"Heillandi þorp"

"Heillandi þorp" Sl. föstudag var vitnað í fjölmiðlum í Gyðu Steinsdóttur bæjarstjóra vegna EDEN verðlaunanna sem að Stykkishólmur fékk á dögunum. Gyða

Fréttir

"Heillandi þorp"

Róbert Guðfinnssson
Róbert Guðfinnssson
Sl. föstudag var vitnað í fjölmiðlum í Gyðu Steinsdóttur bæjarstjóra vegna EDEN verðlaunanna sem að Stykkishólmur fékk á dögunum. Gyða segir þar frá því hvernig með markvissum hætti Stykkishólmur hefur verið fegraður með átaki í umhverfismálum og með því að gera upp gömlu húsin í bænum.Dómnefnin sem valdi Stykkishólm til þessara verðlauna sagði að bærinn væri        „Heillandi þorp“.
Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir það fólk sem að þessum málum hefur staðið.
Sameiginlegt átak bæjaryfirvalda og einkaaðila hefur þar ráðið miklu.
Ég átti ánægjulegan dag nú í haust með kjarnakonunni Rakel Olsen framkvæmdastjóra
sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurðar Ágústssonar hf í Stykkishólmi.
Við Rakel höfum nú ekki verið sammála um alla hluti ígegnum tíðina. Í þessari heimsókn minni
ræddum við lítið um sjávarútvegsmál. Við ræddum stjórnmál og bæjarfélögin sem
höfðu alið okkur upp. Það var gaman að hlusta á þessa hörðu íhaldskonu og afstöðu
hennar til síns byggðarlags. Á síðustu árum hefur Rakel og fjölskylda hennar látið gera
upp nokkur gömul hús í Stykkishólmi sem næst upprunalegri mynd. Þeir eru ótaldir
milljónatugirnir sem í þessar framkvæmdir hafa farið. Það þurfti ekki ákvörðun ríkisvaldsins
til að hvetja til þessara framkvæmda. Þetta er einstaklingsframtak fjölskyldu sem vill gera vel við sitt byggðarlag.
Í umræðunni um kvótakerfið og sjávarútveginn gleymist oft að benda á fyrirtæki eins og Sigurð Ágústsson hf. sem er sómi síns samfélags. Oftar eru þau fyrirtæki nefnd sem hafa farið offari eða gert stór mistök.

Ágætlega hefur gengið á síðustuárum við lagfæringu gamalla
húsa á Siglufirði. Þar hefur Örlygur Kristfinnsson farið fremstur í flokki. Jafnt í stórmerkilegu
framtaki hans í Síldarminjasafninu sem og við endurbyggingu gamalla einbýlishúsa. Þá
hefur fjöldi einkaaðila lagfært hús sín og garða. Við hjá Rauðku ehf höfum reynt að leggja okkar af mörkum hvað varðar uppbyggingu á gömlum fiskvinnsluhúsum við smábátahöfnina.
Á síðastliðnu sumri fékk Siglufjörður verðskuldaða athygli þegar metfjöldi ferðamanna sótti staðinn heim.
Margir Íslendingar sáu það sem við sem til þekkjum vissum, að Siglufjörður hefur mikla sérstöðu meðal bæja á Íslandi. Það að hafa smábátahöfnina alveg við torg bæjarins gefur bænum mjög sterkan blæ.
Bæjarstæðið er skemmtilegt og býður upp á mikla möguleika.
Íbúar Siglufjarðar og Stykkishólms eru álíka margir eða í kringum ellefu hundruð.
Bæði byggðarlögin eru sjávarútvegsbæir með mikla sögu. Nokkuð einhæft atvinnulíf í kringum sjávarfang í báðum byggðarlögunum og bæði í vörn gagnvart Reykjavíkursvæðinu.
Með stefnu sinni í umhverfismálum og með jákvæðu hugafari hefur þeim sem fara með stjórnina í Stykkishólmi tekist að byggja upp skemmtilega ímynd byggðarlagsins.
Þetta kemur meðal annars fram í fasteignaverði í Stykkishólmi. Ef skoðað er á fasteignasíðu Mbl.is má sjá að húsnæði sem til sölu er í Stykkishólmi er verðlagt nálægt 180 þús kr á fermetra. Þetta er um tvöfalt
verð miðað við það sem gerist á Siglufirði. Sölur undanfarinna mánaða á Siglufirði hafa verið um 90 þús kr á fermetra. Þetta er mikill munur á verði í tveimur sambærilegum byggðarlögum.
Það eru um 500 íbúðir á Siglufirði sem ætla má að séu samtals um 40 þús. fermetrar.
Það er því um stórar tölur að ræða í mismun á eignavirði á Siglufirði og Stykkishólmi.
Það er eins á Íslandi eins og í flestum öðrum þjóðfélögum. Allflestir einstaklingar binda stóran hluta af ævisparnaði sínum í heimili sínu. Það að verðmæti þessara eigna haldi sér og ávaxti sig er því eitt af stóru
málum hverrar fjölskyldu.

Eftir fjórtán milljarða framkvæmd við Héðinsfjarðargöng og tveggja milljarða framkvæmd við snjóflóðavarnir fyrir ofan Siglufjörð mætti ætla að verðmæti eigna á Siglufirði væri að aukast. Því er nú verr og miður, það eru ekki nein teikn á lofti um að umtalsverðar hækkanir séu í vændum á fasteignaverði í póstnúmeri 580.
Ímynd samfélagsins hefur ekki enn tekið þeim breytingum sem búast mætti við að kæmu í kjölfar einnar stærstu fjárfestingar í sögu byggðarlagsins. Ómarkviss vinnubrögð við sameiningu við Ólafsfjörð, flokkadrættir
og úreltur hugsunarháttur ræður mestu um að Siglufjörður er ekki að ná því út úr hinu breytta umhverfi sem hægt væri að ná. Togstreita milli bæjarhluta, rangar áherslur og úrelt vinnubrögð einkenna störf sveitarstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Það er til mikils að vinna fyrir siglfirskar fjölskyldur að íbúðaverð í byggðarlaginu
nálgist það sem það er í Stykkishólmi. 3,6 milljarðar væru ágæt viðbót við eignasafn Siglfirðinga.
Að ná þessu marki er raunhæfur möguleiki. En það næst ekki með þeim vinnubrögðum sem nú tíðkast við stjórnun í Fjallabyggð.

Höfundur er fjárfestir og framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Rauðku ehf.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. Október 2011

Athugasemdir

24.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst