Ingólfur Kristinn Magnússon hdl. fræðir okkur um viðlagatryggingu

Ingólfur Kristinn Magnússon hdl. fræðir okkur um viðlagatryggingu Á þessu hefur fæst fólk áhuga en því miður þurfa nú margir Siglfirðingar að vita meira

Fréttir

Ingólfur Kristinn Magnússon hdl. fræðir okkur um viðlagatryggingu

Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.
Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.

Á þessu hefur fæst fólk áhuga en því miður þurfa nú margir Siglfirðingar að vita meira um þessa tryggingu. Hér er ætlunin að gera þessari tryggingu skil í mjög stuttu máli. Viðlagatrygging er vátrygging gegn náttúruhamförum, þ.á.m. vatnsflóðum og fer stofnunin Viðlagatrygging Íslands fyrir þessum málaflokki.

Tryggingin nær til fasteigna og lausafjár í fasteignum einstaklinga og fyrirtækja. Þá nær hún til helstu mannvirkja í eigu sveitarfélags og stofnana þess. Í langflestum tilvikum eru iðgjöld viðlagatryggingar innheimt af því vátryggingafélagi sem brunatryggir fasteign og líkur á að svo gildi um öll tjón einstaklinga og fyrirtækja á Siglufirði liðna helgi. Mikilvægasta skylda þess sem verður fyrir tjóni er að tilkynna um tjónið strax til síns tryggingafélags eða beint til Viðlagatryggingar Íslands á heimasíðu stofnunarinnar.

Vátryggingarfjárhæðin er sú sama og tilgreind er í vátryggingarskírteini brunatryggingar og nær bæði til eignarinnar sjálfrar og lausafjár (muna) í eigninni eins og þeir eru tilgreindir í vátryggingarskírteininu. Tryggingunni er ætlað að bæta beint tjón sem hlýst af náttúruhamförum, þ.e. sannanlegt tjón á eignum samkvæmt mati stofnunarinnar eða tryggingafélags. Matið skal framkvæmt af aðilum sem eru til þess hæfir og hafa ekki beinna hagsmuna að gæta. Tryggingin tekur ekki til óbeins tjóns s.s. vegna óþæginda eða fjarvista úr vinnu. Frá tjóni dregst eigin áhætta sem er 5%, en getur verið hærri ef tjón er lítið. Einnig má lækka eða synja bótum ef vátryggður ef sýnt af sér vanrækslu s.s. með frágangi húsnæðis eða ráðstöfunum til að forðast eða minnka tjón af völdum hamfara. Sé vátryggður ekki sáttur með endanlega afgreiðslu stofnunarinnar á bótafjárhæð getur hann kært ákvörðunina til sérstakrar úrskurðarnefndar. Sé vátryggður enn ósáttur með afgreiðsluna getur hann leitað til almennra dómstóla.

Atriði sem máli skipta í upphafi eru að mikilvægt er að vátryggingatakar tilkynni sem fyrst um tjón sem þeir rekja til náttúruhamfara. Mikilvægt er að tjónstilkynning sé ítarleg og engu gleymt sem máli kann að skipta. Séu vátryggingatakar ósáttir við bótagreiðslur verða þeir að hafa mjög hraðar hendur í kærumáli þar sem kærufrestur til stjórnar stofnunarinnar er aðeins 3 mánuðir og kærufrestur til úrskurðarnefndar er aðeins 30 dagar. Við kærur gildir sama reglan og við tjónstilkynningar, vanda þarf til verka og gæta að því að sleppa engu sem kann að skipta máli.
Ingólfur Kristinn Magnússon, hdl.

Þess má geta að Ingólfur verður á skrifstofu sinni á Siglufirði föstudaginn 4.september milli klukkan 14-16:30 að Aðalgötu 14.


Athugasemdir

25.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst