Frágangsvinna og sáning hafin á nýja golfvellinum – almenn bílaumferð óheimil

Frágangsvinna og sáning hafin á nýja golfvellinum – almenn bílaumferð óheimil Eins og margir bæjarbúar hafa orðið varir við eru framkvæmdir við nýjan

Fréttir

Frágangsvinna og sáning hafin á nýja golfvellinum – almenn bílaumferð óheimil

Ljósmyndari Edwin Roald
Ljósmyndari Edwin Roald

Eins og margir bæjarbúar hafa orðið varir við eru framkvæmdir við nýjan golfvöll og útivistarsvæði í Hólsdal í fullum gangi. Nokkrar tafir hafa orðið vegna óhagstæðs tíðarfars allt frá síðasta hausti. Eigi að síður er stefnt að því að sá fræjum í nokkrar brautir á næstu vikum.

Frágangsvinna er hafin á ákveðnum svæðum golfvallarins og vill Leyningsás ses., sem stendur að framkvæmdunum, koma á framfæri vinsamlegum tilmælum til vegfarenda að halda sig við vegi og stíga. Þeim sem ekki þekkja vel til þeirrar vinnu sem fer fram á svæðinu er líklega ómögulegt að gera sér grein fyrir því hvaða svæði teljast viðkvæm og hver ekki. Þetta á jafnt við um gróin sem og röskuð svæði.

Samkvæmt nýju deiliskipulagi svæðisins, sem tók gildi í fyrra, er ekki gert ráð fyrir almennri bílaumferð um svæðið, enda er meginviðfangsefni framkvæmdanna að skapa allsherjar útivistarsvæði sem bæjarbúar og gestir eiga að geta notið fjarri bílaumferð. Grunnur hefur verið lagður að nýjum útivistarstíg, sem koma mun í stað vegarins sem til þessa hefur legið meðfram Hólsá suður að stíflu. Þessi stígur er notaður af jarðvinnuverktökum til að komast um svæðið, en er að öðru leyti aðeins ætlaður starfsmönnum Fjallabyggðar til að þjónusta vatnsból bæjarins, eigendum hrossa í beitarhólfum syðst í dalnum og fólki á vegum Skógræktarfélags Siglufjarðar. Þá er reiknað með að opnað verði fyrir tímabundna umferð vegna berjatínslu síðsumars og að hausti.

Edwin Roald, hönnuður golfvallarins og umsjónarmaður verksins, kveðst skilja vel að þetta geti verið mikil viðbrigði fyrir marga Siglfirska ökumenn, sem hafa til þessa getað farið suður að stíflu á bílum sínum. Nú sé veruleikinn hinsvegar annar og að nýtt skipulag hafi verið samþykkt, sem felur í sér aðra notkun og er liður í að skapa bæjarbúum vettvang til að njóta fjölbreyttrar útivistar og lífríkis, sem reiknað er með að styrkist mjög í kjölfar þeirra umbóta sem framkvæmdunum fylgja.

Bifhjólum ekið inn á golfvallarsvæði í mótun

Þá hefur borið á því að bifhjólamenn hafi farið á hjólum sínum út fyrir vegi, inn á tvær brautir og minnst eina flöt (green) golfvallarins, sem eru í mótun. Þá hefur slíkum hjólum einnig verið ekið eftir reiðgötum. Til þessa hafa umsjónarmenn verksins látið nægja að brýna fyrir bifhjólamönnum að halda sig alfarið á vinnuvegum og hlífa reiðgötum og öðrum ytri svæðum, en þar sem því hefur ekki verið sinnt verður öll umferð bifhjóla á svæðinu kærð til lögreglu héðan í frá.

Strangt til tekið gilda sömu lögmál um öll önnur ökutæki sem ekki eiga erindi inn á svæðið, en vonast er til að ökumenn virði þau tilmæli sem fram koma á skilti sem stendur við vinnubúðir verktakans, þar sem fram kemur að öll óviðkomandi umferð sé bönnuð, en flestir hafa virt það að vettugi. Leyningsás ses. vill benda á að með þessu stofna ökumenn sjálfum sér og öðrum í hættu, t.d. vegna stórra ökutækja og vinnuvéla sem þvera vinnuvegi og geta horfið vegfarendum sjónum stundarkorn bakvið háa efnishauga sem sjá má í gömlu námunni, sem senn fer að taka á sig mynd.

Reiknað er með að framkvæmdir standi yfir fram á haust. Útlit er fyrir að sáð verði í golfvöllinn og önnur ytri svæði í tvennu lagi, fyrst nú á næstu vikum og síðan svo fljótt sem verða má á nýju sumri.

Ef einhverjar spurningar vakna eru ökumenn og hvattir til að gefa sig á tal við umsjónarmann eða aðra tiltæka starfsmenn verktaka.

Ummerki eftir bifhjól

Ummerki eftir bifhjól

Slæmt sár eftir torfæruhjól á einni flötinni. 


Athugasemdir

25.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst