Ljósmynd vikunnar - Hafliði SI 2 sekkur við Hafnarbryggjuna á Siglufirði

Ljósmynd vikunnar - Hafliði SI 2 sekkur við Hafnarbryggjuna á Siglufirði Það er engin tilviljun að ljósmynd vikunnar skuli vera af togaranum Hafliða SI-2

Fréttir

Ljósmynd vikunnar - Hafliði SI 2 sekkur við Hafnarbryggjuna á Siglufirði

Ljósmyndasafn Siglufjarðar: 12-72-145-23
Ljósmyndasafn Siglufjarðar: 12-72-145-23
Það er engin tilviljun að ljósmynd vikunnar skuli vera af togaranum Hafliða SI-2 en eins og Sigló.is greindi frá fyrr í morgun voru áhafnarmeðlimir hans á jólahlaðborði í gærkvöldi. Það var hinsvegar að morgni 9.janúar 1972 sem togarinn sökk við Hafnarbryggjuna á Siglufirði.


Togarinn Hafliði SI 2 hét áður Garðar Þorsteinsson GK og var smíðaður á Englandi fyrir hlutafélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði sem fékk hann afhentan 12.júní 1948 en bæjarsjóður Siglufjarðar keypti hann frá Hafnarfirði þann 24.júlí 1951 en þá var hann nefndur Hafliði SI 2 (heimild www.si2.is).

Á myndinni sem var tekin morguninn sem togarinn sökk er unnið að því að ná togaranum upp og tæma hann af sjó. Miklar skemmdir urðu á skipinu og voru vélar þess dæmdar ónýtar. Í kjölfar þessa fóru fram sjópróf á Siglufiðri um aðdraganda þess að togarinn sökk. Fróðir menn munu hafa varað umsjónarmenn togarans, sem lagt hafði verið við höfnina um tíma, að bilaður einstefnuloki væri á síðu hans og því gæti svo farið. Ábendingunum var ekki sinnt og svo fór sem fór. Þegar togarann tók að halla af völdum mikils snjós sem hlaðist hafði upp á bakborðshlið togarans rann sjórinn óhindrað inn í vélarrúm hans.

Þegar afturhluti togarans náði botnfestu við bryggjuna slitnuðu landsfestar frá honum. Síðar þessa nótt var búið að dæla öllum sjó úr vélarrúminu. Á þessum tíma var Hafliði í eigu Útgerðafélags Siglufjarðar.

Hafliði SI 2 var aldrei notaður aftur eftir að hann sökk við hafnarbryggjuna á Siglufirði en árið 1973 var hann seldur til niðurrifs í Skotlandi (heimild www.si2.is)

Texti: SK
Viðbætur FYK - heimild http://www.si2.is/saga_haflida/16/

Athugasemdir

29.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst