Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði brann til ösku - Grein af þeim gamla

Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði brann til ösku - Grein af þeim gamla Tjón á húsi, vélum og timbri um 13 miljónir kr. -   40 Siglfirðingar

Fréttir

Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði brann til ösku - Grein af þeim gamla

Tunnuverksmiðjan brennur. Ljósmyndasafn Siglufjarðar: 09-64-0005-47
Tunnuverksmiðjan brennur. Ljósmyndasafn Siglufjarðar: 09-64-0005-47

Tjón á húsi, vélum og timbri um 13 miljónir kr. -   40 Siglfirðingar atvinnulausir.
Í GÆR brann Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði til kaldra kola. Kviknaði í timburgólfi meðfram skorsteini og var eldur lengi falinn í timburstafla, áður en hann blossaði upp. (Forsíðufrétt Morgunblaðsins 10.janúar 1964).

 

 

Barðist slökkviliðið á Siglufirði í alla fyrrinótt og í gærdag við eldinn, lengi með súrefnisgrímur vegna reyks, en undir kvöld var búið að mestu nema hvað glóð var enn í timbrinu. Var þá allt brunnið sem brunnið gat í verksmiðjunni.

Gífurlegt tjón hefur orðið í bruna þessum. Giskaði Einar Haukur Ásgrímsson, tæknilegur framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, á það í símtali við blaðið í gær, að að tjón væri um 13 miljónir króna.  Þó var það lán í óláni að skip með 400 standard af tunnuefni til verksmiðjunnar , er á leiðinni og rétt ókomið til Siglufjarðar.

Haukur sagði, að miklir erfiðleikar yrðu líka af því að 40 menn sem unnið hafa í tunnuverksmiðjunni missa nú vinnuna, því lítil atvinna er á Siglufirði nú í vetur. Aftur á móti hefur bruninn ekki áhrif á síldarsöltun, því hægt væri að fá tunnur frá Noregi.

Húsið sem brann var 2000 ferm. að flatarmáli, 8-10 m. hátt hús, byggt um  1950. -- Á landinu eru tvær verksmiðjur, á Siglufirði og Akureyri og framleiðsla þeirra  70-80 þú. tunnur á ári, hvorrar um sig.
 

ELDUR Í TIMBURHLAÐA VIÐ SKORSTEININN

FRÉTTAMENN  blaðsins á Siglufirði símuðu eftirfarandi frásögn af brunanum, upptökum hans og baráttu slökkviliðsins við eldinn:

Um klukkan hálf tíu á miðvikudagskvöld var slökkviliðið kvatt út vegna elds í Tunnuverksmiðjunni. Sá eldur var í vélahúsi verksmiðjunnar, nánar til tekið við skorstein í húsinu. Skorsteinn þessi, sem er við ketil þar sem brennt er spónum og öðru, er hlaðinn úr múrsteini, múrhúðaður, og að auki er hann einangraður með vikurplötum. Talið er að kviknað hafi í út frá skorsteini þessum.

Eldurinn var umhverfis skorsteininn, en og þar var ekkert úrgangsefna, aðeins timbur á milli lofta, en Tunnuverksmiðjan er tvílyft, byggð inni í stóru járngrindarhúsi. Slökkviliðinu tókst að ráða niðurlögum eldsins við skorsteininn. Er enginn reykur var sjáanlegur lengur, hélt slökkviliðið af staðnum, en sex menn voru skildir eftir á brunavakt, og voru þeir á stöðugu varðbergi.

Á milli verksmiðjunnar sjálfrar og lagersins er 15 cm. þykkur vikurveggur, múrhúðaður beggja megin. Við þann vegg er umræddur skorsteinn, að innanverðu í verksmiðjunni, en hinum megin veggjar var mikill timburstafli af tunnubotnaefni. Þar á milli efnisstaflans og veggsins, er talið að eldurinn hafi blossað upp í annað sinn.

 

ELDURINN BLOSSAÐI UPP AFTUR

Um klukkan tvö í nótt, fimm mínútum áður en eldsins varð vart, gengju menn fram hjá þessum timburstafla og urðu einskis varir, hvorki elds né reyks. Á sama augnabliki og elds varð vart, hringdi Stefán Friðriksson lögregluþjónn til vaktmannanna í verksmiðjunni til að spyrja frétta. Fyrir svörum varð Björn Hafliðason brunavörður, og hvað hann ekkert vera að frétta, allt í stakasta lagi [síminn var staðsettur inni í verksmiðjunni; athugasemd. S.K. árið 2001].

En áður en samtali þeirra  Stefáns og Björns lauk var hrópað að eldur væri laus. Spratt eldurinn þá upp á augabragði, en vaktmönnum tókst aðbæla mesta eldinn.

Eftir að vaktmönnum hafði tekist að bæla eldinn, sást hann ekki en vitað hvar hann var. Geysilegt reykhaf myndaðist í húsinu, og sást ekki handaskil. Í alla nótt, frá því að eldurinn kom upp og þar til klukkan 6 í morgun, er slökkviliðsmenn urður að flýja verksmiðjuna, var barist látlaust við þennan eld, sem ekki var séður vegna aðstæðna. Eins og fyrr getur var vitað að hann var inni í 40 standarðar af timbri. Var eiginlega sama hvar sprautað var, þar sem stæðan var svo þétt við vegginn. Í verksmiðjunni voru alls um 100 standarðar af tunnuefni, að því er verkstjórinn, Ástvaldur Einarsson, segir.

Slökkviliðsmenn voru búnir súrefnisgrímum inni í reykhafinu, enda grímulausum mönnum ekki vært þar inni stundinni lengur. 10-12 menn voru inni í einu og gekk ört á súrefnisbirgðirnar, enda fór svo, um kl. sex var súrefnið á þrotum. Var þá ekki um annað að ræða en yfirgefa húsið og loka því. Gerðar voru ráðstagfanir til að fá flugvél frá Akureyri með súrefni, og reyna að varpa hylkjunum niður í fallhlíf. Til þess kom þó ekki, enda mikill hliðarvindur á flugbrautina á Akureyri.

 

GEYSILEGT ELDHAF

Magnaðist nú eldurinn inni í húsinu en var þó ekki sjáanlegur fyrst um sinn. Kl.10 mínútur yfir níu var Steingrímur Kristinsson, annar fréttaritara Mbl. á Siglufirði, staddur uppi á lýsistank Síldarverksmiðja ríkisins rétt hjá Tunnuverksmiðjunni og fylgdist þaðan með því sem  gerðist. Sá hann þá hvar eldurinn kom upp með skorsteininum, og þakið allt verða síðan alelda  áður en varði.  Logaði mjög skarpt í öllu húsinu, og varð af geysilegt eldhaf.

þegar eldurinn var kominn, inn undir sökkul hússins urðu margar miklar sprengingar í því. Telja menn þær stafi af því að steinsteypan hafi snögghitnað og sprungið, einnig af því að tómir síldarkútar (áttungar o.s.frv.) svo og saltpéturskútar hafi sprungið í loft upp.

Kemur ein orsökin til greina eða trúlega allar. Síldarútvegsnefnd átti saltpéturskútana og einnig geymdi hún þarna sykur og krydd sem allt eyðilagðist.

Einni klukkustund eftir að eldurinn braut niður þakið, var húsið gjörsamlega fallið. Stálbitar í lofti ýmist bráðnuðu eða svignuðu undan hinum gífurlega hita. Féll húsið allt, þak og veggir, niður að gluggum. Er húsið sjálft gjörsamlega ónýtt, og allar vélar taldar ónýtar líka, af eldi og hita, en eldurinn var þó aðalega í timbrinu á lagernum. Er beint tjón því gífurlega mikið og skiptir vafalaust mörgum miljónum, enda inni um 100 standarar af tunnuefni, eins og áður segir.

Óbeint tjón er einnig geysilegt.  Í verksmiðjunni unnu um 40 mans og er nú fyrirsjáanlegt að þeir verði flestir eða allir atvinnulausir. Er það mikið áfall fyrir bæjarfélagið í heild.

 

Fleiri hús í hættu

Á meðan eldurinn var mestur, voru þrjú hús í talsverðri hættu, einkum tvö. Hinumegin götunnar er hin mikla síldarmjölsgeymsla SR, hið svonefnda "Ákavíti". Óttuðust menn um hríð að hitinn frá bálinu mundi eyðileggja síldarmjöl það, sem geymt var við þann vegg, er vissi að brunanum.

Ekki varð þó svo, og er því einkum þakkað, að nokkur vindur stóð um sundið á milli mjölgeymslunnar og brennandi verksmiðjunnar, og kældi vegginn.

Austan Tunnuverksmiðjunnar standa tvö hús, og var mjög óttast að í þeim kviknaði. Gluggar sviðnuðu og rúður sprungu í báðum þessum húsum og rauk úr þaki þeirra beggja.  Slökkviliðinu tókst þó að verja húsin, einkum með því að negla stórar asbest plötur fyrir glugga þeirra. 

 

Ef Grána gamla brynni.

Eftir Tunnuverksmiðjubrunann í gær setti óhug að Siglfirðingum, að því er ljósmyndari blaðsins Steingrímur Kristinsson tjáði blaðinu. Var mörgum hugsað til þess hvað gerðist ef eldur yrði laus í  Gránu, - gömlu síldarverksmiðjunni, sem er stórt fjögurra hæða timburhús. Við hliðina á henni eru tveir tankar, annar með jarðolíu og hinn með lýsi og aðeins 1½ m. á milli.

Í suðaustan roki mundi sennilega líka brenna vélaverkstæði Rauðku, sem er fyrir norðan og mjölhús Rauðku sem er fyrir vestan, í 4-5 m. fjarlægð og slippurinn sem er hinum megin við götuna, einnig söltunarstöð og íbúðarhús. 

Í gömlu Gránu hefur Bæjarútgerðin geymslu og þurrkhús, og taka tryggingarfélögin það ekki til  tryggingar, nema fyrir margfalt tryggingargjald.

 

Greinina má finna á Gamla vef SKSigló undir liðnum "Gamlar Brunasögur"

Myndir af brunanum má skoða hér


Athugasemdir

25.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst