Eitt af því sem fékk mig til að staldra við

Eitt af því sem fékk mig til að staldra við Eitt af því sem fékk mig til að staldra við á dögunum, setja hönd undir kinn og hrukka ennið lítillega

Fréttir

Eitt af því sem fékk mig til að staldra við

Leó R Ólafsson
Leó R Ólafsson

Eitt af því sem fékk mig til að staldra við á dögunum, setja hönd undir kinn og hrukka ennið lítillega var grein eftir Gunnar Þórðarson sem er

greinilega mjög áfram um að við hér á klakanum gengjum í hið risavaxna Evrópska kompaní til að bjarga okkur frá fyrirsjáanlegri glötun. Eflaust gengur honum aðeins gott til og ég efast ekki um að hann er trúr sannfæringu sinni sem hann telur vera hina einu réttu skoðun. En þegar ég var búinn að velta fyrir mér skrifum hans og bera saman við ýmislegt það sem fram hefur komið að undanförnu, fer ekki hjá því að ýmsar spurningar vakni

 
Gunnar skrifar: “Íslendingar eiga engan annan raunhæfan möguleika en sækja um í ESB og seinna inngöngu í evrusamstarfið”.

 

Hér er sett fram fullyrðing án þess að nokkur rök fylgi með. Það finnst mér alltaf heldur endasleppt því ég vil fá að vita af hverju. Það nægir mér ekki að sagt sé að Finninn Olli Rhen sé við stjórnvölinn um þessar mundir og hann sé svo jákvæður gagnvart umsókn okkar.

 

Gunnar skrifar: “Það eru þrjár leiðir til fyrir Íslendinga í gjaldmiðlamálum”.

 

Þær leiðir telur hann vera að nota krónuna sem sé blindgata, taka einhliða upp annan gjaldmiðil sem sé villuljós eða stefna að upptöku evru sem sé eina raunhæfa leiðin. Hann minnist t.d. ekki á myntsamstarf við Noreg sem hefur sífellt meira verið til umræðu og gæti alveg verið vænlegur kostur því þó að við göngum inn í ESB liggur það fyrir að við gætum þurft að halda krónunni allt til ársins 2020 eða jafnvel lengur engu að síður. Mér þykir rétt að benda á að Liv Signe Navarsete formaður Miðflokksins og samgönguráðherra norsku ríkisstjórnarinnar lýsti því yfir að hún vildi gjarnan skoða myntsamstarf við Íslendinga ef það forðaði landmönnum frá að ganga í Evrópusambandið.

 

Gunnar skrifar: “Klisjan um að Íslendingar verði að afsala sér umráðaréttinum yfir auðlindum okkar stenst ekki skoðun”.

 

Og aftur eru ekki færð nein rök fyrir málflutningnum. En það hefur reyndar komið fram hjá stækkunnarstjóra ESB að ekki verði samið um neinar varanlegar undanþágur t.d. varðandi sjávarútvegsstefnuna, aðeins tímabundna aðlögun. Það hefur líka komið fram að mikið er horft til hefðarréttar og tel ég þá rétt að rifja upp að m.a. Spánverjar, Frakkar, Hollendingar og Þjóðverjar svo ekki sé minnst á Breta hafa gert út á Íslandsmið á hinum ýmsu tímum. Mér þykir því miður ólíklegt að þessar þjóðir telji sig ekki eiga erindi á Íslandsmið á krepputímum.

 

Hér eru nokkur dæmi um fréttaflutning nýverið sem efasemdamaðurinn ég hef ekki komist hjá að reka augun í. Ég fæ ekki betur séð en að þau hvetji til þess að stigið sé varlega til jarðar og hugsað áður en framkvæmt er.

Mbl. 31. jan.

“Skoskir sjómenn segjast myndu fagna því ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið og vona að sérfræðiþekking Íslendinga á sjávarútvegi verði til þess, að bæta sameiginlega fiskveiðistefnu ESB.

 

Miklar vangaveltur eru um það í Bretlandi, að Íslendingar muni á næstunni sækja um aðild að ESB. Talsmenn hagsmunasamtaka í skoskum sjávarútvegi segja, að það myndi hafa mikil áhrif á endurskoðun fiskveiðistefnu sambandsins og einnig hugsanlega opna fyrir aðgang breskra sjómanna að íslenskum fiskimiðum. 

 

Angus MacNeil, sem situr á skoska þinginu, segir við pressandjournal í Aberdeen, að Ísland, sem sjálfstæð þjóð, geti samið um aðild að ESB. „Skoskir fiskimenn geta aðeins öfundað þá íslensku, að vera meðhöndlaðir sem jafningjar á alþjóðavettvangi." 

 

Haft er eftir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóra skoska sjómannasambandsins, að skoskir fiskimenn hafi verið reknir af Íslandsmiðum eftir tvö þorskastríð á áttunda áratug síðustu aldar. „Við lítum til þess, að Íslendingar eru nú að fara bónarveg til Evrópusambandsins og vonum að það verði til að við fáum aðgang að þeirra sjávarútvegi."

 

Aðrir talsmenn skoskra sjávarútvegssamtaka og þingmenn segja, að sérfræðiþekking Íslendinga á sjávarútvegi muni án efa hafa góð áhrif á stefnumótun innan ESB.  Alistair Carmichael, sem er þingmaður á enska þinginu fyrir Orkneyjar og Hjaltland, segir að aðild Íslands að ESB muni hrista upp í stjórnkerfi sambandsins  vegna þess að íslenska ríkisstjórnin muni ekki þola núverandi kerfi miðstýringar og gagnsleysis en endurskoða á sjávarútvegsstefnu ESB á næstu árum.

 

Þá segir  Frank Doran, þingmaður Verkamannaflokksins fyrir Aberdeen, að það verði áhugavert að sjá hvernig Ísland tekur á sjávarútvegsmálum í aðildarviðræðum vegna þess að sjávarútvegur sé mikilvægur þáttur í þjóðartekjunum.”

Stöð 2 13. jan.

 
“Evrópusambandið ætlar að yfirtaka olíu- og gasframleiðslu Breta og Hollendinga í samræmi við leynilega valdheimild, að sögn breska blaðsins Daily Express.

 
Daily Express segir að leynileg valdheimild sem hafi verið skrifuð inn í Lissabon samkomulagið geri Evrópusambandinu kleift að yfirtaka orkuframleiðslu einstakra aðildarríkja til hagsmuna fyrir heildina.

 

Breskir þingmenn eru ekki ýkja hrifnir af því að sambandið yfirtaki olíu og gasframleiðslu landsins.

 

William Hague þingmaður Íhaldsflokksins sagði að það væri alrangt að gefa sambandinu ráðstöfunarvald yfir orkulindum Bretlands.

 

Þetta væri því miður dæmi um hvernig hin nýja stjórnarskrá veitti Evrópusambandinu of mikið vald yfir þjóðarhagsmunum einstakra aðildarríkja.

 

Leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins Nigel Farage sagði; ,,Brussel hefur þegar stolið fiskinum okkar. Nú vilja þeir olíuna og gasið".

 

Syed Kamall sem situr á Evrópuþinginu fyrir íhaldsflokkinn sagði;
,,Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna hefur þegar lagt fiskimið okkar í rúst. Sameiginleg orkumálastefna myndi gera það sama við það litla sem eftir er af olíulindum okkar.

 

Stjórn Evrópusambandsins er mikið í mun að tryggja öryggi þess í orkumálum. Ekki síst í ljósi þess hve sambandið er orðið óþægilega háð Rússlandi. Rússar sjá því fyrir fjórðungi af því gasi sem aðildarríkin nota.”

 Vísir 30. jan.

 

“Ísland gæti verið komið í Evrópusambandið fyrr en varði, jafnvel árið 2011, ef marka má ummæli embættismanna í Brussel og íslenskra stjórnmálamanna í breska blaðinu Guardian í dag.

 

Blaðið hefur eftir Olli Rehn, umsjónarmanni stækkunar sambandsins, að aðild Íslands yrði hvalreki á fjörur ESB og kjörið væri að það gengi til aðildarviðræðna um leið og Króatía, en sambandinu þykir hentugast að fá ný ríki tvö og tvö saman til aðildar.

 

Samkvæmt heimildum Guardian má búast við því að umsókn Íslands yrði flýtt eftir megni vegna efnahagsástandsins og skuldir landsins myndu ekki raska efnahag ESB að ráði vegna smæðar íslenska hagkerfisins.”

 

Með tilliti til þess sem hér má lesa, er það auðvitað hvalreki á fjörur ESB að fá Ísland inn og þar með allt sem því fylgir og fylgja ber. Þá gæti það verið ekki aðeins fiskurinn í sjónum, heldur einnig fallvötn, jarðhiti og í framtíðinni olían á Drekasvæðinu ef hún er þar.

En þetta er ekki öll sagan, því enn vitna ég til þess sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið.

 Ruv. 12. jan.

“Samkvæmt könnun sem rannsóknarfyrirtækið YouGov vann, vilja sextíu og fjögur prósent Breta vilja losa um tenglsin við ESB að hluta eða þá rjúfa þau alfarið. Tuttugu og tvö prósent þeirra sem svöruðu vilja að Bretland sé áfram í ESB, að fyrirkomulagið verði óbreytt og vilja gildistöku Lissabon sáttmálans umdeilda sem er eins konar stjórnarsáttmáli Evrópusambandsins.

Vísir, 19. jan. 2009

 
“Einn af fyrrverandi stjórnendum írska seðlabankans, David Mc Williams, segir að ef Evrópusambandið komi Írum ekki til hjálpar í efnahagskreppunni eigi Írar að hóta því að draga sig út úr evrusvæðinu.

 

McWilliams segir að erfiðleika Íra megi að miklu leyti rekja til þess að þeir geta ekki stýrt genginu í landinu með hliðsjón af ástandinu heimafyrir. Spánn og Ítalía myndu svo líklega fylgja í kjölfarið, sem yrði mikið áfall fyrir evruna.

 

Í Telegraph segir að þessi hótun endurspegli biturð Íra út í Evrópusambandið en þeir telja að sambandið láti þá gjalda þess að hafa ekki samþykkt Lissabonn-sáttmálann svonefnda.”

 

Samkvæmt þessu virðist vera að bresta á flótti í liðsheildinni. Ég hlustaði á athyglisvert útvarpsviðtal á dögunum við mann sem ég man því miður ekki hvað heitir, en hann sgðist hafa tekið þátt í þeirri vinnu sem fólst í EES samningnum á sínum tíma. Hann hélt því fram að ESB báknið (eins og hann orðaði það) væri rekið að miklu leyti á lánsfé og það væri tímaspursmál hvenær það félli eins og risi sem stæði á brauðfótum. Stærri þjóðirnar Bretland, Þýskaland og Frakkland hafi til margra ára færst undan því að greiða það fé sem nauðsynlega þyrfti til rekstursins, en framlag þeirra smærri væri reiknað út í hlutfalli við þær. Það kæmi að öllum líkindum að því að lánsfé væri ekki lengur fáanlegt og þá þyrfti að stórhækka heildarframlögin eða annars færi illa. Sé þetta rétt gæti Ísland ef það gengi inn, verið að annarri kreppu ofan á þá sem fyrir er. Annars sakna ég þess að hafa ekki heyrt mikið um það rætt hvað kostar að vera í ESB. Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að sumir þeir sem hafa hæst, forðist þann hluta umræðunnar sem er auðvitað nauðsynlegur eins og allir aðrir hlutar hennar.

 

En ég get ekki látið hjá líða að minnast á niðurlagsorð Gunnars.

“Nú blasir alvaran við Íslendingum.  Þeir verða að varpa frá sér mikilmennskunni sem komið hefur þjóðinni í þau vandræði sem hún er í.  Takast á við málin af auðmýkt og taka ákvörðun sem bætir lífsgæði þjóðarinnar, en hugnast ekki bara þröngum hagsmunum minnihlutahópa.”

 

Það er auðvitað alveg rétt að með sívaxandi tæknivæðingu hefur sjómönnum farið ört fækkandi og geta jafnvel talist til minnihlutahópa í þjóðfélagi nútímans. En gjaldeyrinn sem þeir afla þjóðinni til handa er nokkuð sem munar um, því án hans værum við örugglega öll best komin á Jótlandsheiðum eins og stóð til forðum. Útflutningsverðmæti sjávarafurða eru nú aftur orðin stærsti einstaki liðurinn þegar kemur að gjaldeyrisöflun þjóðinni til handa eftir að heimsmarkaðsverð á áli lækkaði verulega á síðasta ári. Ef Íslenskur sjávarútvegur legðist af e.t.v. að stórum hluta eins og ekki virðist með öllu útilokað að geti gerst, er hætt við að fáum yrði stætt á að verða eftir á skerinu til þess m.a. að ræða álíka gáfulega hluti og að ganga í “Bandaríki Evrópu.”  Ofan í kaupið er svo farið spá hruni evrunnar.

Leó R Ólafsson


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst