Bókun meirihluta bæjarfulltrúa Fjallabyggðar

Bókun meirihluta bæjarfulltrúa Fjallabyggðar Bókun meirihluta bæjarfulltrúa í Fjallabyggð á bæjarstjórnarfundi 14.09.2011. „Vegna yfirlýsingar

Fréttir

Bókun meirihluta bæjarfulltrúa Fjallabyggðar

Siglufjörður
Siglufjörður
Bókun meirihluta bæjarfulltrúa í Fjallabyggð á bæjarstjórnarfundi 14.09.2011.

„Vegna yfirlýsingar Sólrúnar Júlíusdóttur í dag um að hún styðji ekki uppbyggingu Grunnskóla Fjallabyggðar leggjum við bæjarfulltrúar í Fjallabyggð fram eftirfarandi bókun.

Á síðasta kjörtímabili hóf bæjarstjórn Fjallabyggðar vinnu við að móta framtíðarskipan skólamála í sveitarfélaginu eftir opnun Héðinsfjarðarganga. Um fá mál hefur verið fjallað jafn ítarlega hjá bænum síðustu árin og að þeirri vinnu hafa komið fulltrúar bæjarstjórnar, hagsmunaaðilar og utanaðkomandi ráðgjafar.

Frá upphafi hefur legið fyrir að nauðsynlegt yrði að fara í nýframkvæmdir og/eða verulegar endurbætur á skólahúsnæði, jafnt í Ólafsfirði sem á Siglufirði. Mikil sátt hefur verið um alla þessa vinnu í bæjarstjórn þar til fyrir örfáum vikum. Markmið bæjarstjórnenda er að reka áfram fyrsta flokks grunnskóla í Fjallabyggð með jöfnu skólahaldi í báðum byggðarkjörnum þannig að ferðatíðni nemenda úr báðum byggðarkjörnum verði sem jöfnust.

Fyrirhugaðar framkvæmdir.

Kostnaður við nýbyggingu og búnaðarkaup á Ólafsfirði er um 200 milljónir kr. og skólahúsnæðið á að vera tilbúið til afnota 1. september 2012. Kostnaður við nýbyggingu og búnað á Siglufirði er einnig áætlaður um 200 milljónir kr. og stefnt er að útboði á þeim áfanga árið 2012 og að skólahúsnæðið verði tilbúið til notkunar fyrir skólaárið 2013/2014. Verði ekki farið í nýbyggingu á Siglufirði þarf að fara í verulegar endurbætur á húsnæði grunnskólans við Hlíðarveg sem kosta álíka mikið og fyrirhuguð viðbygging. Eftir stæði að grunnskólinn yrði rekinn í tveimur húsum á Siglufirði með tilheyrandi kostnaði og óhagræði í skólastarfi. Óbreytt ástand í húsnæðismálum á Siglufirði er ekki valkostur. Það hefur legið fyrir allan tímann. Framkvæmdir við Menntaskólann á Tröllaskaga kosta 15 milljónir kr.

Sparnaður og fjármögnun.

Handbært fé Fjallabyggðar um síðustu áramót var 270 milljónir kr. Áætlaður byggingarkostnaður við umræddar framkvæmdir við Grunnskóla Fjallabyggðar er um 415 milljónir kr. og eru þá breytingar á núverandi húsnæði menntaskólans inn í þeirri tölu. Reiknað er með því að sá kostnaður skili sér með rekstrarsparnaði á 10 árum. Áætlaður sparnaður í rekstri við að fækka skólahúsnæði um eina byggingu er talinn vera um 12 m.kr. á ári eða um 120 m.kr. á 10 árum. Áætlaður sparnaður í launum kennara og skólastjórnunar er talinn vera um 25 m.kr. á ári eða um 250 m.kr. á 10 árum. Sparnaður við húsvörslu og ræstingu er um 5 m.kr. á ári eða um 50 milljónir kr. á 10 árum. Heildarsparnaður er því um eða yfir 420 m.kr. á 10 árum. Þá er gert ráð fyrir ítrustu mönnun grunnskólans.

Undirritaðir leggja áherslu á að fullur stuðningur er við störf núverandi bæjarstjóra og hefur hann áfram óskorað umboð meirihluta bæjarfulltrúa Fjallabyggðar til sinna starfa.”

Bjarkey Gunnarsdóttir
Helga Helgadóttir
Ingvar Erlingsson
Magnús A. Sveinsson
Ólafur H. Marteinsson
Þorbjörn Sigurðsson



Ólafsfjörður

Texti: Aðsendur

Mynd af Siglufirði: SK
Mynd af Ólafsfirði: GJS


Athugasemdir

29.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst