Ást og friður í Fljótum

Ást og friður í Fljótum Sjöunda árið í röð verður hið árlega hippaball haldið á Ketilási, félagsheimili þeirra Fljótamanna laugardaginn 16. ágúst og hefst

Fréttir

Ást og friður í Fljótum

Hippahjónin, Vilborg Trausta og Geir Zoega
Hippahjónin, Vilborg Trausta og Geir Zoega

Sjöunda árið í röð verður hið árlega hippaball haldið á Ketilási, félagsheimili þeirra Fljótamanna laugardaginn 16. ágúst og hefst það kl. 22.00. Á Ketilási voru á árunum áður haldin eftirminnileg böll þar sem Siglfirðingar, Ólafsfirðingar og Skagfirðingar komu saman og muna um ókomna tíð.

Upphaflega áttu þær Sauðanessystur Margrét Traustadóttir og Vilborg Traustadóttir frumkvæðið að þessum skemmtilega viðburði og báru hita og þunga af þessu fyrstu árin. Nú hafa þær fengið fleiri í lið með sér og er stefnt að hafa þennan litríka viðburð árlega í ágúst.


Ást og friður

Norðurport verður með lifandi markað á Ketilási frá kl. 13.00 þar sem í boði eru fjölbreyttar vörur eins og t.d. matvörur, fallegt handverk og fatnaður ýmiskonar. Einnig er í boði tjaldstæði fyrir þá sem vilja dvelja yfir helgina í Fljótum.


Mikið fjör á dansgólfinu

Eins og forsvarsmenn hippaballsins segja! Við tökum það besta úr hippamenningunni sem var afar merkileg og yfirfærum til nútíðar.  Hipparnir breyttu heiminum og opnuðu umræðuna með því að hafna ríkjandi gildum. Þeir boðuðu frið og frjálsar ástir og tóku þar með huluna af leyndum ástum sem höfðu tíðkast frá örófi alda og allt fram til hippatímans.


Vinafundir

Tepruskapur finnst ekki í orðaforða hippanna og hann finnst ekki heldur á Ketilási þetta árið, þó svo að við séum fyrst og fremst að koma saman og skemmta okkur í þessum ljúfa anda. Tími heysátanna er að vísu liðinn en við stígum bara þess í stað á stokk og syngjum saman "allt sem við viljum er friður á jörð"


Friðarsöngurinn "Allt sem við viljum er friður á jörð" sunginn á Ketilástúninu

Hin stórgóða hljómsveit Flower Power mun spila undir dansi og halda uppi hinu eina sanna hippastuði. Hljómsveitina skipa þeir Ingi Valur Grétarsson sem spilar á gítar og sér um sönginn, hann hefur spilað með hljómsveitum eins og Sixties og Dans á Rósum. Sigfús Óttarsson spilar á trommur, hann hefur verið í hljómsveitum eins og Baraflokkinum, Rokkabillybandinu, Stjórninni, Rikshaw og Gullfoss, Ingimundur B. Óskarsson spilar á bassa, hann hefur spilað með hjómsveitum á borð við Dúndurfréttir, Sixties, Gullfoss og Skonrokk. Hljómsveitin er sett saman einungis fyrir þennan viðburð.


Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og frá facebooksíðu Ketilálás
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir og Vilborg Traustadóttir


Athugasemdir

20.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst