarka eitthvað líka. Ég var samt búinn að marka stefnuna og var ákveðinn í að fara í Stýrimannskólann. Það stóð reyndar til að gera það strax, en eitt og annað varð til þess að það dróst um nokkur ár. Ég var með Adda einhvern tíma á Hafnarnesinu sem Ísafold gerði út, en flæktist líka eitthvað á milli skipa.


Með Óttari heitnum Bjarna á góðum degi um borð í Hafliða  um 1971.

(Ljósmyndasafn Siglufjarðar)

 

Ég fór aftur á Hafliða og nú var margt með öðru sniði en áður hafði verið, því ég var orðinn einn af þeim eldri á dekkinu. Þar voru þó menn eins og Sævar í Gröf (sonur Binna) og Guðmundur úrsmiður sem kallaður var af því að það voru svo stórar á honum hendurnar, en hann var bátsmaður. Ég held að flestir aðrir hafi verið á svipuðu reki og ég og þó fleiri yngri eins og t.d. Biggi Inga, Jóel Kristjáns o.fl. Þá var Varði gamli skipstjóri tekinn við af Adda. Árið 1973 tók ég mig til, settist á skólabekk á Núpi í Dýrafirði og kláraði þar gagnfræðaprrófið. Þaðan fór ég menntaskólann á Akureyri en hætti þar eftir fáeinar vikur því ég fann að bóknámið átti alls ekki við mig.

 

Næst lá leiðin um borð í Sléttbak sem var skuttogari keyptur frá Færeyjum, en þar voru margir skemmtilegir karakterar. Við vorum ekki margir ungir menn þar um borð, þetta voru aðallega eldri karlar og margir miklir reynsluboltar. Þaðan lá leiðin út á Dalvík þar sem ég var á Björgvin í eitt ár eða svo, en eftir það kom ég aftur heim og fór að vinna með pabba í að steypa handlaugar og sólbekki úr gerfimarmara. Líklega hefur sá kafli staðið yfir í tvö eða þrjú ár og það er svo 1980 sem ég dríf mig loksins í Stýrimannaskólann. Eftir skólann fer ég aftur á Dalvík og gerist annar stýrimaður á Dalborginni hjá Snorra Snorrasyni. Ég var þar í ein þrjú ár og síðan önnur þrjú á Björgúlfi, en eftir það færi ég mig um set og þá aftur til Akureyrar. Þar er ég hjá ÚA á Kaldbak enn eitt þriggja ára tímabilið, en eftir það fer ég yfir til Samherja.

 

Ég hafði ákveðið það snemma að vera aldrei mjög lengi á sama skipinu, heldur kynnast fleiri skipum, fleiri körlum og víkka sjóndeildarhringinn hægt og bítandi. Ég hef stundum sagt það við hann bróðir minn sem er búinn að vera lengi á sama skipinu að menn staðni, verði eins og breskir vagnhestar, sjái bara beint áfram og að lokum megi aldrei breyta nokkrum einasta hlut.


Slakað á við strendur Afríku.


Á veiðum við Afríkustrendur. Spáð í næsta leik.

 

Ég var búinn að hugsa um það í nokkurn tíma að það væri kominn timi til að reyna eitthvað nýtt. Á tímabili var ég um það bil að fara til Nýfundnalands, líklega um 1986. Þá var mikill uppgangur þar, þaðan komu skip til lengingar og allir voru sem óðast að kassavæðast. Ég var búinn að tala við Íslending sem var hjá National Sea og hann sagði mér bara að koma, en einhvern veginn æxluðust hlutirnir þannig að ég fór ekki vestur. Veiðarnar og vinnslan á Nýfundnalandi hrundu nokkrum árum síðar og ef maður hefði farið, hefði leiðin líklega legið áfram og yfir á vesturströndina. Kannski hefði maður svo bara endað þar.

 

 Við Íslendingar tölum stundum um að við eigum heimsins bestu fiskimið, séum með besta fiskveiðikerfið og jafnvel duglegustu sjómennina, en það hefur lengst af verið minna í umræðunni að íslendingar hafi verið að fóta sig erlendis. Færeyskir skipstjórnarmenn hafa hins vegar farið um allt og þvælst um öll heimsins höf hjá hinum og þessum þjóðum. Ég var búinn að vera að fylgjast með því hvað Sjólaskipin voru að gera niðri í Afríku og það kitlaði mig svolítið.

 

 Ég hafði fengið fregnir frá hinum og öðrum um þær veiðar sem þarna voru í gangi. Á þessum tíma var ekki komið kvótakerfi eins og hér var, þar sem maður var sendur eins og einhver hlaupatík út í næstu búð eftir einhverju sem vantaði hverju sinni. Sækja þetta mörg tonn af þessu, svona mörg tonn af hinu, koma með þau klukkan þetta og landa þeim hér eða þar. Mér fannst svoleiðis veiðiskapur orðinn alveg hundleiðinlegur og menn fengju ekki lengur að njóta sín.


Janus skipið sem ég byrjaði með innan um pálmatré í slippnum í Las Palmas.


“Millifærsla” til sjós…

 

En það var samt gaman að vinna hjá Samherja á sínum tíma, þetta var ungt fyrirtæki og í bullandi uppsveiflu. Það var margt prófað og gerðar alls konar tilraunir, þetta var skemmtilegur tími og ég var að vinna þarna með mjög skemmtilegu fólki. Ég fór túr og túr á erlendu skipunum, var stundum niðri í Þýskalandi í Kiel og hér og þar. Það var farið í Barentshafið, á Flæmska hattinn og víðar. Ég var skipstjóri á Baldri Þorsteinssyni þegar það fékk nótina í skrúfuna og lenti upp í fjöru á Skeiðarársandinum hérna um árið. Það var ansi mikil lífsreynsla en til allrar hamingju slasaðist enginn og skipið náðist út. Einhverjum árum eftir það átti svo að færa mig alfarið yfir á erlendu skipin þeirra, en þá hætti ég. Ég hafði staldrað við lengur en á nokkrum öðrum stað eða í heil 15 ár og var búinn að fá nóg í bili. Þetta var líka hætt að vera gaman, fyrirtækið og stefna þess var breytt og eignarhaldið líka.


Horft niður á dekkið á Blue Wave.


Nýbúið að taka umbúðir um borð.

 

Sjólabræður í Hafnarfirði byrjuðu með eitt skip niður við norðvesturströnd Afríku sem fjölgaði í þrjú og síðan í sex. Ég byrjaði hjá þeim árið 2005 og var þar í svolíltinn tíma. Það er veitt undan ströndum Marokkó, Vestur-Sahara, Máritaníu og suður undir Senegal 25-30 þúsund tonn á ári. Aflinn er aðallega sardína, sardinella, makríll og svokallaður hestamakríll sem er sprettharður og skemmtilegur fiskur og ekki ósvipaður bleikju á bragðið. Sardinella er stundum kölluð Afríkusíld, lítur út eins og frekar stór síld en litskrúðugari og beinastærri.

 

Við hjónin fluttum niður á Grand-Kanarí og höfum búið þar síðan. Útgerðin er eiginlega rekin þaðan og í Las Palmas er stór slippur þar sem skipin koma til viðhalds og viðgerða u.þ.b. annað hvert ár. Ég byrjaði á spænsksmíðuðu skipi sem er 108 metra langt og 20 metra breitt. Upphaflega hafði það verið smíðað fyrir Rússa og er sams konar og Engey, en þessi skip taka 2500-3000 tonn af frystum afurðum í lestar. Skipið er raunar eins og fljótandi verksmiðja, allur fiskur sem kom um borð var stærðar og tegundaflokkaður, síðan frystur og þarna er líka mjölvinnsla. Afurðirnar fara síðan á markað í norður og vestur Afríku, eða allt frá Nígeríu til Egyptalands og telst vera tiltölulega ódýr. Árið 2006 er svo Samherji aftur kominn inn í myndina þegar það fyrirtæki kaupir Sjólaskip. Ég kláraði þá samninginn minn og hætti, það voru komnir nýjir húsbændur og okkur samdist m.a. ekki um laun.


Kominn upp í slipp og svona lítur Janus út fyrir málningu.


Búið að mála og snurfusa Janus sem nú heitir Achilles.


Janus, skipið sem ég var áður með.


Seinna var ég með Blue Wave.

 

Ég vissi eiginlega ekkert hvað ég ætti að gera næst og var jafnvel að hugsa um að drífa mig heim á grásleppu. Þá bauðst mér að taka við skipi sem íslenskir aðilar voru nýbúnir að kaupa. Það er 126 metra langt, 19 metra breitt og með 104 karla í áhöfn. Hún samanstendur af 80 Rússum, 20 Máritaníumönnum og svo erum við 4 Íslendingarnir. Þetta er um 8000 tonna skip og tekur 2300 tonn í lestar af frystum fiski. Það var eitt af allmörgum skipum sem Þjóðverjar smíðuðu um 1990 fyrir Rússa sem hluta af stríðsskaðabótunum sem þeir voru þá enn að greiða. Ég er búinn að vera þarna um borð síðan, eða um tvö ár og þessi Afríkuár hafa verið minn skemmtilegasti tími á sjó. Þarna eru veðurfarið gjörólíkt því sem við þekkjum af Íslandsmiðum og svo er maður líka laus við þetta bölvaða kvótakerfi eins og það er hérna heima.

 

Til marks um veðurfarið gerðist það fyrir stuttu síðan að tveir karlar voru að fara á slöngubát á milli skipa, en þá vildi ekki betur til en svo að honum hvolfdi. Það var enginn stressaður yfir því, þeir voru í björgunarvestum og sjórinn var 22-24 gráður. Við vorum að hífa og kláruðum það en fylgdust auðvitað vel með þeim. Þá rak svolítinn spöl frá okkur, en að lokinni hífingu náðum við í þá. Þeir voru hinir sprækustu eftir hálfíma í sjónum og fannst þetta ekkert stórmál. En það er líka ýmislegt sem kom manni spánskt fyrir sjónir, t.d. samskipti við heimamenn og þá ekki síst yfirvöld, herinn eða strandgæsluna. Þá koma oft upp ýmsir spaugilegir fletir, en yfirleitt eru öll vandamál leyst á sama veg. Töfraorðið er undantekningalítið “present” og þá er allt komið í lag og allir orðnir vinir manns. Maður þarf að hafa eitthvað tiltækt til að gefa þeim sem sjá um eftirlit og það þarf ekki alltaf að vera merkilegt.

 

 Herinn sem sér um gæsluna sendir nokkuð reglulega menn um borð og þeir byrja alltaf á að tala um “present” og eiga það jafnvel til að prútta um væntanlega gjöf. Ef ekki er brugðist nógu fljótt við að þeirra mati, byrja þeir að leita að einhverju sem hægt væri að setja út á. Einum fiski sem er eitthvað aðeins styttri en reglugerðir segja til um, pappírum sem eru ekki rétt fylltir út eða bara einhverju. En öll svona mál leysast á endanum með “present.” Þegar maður sér ástandið hjá þessu fólki er kannski ekkert erfitt að skilja þessa hlið kúltúrsins því þarna er varla nokkuð til af neinu. Vörubretti eru t.d. ágætur gjaldmiðill og fyrir nokkur slík er búin að tryggja mjög góðan friðargrundvöll. Þau eru rifin sundur þegar í land er komið og timbrið notað til að byggja kofa í fátækrarhverfunum, en í útjaðri Nouadhibou eru stærðarinnar hverfi byggð úr eurobrettum.

 

 Yfirleitt eru þessir kofar eins og eitt hverbergi að stærð og fólk deilir því með geitunum sínum. Sorpinu er svo fleygt við vegkantana og þá koma geiturnar aftur við sögu, því þær éta það úr því sem ætilegt er en hitt hverfur smátt og smátt í sandinn. Það er ekki laust við að það sé svolítið broslegt að sjá þessi grey stundum japlandi á plastpokum og svoleiðis dóti.


Pokinn hífður inn á dekk.


Það er gaman þegar vel veiðist.


Allir tankar fullir og 150 tonn á dekki. Hvað er hægt að hugsa sér það betra?

 

Ég held að herinn sé að minnsta kosti tvisvar sinnum búinn að taka völdin síðan ég kom þarna, en hann er það sem við sjáum einna mest af landsmönnum. Þegar þeir koma til að fylgjast með umskipun og fá sínar eða sitt “present,” virðist þeim stundum vera svolítið stýrt úr landi. Ef það er eitthvað strögl í gangi um hve miklu telst hæfilegt að gauka að þeim þurfa þeir gjarnan að hringja upp á land. En þeir eiga það líka til að gefa okkur gjafir og ég á orðið arabaklæðnað sem dugar mér fyrir lífstíð og jafnvel þó ég myndi nota hann mikið. Annars eru þetta fínir og spjallgóðir náungar upp til hópa, en þeir trúa því hins vegar alls ekki þegar við segjum þeim að við eigum bara eina konu og hún ráði öllu. Það gengur ekki upp í þeirra huga að við Íslendingarnir stjórnum skipunum og veiðunum, Rússunum og hreinlega öllu um borð, en eigum svo bara eina konu sem ráði öllu. Það geti ekki verið því við séum greinilega ekki svona vitlausir.

 

 Annars á venulegur Arabi yfirleitt bara eina konu, en þeir meiga eiga fjórar. Svo skrýtið sem það er þá eru það yfirleitt þeir verr stæðu sem eiga fleiri konur og mér er næst að halda að ástæðan sé einhver metingur eða minnimáttarkennd. Ég hef stundum verið að segja við þá að fjórar konur þýði ekkert annað en fjórfalt vandamál, en þeir vilja nú hafa sína skoðun á því. Þeir fyllast samt greinilega talsverðri lotningu þegar ég segi þeim að ég eigi 13 börn með þremur konum og finnst það öllu trúlegra en hitt. Ég er auðvitrað ekkert að segja þeim að þá séu meðtalin barnabörn og barnabarnabörn.

 

 Máritaníumennirnir taka sína bænatíma eins og trúin segir til um og auðvitað Ramadan, sem er heldur meira mál úti á sjó. Þá má ekki neyta matar frá sólarupprás til sólarlags, en í landi eru þeir margir hverjir búnir að finna praktíska patentlausn á málinu því þeir sofa bara á daginn en vaka á nóttunni. Karlarnir eru líka svolítið misjafnlega trúræknir og stundum virðist ríkja talsverð hentistefna hjá þeim. Ef einhverjir eftirlitsmenn koma um borð sem virðast vera heittrúaðir verða þeir það líka um leið, en ef þeir eru frjálslyndir verða þeir alveg sultuslakir og mun minni tími fer í bænagjörð.

 

 Það kom manni svolítið spánskt fyrir sjónir að Máritaníumennirnir virðast ekki treysta hver öðrum nema upp að vissu marki og eiginlega alls ekki þegar um peninga var að ræða. Þeir vilja t.d. alltaf fá það uppáskrifað frá okkur um borð hvað þeir eigi að fá mikil laun á skrifstofunni þegar þeir koma í land í frí og svoleiðis. Það er eins og þeir reikni með að það verði reynt að prútta við þá eða eitthvað í þá áttina. Ég held að þetta sé tilkomið vegna þess hve alls konar mútur og sporslur eru samgrónar þjóðarsálinni. Allir sem koma nálægt nánast hverju sem er, reyna að klípa svolítið af kökunni fyrir sig. Einu sinni þegar ég var að fara á sjóinn frá Kanarí, kom að máli við mig umboðsmaður einhvers fyrirtækis eða útgerðar og spurði hvort ég gæti tekið fyrir sig svolítinn pakka til Afríku. Jú, jú, ég taldi það vera lítið mál, en þegar til kom reyndist pakkinn vera háffullur bakpoki af dollaraseðlum. Mér leist hreint ekki á innihaldið, en þar sem ég var búinn að gefa manninum vilyrði mitt vildi ég klára málið þrátt fyrir allt. Ég var ekkert sérlega rólegur þegar ég lagði upp í ferðina og gekk inn í flughöfnina á Kanarí, en um leið og ég var kominn inn úr dyrunum var ég kallaður upp og beðinn að hafa samband við tollafgreiðsluna. Það fór um mig og ég velti fyrir mér í hvern skrambann ég væri eiginlega búinn að flækja mér. Ég nálgaðist afgreiðsluna með hálfum huga og sá að þar var maður með einhverja bankapappíra. Mér datt í hug að nú yrði ég tekinn og krossfestur fyrir að reyna að smygla dollurum úr landi eða eitthvað þvíumlíkt, en þetta gekk allt saman fljótt og vel fyrir sig. Aðeins þurfti að skrá að peningasending væri á leið úr landi og ég kvittaði fyrir. Ég varpaði öndinni léttar og hugsaði mér að magaverkurinn sem ég hafði fengið hefði verið með öllu óþarfur.

 

Ég gekk út í vél og það var flogið yfir hafið til Máritaníu. Ég rölti frá borði og gekk inn í flugstöðina, en veit þá ekki fyrr en mér er kippt inn í herbergi og öllum útgönguleiðum lokað með það sama. Tollarinn dregur upp einhvern ógurlegan doðrant og mér dettur strax í hug að nú vilji einhver embættismaðurinn fá sinn bita af kökunni, eða ég sitji annars eftir í verulega vondum málum. Þarna talar varla nokkur maður ensku, franska er hins vegar annað tungumál í landinu sem ég skil ekki baun í. Ég sá því fram á að líklega yrði ég kominn á bak við lás og slá áður en dagurinn yrði allur. En þegar til kom reyndist maðurinn hinn almennilegasti og vildi bara fá staðfestingu á að féð sem fór frá Kanarí væri komið til Máritaníu. Síðan mátti ég bara fara og það þurfti ekki að borga neinum neitt sem mér fannst alveg með ólíkindum í þessu landi. Þegar upp var staðið reyndist þetta aðeins vera önnur útfærsla af sögunni um úlfaldann sem varð til úr mýflugu.


Arnar Berg trollmeistari og Árni að virða fyrir sér Bláuggatúnfisk áður en hann er matreiddur, en hann dugði í matinn í marga daga.


Ein af hinum fjölmörgu skjaldbökum sem eiga það til að slæðast af og til í trollið hjá okkur. Þessi varð frelsinu fegin þegar við slepptum henni þrátt fyrir að Rússarnir hafi mikið talað um hvað skjaldbökusúpa sé góð.

 

Svo er maður alltaf að heyra af því að þarna sé enn þrælahald. Það hefur jafnvel hvarflað að manni að einhverjir sem eru um borð gætu jafnvel verið að vinna fyrir húsbónda eða eiganda sinn. Þegar arabarnir koma fyrst um borð eru þeir undantekningalítið mjög holdlitlir, en nokkuð fljótir að taka við sér og verða mun pattaralegri. Þetta fjölþjóðlega samfélag um borð vinnur mjög vel saman og vandamál vegna mismunandi þjóðernis eru fátíð. Ég segi öllum það strax og þeir koma að rasismi sé ekki liðinn og áfengi stranglega bannað. Ef einhverjar ryskingar verða á milli Rússa og Araba, þá er það ófrávíkjanleg regla að báðir aðilar fara strax í land. Rússarnir eru líka þvílíkir Vodkaþambarar að upplagi að það þýðir ekkert annað en að taka á málinu af festu og þeir vita að ef þeir hella í sig eru þeir þar með farnir af skipinu.

 

Einhvern tíma varð ég að láta einn Rússann fara, félagar hans voru þá ákveðnir í að setja mér stólinn fyrir dyrnar og sögðu að ef ég léti hann fara þá færu þeir allir. Þá var birgðaflutningaskip á síðunni á okkur, ég gaf ekkert eftir og bað þá að gera lista yfir þá sem vildu fara. Þeir gætu síðan fengið far í land með skipinu þegar það legði frá, en ég fékk aldrei listann og það fór enginn í land nema þessi eini. Einstaka sinnum koma svartir menn um borð og þá fær maður stundum þá ónotalegu tilfinningu að kannski séu þeir í raun þrælar og eign einhverra araba sem þeir séu að vinna fyrir. Forsenda veiðileyfis er m.a. sú að viss hluti áhafnar verður að vera frá Máritaníu. Það hefur stundum komið í ljós og þá gjarnan eftir á, að sá sem var í raun skráður um borð, mætti aldrei þangað í eigin persónu heldur sendir einhvern annan fyrir sig. Og hvernig sem á því stendur, þá er sá sem kemur undantekningalítið svartur.


Áhöfnin á björgunaræfingu.


Á leið í land í áhafnaskiptum á Márítönskum álbát með arabískum skipstjóra.

 

Það er nánast aldrei farið í land vegna þess að það er varla hægt að komast neins staðar að bryggju á svona stórum skipumm, en á þessu svæði eru að jafnaði 40-50 svona stórir dallar að veiðum. Spánverjar og Evrópusambandsskipin veiða þarna líka, en mikið af þeim eru venjulegir skuttogarar og fiska botnfisk, rækju, kolkrabba og smokkfisk. Nouadhibou er hafnarborg nyrst á strandlengjunni og þangað er um klukkutíma flug frá Kanarí, en það er aðeins lengra til Nouakchott sem er nokkru sunnar. Þessar borgir eru svo gott sem eina byggðin við ströndina, en annars endar Sahara eyðimörkin bara þar sem hafið tekur við.

 

Fiskifræðingar halda því fram að sandurinn sem fýkur út í sjó geti vel verið lykillinn að fiskigengdinni undan ströndinni, því hann innihaldi einhver snefil og næringarefni sem nýtist lífríkinu. Það fjúka milljónir tonna af sandi á haf út og stundum er eins og skafrenningurinn hérna heima hafi flutt sig um set. Ég hef séð menn koma úr landi þegar hann hefur blásið svolítið stíft og það er engu líkt. Þrátt fyrir að þeir séu með gleraugu og vafðir inn í klúta, eru öll vit full af sandi og þeir þurfa hreinlega að moka út úr eyrunum á sér þegar út í skip er komið. Veiðisvæðið nær allt suður undir Grænhöfðaeyjar og í áttina norður til Kanarí þegar samningar eru í gildi við Marokkó, sem er svona stundum og stundum ekki. Veiðisvæðið getur því náð allt að 600 mílur meðfram landi. Undan ströndinni eru víða miklir álar, gríðarlegir straumar og því greinilega mikil neðansjávarátök. Svo eru líka nokkur alveg steindauð svæði þar sem allt rusl sem fer í hafið virðist safnast saman á hvernig sem á því stendur.


Steini að klippa kallinn.


Skipperinn með Trínu sér til halds og trausts við veiðarnar.

 

Stundum höfum við séð flóttamannabátana sigla fram hjá okkur á leið til Kanarí. Yfir eina helgi fyrir nokkrum árum komu rétt upp undir 1000 flóttamenn þar á land þessa leiðina. það er að vísu talsvert yfir meðaltali, en þetta vandamál er samt alveg risastórt. Þarna er á ferðinni fólk sem reynir að komast inn í Evrópu í gegn um Kanarí í leit að betra lífi. Þetta eru síður en svo einhverjar glæsifleytur sem eru gerðar út á þessa fólksflutninga, heldur eru þetta bátar á stærð við áttæringa eða eitthvað svoleiðis og undantekningalaust miklu meira en yfirfullir af fólki. Til allrar hamingju hefur ekkert af þessum fleytum sokkið neins staðar nálægt okkur og við höfum því aldrei þurft að taka flóttafólk um borð, en það yrði alveg örugg ávísun á verulega mikil vandræði.

 

Einhverju sinni lagðist fraktari að hjá okkur til að taka fisk og skipstjórinn sem var Rússi bauð mér tvo svarta þræla sem höfðu laumast um borð í Kamerún. Hann vissi vel að mikið vesen beið hans þegar hann kæmi næst til hafnar og var alveg á tauginni yfir þessu. Ég afþakkaði boðið og hélt auðvitað að hann væri að grínast, en komst að því að svo var alls ekki. Áður en hann lagði aftur frá kom hann til mín, ítrekaði boðið og spurði hvort ég hefði ekki hugsað málið. Skipið færi nánast aldrei í land, heldur aðeins áhöfnin og það væri því upplagt að nota þá til vinnu. Þeir vildu alls ekki fara til baka, þeim væri auðvitað ekki boðið upp á nein laun og það eina sem þyrfti að gera væri að fóðra þá. Hann bauðst jafnvel til láta mig hafa nokkrar flöskur af Vodka í meðgjöf.


Kallinn á leið í frí.


Verið að setja á þurrt.


Verið að umskipa úr Blue Wave úti á rúmsjó.

 

Manni ofbýður oft hvað öll velferð og jafnvel mannslíf er lágt metin, hvað mismununin er mikil milli araba og svartra, svo ekki sé talað um kynjamismuninn sem maður horfir upp á. Ef maður vill festa sér konu, er ekki óalgengt að hann greiði fjölskyldu hennar fyrir með úlfalda sem þykir nokkuð sanngjarnt á þessum slóðum. Það er ekki laust við að maður hugsi stundum heim og velti fyrir sér hvort ekki myndi heyrast hressilega í íslenskum femínistum yfir verðmatinu þeirra, en þarna suður frá gætu þeir líklega fengið alveg endalaus verkefni við að reyna að koma skikki á hlutina.

 

Þegar komið er í land hef ég tekið eftir því að það sjást mjög fáar konur á ferli utandyra og mér dettur helst í hug að þær séu meira og minna lokaðar inni alla daga. Stundum er skroppið á markaðinn og þá eru blökkukonur oftast þar að störfum og maður heyrir að líklega séu þær þrælar, en hvort eitthvað er satt í því er ekki gott að segja. Sagan er reyndar skammt undan því auk þess að mynda landamæri Senegal og Máritaníu, skiptir Senegalfljótið hinum ólíku menningarsvæðum Afríku, þ.e. norður og suðurhlutanum, eða löndum araba og svartra.

 

Þaðan er ekki svo ýkja langt niður til Dakar þar sem lítil eyja sem heitir Gorée er skammt undan ströndinni. Þar var ein aðal útflutningshöfn þrælasala á sínum tíma sem náði hámarki sínu rétt eftir miðja 18. öld. Og menn græða enn á Gorée þó með öðrum og nútímalegri hætti sé, því þangað streyma nú túristar til að skoða þrælasafnið sem er auðvitað staðsett í þrælahúsinu sem var byggt árið 1776. Það hýsti á sínum tíma margan lánlausan lítilmagnann áður en hann var settur á skip og seldur til Ameríku þaðan sem hann átti aldrei afturkvæmt. Hugsandi um þessi ósköp þarna niður frá bæði í nútíð og þátíð, verður að segjast að það er alveg rosalega gott að koma heim á klakann annað slagið.

 

Texti: Leó R. Ólason.


Athugasemdir

25.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst