Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Jónmund Hilmarsson

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Jónmund Hilmarsson Við félagarnir hittum Jónmund Hilmarsson "Jómba" sem hefur um þriggja áratuga skeið marga

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Jónmund Hilmarsson

Jónmundur Hilmarsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Jónmundur Hilmarsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson

Við félagarnir hittum Jónmund Hilmarsson "Jómba" sem hefur um þriggja áratuga skeið marga tónlistarfjöruna sopið og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar sem hann svaraði greiðlega og bætti þó heldur við.

 

Jónmundur Hilmarsson fæddist að bænum Tungu í Fljótum árið 1942. Hann er sonur Hilmars Jónssonar sem spilaði í hljómsveit á Siglufirði á síldarárunum m.a. með Bjarka Árna og Agli föður Rúnars Egils sem var í Hrím. Móðir Jónmunds var Magna Þorláksdóttir, en hún var systir þeirra Gautlandsbræðra. Það er því ekkert skrýtið að tónlistargenið hafi náð að springa út og blómstra vel og lengi hjá okkar manni. Svo má auðvitað bæta því við að bróðir hans Magnús var einn af upphaflegu meðlimum hljómsveitarinnar Hrím og Guðný systir hans söng “Kveiktu ljós” með blönduðum kvartett frá Siglufirði á sjöunda áratugnum sem frægt var.

 

 

 

 

 

 

 

 

Jómbi trommar með Gautunum á Hótel Höfn liðlega tvítugur

 

Ég lærði á trompet í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Þangað var fenginn sérlegur trompetkennari sem hét Lárus og var frá Norðfirði, en hann kom til Siglufjarðar og kenndi þar einhvern tíma. Ég var síðan einn af stofnendum Lúðrasveitar Siglufjarðar ásamt Hlyn Óskarssyni og fleiri góðum drengjum.

Árið 1963 flutti Þórður Kristinsson suður, en hann hafði verið trommari í Gautunum um árabil. Þá var haft samband við mig og mér sagt að nú yrði ég að taka við af honum. Ég svaraði því til að ég kynni ekkert á trommur og hefði aldrei komið nálægt slíku hljóðfæri. Það var ekkert hlustað á mótbárur mínar, ég var látinn æfa mig eitt kvöld og svo var spilað á fyrsta ballinu kvöldið eftir. Ég spilaði síðan í sex ár með Gautunum eða til ársins 1969.

Gautar og blandaði kvartettinn sem gerði allt vitlaust með risasmellinum ”Kveiktu ljós.”

Á þessum árum gerðu Gautar víðreist, dvöldu meðal annars í Reykjavík um mánaðarskeið, spiluðu allan þann tíma í Glaumbæ og gerðu útvarpsþátt. Þá var haldinn sögufrægur dansleikur fyrir norðan þar sem við spiluðum til skiptis á móti Hljómum úr Keflavík sem þá var langvinsælasta hljómsveit landsins.

Ég mun aldrei gleyma bæ í Sléttuhlíðinni sem var okkur einstaklega kær. Þegar við vorum á heimleið úr Skagafirðinum eða Húnavatnssýslunni eftir böll, vorum við alltaf orðnir sársvangir þegar við fórum þar fram hjá. Þá var stoppað við brúsapallinn og við supum rjómann ofan af mjólkinni. Það er líklega allt í lagi að segja frá þessu núna, því það er orðið svo langt síðan.

Gautar ferðuðust um á tveim breskum Ford Prefect bílum um árabil. Guðmundur átti annan og Jónmundur hinn. Og eins og sjá má af handbragðinu sá Ragnar Páll um að merkja þá vel og vandlega.

Bræðurnir voru miklir vinnuþjarkar og sögðu oft að það væri alveg nóg að sofa í haust, en það þyrfti að vinna í sumar. Það var líka haldið vel áfram á böllunum og hlé milli laga voru ekki sérlega vel séð. Það var t.d. ekki ætlast til þess að menn færu allt of mikið á klósettið meðan á dansleik stóð og síðustu tónar hvers lags voru varla hljóðnaðir þegar Guðmundur var farinn að hvetja mig til að vera nú fljótur að telja í það næsta.

Einu sinni vorum við beðnir um að spila á Skagaströnd fyrir Vegagerðina. Það var kominn september og við vorum smeykir við veðrið, því á þessum árum lá leiðin til og frá Siglufirði aðeins um Skarðið. Það varð úr að þeir Vegagerðarmenn tóku að sér að sækja okkur og koma síðan aftur heim. Ballið og heimferðin gekk glimrandi vel þar til við vorum á leiðinni upp í Skarðið Fljótamegin um nóttina. Fyrst fór að rigna, síðan kom slydda og að lokum var snjórinn orðinn svo mikill að bíllinn var farinn að ýta sköflunum á undan sér. Í síðustu brekkunni stoppaði hann og komst alls ekki lengra. Það varð þá að ráði að ég ásamt bræðrunum Guðmundi og Tóta ákváðum að ganga yfir, en Baldi og Ragnar Páll fóru með bílnum til baka, yfir Lágheiði og til Ólafsfjarðar. Þeir komu síðan með póstbátnum Drang til Siglufjarðar daginn eftir. Við komumst hins vegar upp í skýlið sem var þá í Skarðinu og leituðum þar skjóls. Þar var talstöð sem var knúin handsnúnum dynamo og það kom í minn hlut að snúa. Það þurfti að taka ansi duglega á því til að stöðin virkaði, en bræðurnir náðu sambandi við Alda á símstöðinni meðan ég svitnaði við að snúa. Eftir nokkurn tíma var svo Lapplander sendur eftir okkur og við vorum vægast sagt mjög fegnir þegar við komumst loksins heim.

Gautar frá miðjum sjöunda áratug.
Efri röð: Þórhallur, Jónmundur, Ragnar Páll.
Neðri röð: Baldi Júll og Guðmundur.

Við fengum fljótlega þann mikla snilling Gerhard Schmith í lið með okkur og hann spilaði aðallega á bassa. Við urðum fljótt miklir mátar og vorum oft samferða upp Bæjarbrekkuna eftir að hafa spilað á Höfninni og höfðum alltaf mikið um að spjalla. En þar sem hann bjó á Hólavegi en ég á Lindargötu, skildu leiðir okkar við Bjarnaskúrinn. Það fór þó oft svo að við stöldruðum þar við, töluðum saman þangað til fór að lýsa af nýjum degi og breytti þá litlu hvort úti var blíðalogn eða frost og fannkoma.

Við Gerhard tókum stundum Herb Albert trompetdúetta saman og þá settist Baldi við trommurnar á meðan. Undir lok sjöunda áratugsins flutti hann úr bænum og Rabbi Erlends kom inn sem söngvari, en ég trommaði áfram. Á þessum árum var atvinnuástandið á Siglufirði ekki upp á marga fiska og þegar ég fór að vinna í Búrfellsvirkjun um tíma, settist Rabbi einnig við trommusettið en ég flutti suður til Reykjavíkur. Þá var Ragnar Páll líka farinn fyrir nokkru og Elías hafði tekið við af honum.

Myndin sem tekin var af Gautunum á Hólel Blönduósi, en hún var síðan notuð á plötuumslagið þar sem Baldi söng m.a. ”Kysstu mig” sem varð mjög vinsælt.

Þar hófst næsti kafli í músikinni sem stóð mun lengur en Gautatímabilið. Við hjónin vorum varla búin að koma okkur fyrir syðra þegar hringt var í mig og í símanum var Ingimar cordovoxleikari í hljómsveitinni Ásum. En fyrir þá sem ekki vita, þá er cordovox stór rafmagnsharmónikka á statívi. Hann spurði hvort það væri rétt að ég væri fluttur suður og ekki að spila neitt enn sem komið væri. Ég játti því og þá vildi hann endilega fá mig á æfingu, þá vantaði trommara í staðin fyrir Hafstein sem var þá að flytja til Búðardals. Ég sem var eiginlega verið búinn að lofa frúnni að hætta þessari spilamennsku, átti svolítið erfitt með að svara þessu ágæta boði, en svo fór þó að niðurstaðan var sú að við hefðum varla efni á að afþakka það. Síðan spilaði ég með Ásunum næstu 20 árin.

Hljómsveitin Ásar á sviðinu í Glæsibæ. Það kom stundum fyrir að óvæntir gestir hreinlega tækju sér stöðu á sviðinu og vildu hvergi fara. Þessi var ekki til neinna vandræða en hefur kannski bara viljað fá að vera með á myndinni.

Ásarnir höfðu verið húshjómsveit í Skiphóli í Hafnarfirði í nokkur ár og ég spilaði þar með þeim Tóta Nilsen og Ingimar í eitt ár. Þá fannst okkur kominn tími til að breyta til og Dóri í Glæsibæ bauð í bandið. Skiphóllinn bauð á móti en Glæsibær hafði þó betur að lokum. Þar spiluðum við í fjóra vetur en þvældumst út um allt land á sumrin. Þarna komu fram flottir skemmtikraftar svo sem Wilma Reading og Joni Adams. Um nokkurra ára skeið tókum við félagsheimilið Sævang á leigu yfir verslunnarmannahelgina, en sá staður er skammt fyrir sunnan Hólmavík á Ströndum. Þar héldum við svo böll fyrir eigin reikning og líklega hef ég aldrei séð jafn mikinn pening eftir jafn skamman tíma. Það voru hreint ótrúleg uppgrip.

Ásarnir á ”blasti” í Glæsibæ.

Við spiluðum líka í Þórskaffi og meðal annars á opnunarkvöldinu þegar neðri hæðin var tekin í notkun. Það kvöld komum við með hljóðfærin að bakdyrunum en urðum að bíða meðan klárað var að teppaleggja í kring um sviðið svo við gætum komið okkur fyrir áður en dansgestirnir mættu. Teppalagningamennirnir náðu þó að klára sinn þátt og voru komnir úr húsi rétt áður en opnað var inn í sal.

Árið 1973 fórum við eftirminnilegan túr með Gullfossi, en við spiluðum líka nokkrum sinnum fyrir Íslendinga í Luxemburg, í Kaupmannhöfn og á Spáni.

Eftir Ásatímabilið spilaði ég í nokkur ár með þeim Gretti Björnssyni og Örvari Kristjánssyni. Við fórum víða um land, en spiluðum líka mjög mikið á Rauða Ljóninu á Eiðistorgi. Það var eiginlega eins og okkar heimahöfn ef þannig mætti segja. Þetta voru miklir snillingar báðir tveir og þeir urðu miklir vinir mínir þessir piltar.

En fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að nú væri kominn tími til að ljúka þessu endanlega. Ég auglýsti trommusettið og það seldist bæði fljótt og vel og hvað heldurðu nema það endaði á Siglufirði.

Þetta fannst Jónmundi ágætur endir á sögunni og við þökkuðum honum kærlega fyrir skemmtilegt spjall.

Texti LRÓ
Myndvinnsla o.fl. BI.

Ásarnir spiluðu um hverja helgi í Glæsibæ föstudag, laugardag og sunnudag.
Þessa auglýsingu lítið eða ekkert breytta mátti sjá í blöðunum viku eftir viku, mánuð eftir máuð og ár eftir ár og auðvitað var góð og gild ástæða fyrir því.

 

Meðlimir Gautanna héldu hópinn mjög vel og þurfti þá ekki æfingar og dansleikjahald til. Þeir hittust nokkuð reglulega í matarboðum hver hjá öðrum á góðum stundum þegar tækifæri gáfust.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hljómsveitin Ásar


Athugasemdir

19.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst