Ungmennahús í Fjallabyggð

Ungmennahús í Fjallabyggð Eftir að ég hóf nám í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands hefur mér oft verið hugsað heim til Siglufjarðar og

Fréttir

Ungmennahús í Fjallabyggð

Una Sighvatsdóttir
Una Sighvatsdóttir

Eftir að ég hóf nám í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands hefur mér oft verið hugsað heim til Siglufjarðar og unglingsáranna þar og hvað hefði mátt bæta í aðstöðu unglinga. Tómstunda- og félagsmálafræði er þriggja ára fræðilegt nám og er meginfræðasvið á þessari braut tómstundafræði, sálfræði, félagsfræði og siðfræði. Einnig er lögð er áhersla á að eftir að náminu lýkur geti nemendur verið færir um að stjórna, skipuleggja, framkvæma og meta tómstundastarf. Í stuttu máli má segja að þessi fræðigrein snúist um að hjálpa öðrum að nýta frítíma sinn með sem mest uppbyggilegum hætti. Sem dæmi um viðfangsefnin má nefna að skipuleggja tómstundir fyrir unglinga sem koma úr vímuefnameðferð eða unglinga almennt og skipuleggja tómstundastarf með eldri borgurum, auk þess sem þeir sem ljúka þessu námi koma til greina í stjórnunarstöður í margvíslegu tómstunda- og íþróttastarfi, svo fátt eitt sé nefnt.

Á þessari önn er ég í áfanga sem heitir Tómstundir og unglingar. Þar erum við meðal annars að fást við að skoða hver sé staða þeirra unglinga sem lokið hafa grunnskólanámi. Þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég sjálf var í þessum sporum, var ekki mjög mikið í boði fyrir þennan aldurshóp á Siglufirði, fyrir utan íþróttaæfingar. Það var aldrei neinn samkomustaður í boðin og um helgar var mjög vinsælt að hittast í hraðbankanum því þar snjóaði ekki og þar var hægt að hitta alla vinina. Það er óhætt að segja að þetta hafi ekki veirð mjög uppbyggilegar tómstundir og þessi aðstaða eða aðstöðuleysi hefur oft komið upp í hugann.

Í vettvangsferð í tengslum við námið sem ég fór nýlega í, kynntist ég nokkru sem mér þótti verulega áhugavert. Ég var nefnilega í heimsókn í Molanum í Kópavogi sem er ungmennahús, en það er staður þar sem unglingar á aldrinum 16 ára og eldri geta komið og ræktað áhugamál sín með ýmsum hætti. Staðurinn er jákvæður og vímulaus sem býður upp á alls kyns afþreyingu. Ef ég tek dæmi um starfsemi innan Molans, þá geta unglingarnir nýtt húsnæðið sem æfingastað fyrir hljómsveitir og ungir listamenn geta fengið stöðu þar til þess að æfa sig í þeirri grein þeir eru að fást við. Þegar ég var í heimsókn í Molanum var einmitt haldin á sama tíma listasýning ungrar stúlku. Þá er til dæmis hægt fylgjast með íþróttaviðburðum á tjaldi en þá þurfa unglingar ekki að fara í þeim tilgangi inn á veitingastaði þar sem áfengi er selt. Svo er jafnvel hægt að halda leiksýningar, LAN-mót, ýmsa gjörninga, málþing og fundi, og LARP (live-actiorole-playing) svo eitthvað sé nefnt. Unglingarnir koma með hugmyndir um það sem þeir vilja gera og fá afnot af húsnæði og þá hjálp sem skortir til þess að framkvæma hugmyndirnar. Einnig geta starfsmenn hjálpað þeim unglingum sem eru atvinnulausir að finna sér vinnu. Ég tel að þetta sé frábær fyrirmynd sem hægt er að framkvæma líka í Fjallabyggð

Eftir að framhaldsskóli kom í sveitarfélagið dvelja unglingar lengur í heimabyggð en áður og fara síður burtu þegar grunnskóla er lokið. Vegna þess hefur þörfin fyrir aðstöðu fyrir þennan aldurshóp vaxið mikið og forvarnargildi þessa starfs er ótvírætt, enda skapar þetta festu í frístundum unglinga, kemur reiðu á hana og gefur þeim tilgang og verkefni til að leysa og dregur úr líkunum á fikti við vímuefni. Þetta er því gott veganesti fyrir fullorðinsárin sem bíða handan við hornið.
Nú veit ég að engin starfsemi er í gamla gagnfræðaskólahúsinu við Hlíðarveg en það húsnæði væri fullkomið fyrir starfsemi eins og ungmennahús. Nóg er þar af herbergjum sem hægt væri að nota fyrir mismunandi starfsstöðvar, líkt og tónlistarherbergi, myndlistarherbergi og jafnvel hægt að halda námskeið í eldamennsku í matreiðslustofunni. Að sjálfsögðu fylgir þessu töluverður kostnaður, en á móti kemur annað sem ekki verður metið til fjár, en það er jákvætt umhverfi fyrir ungmenni sem skilar sér á svo margan hátt til baka í betri og ánægðari einstaklingum sem eru líklegri fyrir vikið til að vinna samfélaginu gagn.

Ég vona að þetta opni umræðu innan fallegasta bæ veraldar og verði einn daginn að veruleika.

Una Sighvatsdóttir,
Nemi í tómstunda og félagsmálafræði.


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst