Er krónan að hefja mikið styrkingarferli?

Er krónan að hefja mikið styrkingarferli? Gjaldmiðlar ríkja í Evrópusambandinu eiga í vök að verjast um þessar mundir. Evran er byrjuð að falla hratt

Fréttir

Er krónan að hefja mikið styrkingarferli?

Ágúst Þórhallsson, mynd amx.is
Ágúst Þórhallsson, mynd amx.is
Gjaldmiðlar ríkja í Evrópusambandinu eiga í vök að verjast um þessar mundir. Evran er byrjuð að falla hratt gagnvart USD og Yen og Pundið hefur nánast sokkið eins og áður hefur verið spáð og rætt um hér. Í Bretlandi er mikil hræðsla um þessar mundir og líklega mjög stutt í að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfi að koma til bjargar.

Athyglisvert er hvernig lítil ríki eins og Ísland og Lettland finna fyrst fyrir kreppunni en síðan koma stærri og þróaðri skuldug ríki eins og Bretland, Spánn og Ítalía. Líklega mun kreppan ná hámarki þegar stór og stöndug ríki Evrópusambandsins á borð við Þýskaland lenda í miklum erfiðleikum sem mun leiða til hruns evrunnar.

Það er mjög athyglisvert að hlusta á Jim Rogers í nýjasta viðtalinu við hann á Bloomberg en Jim sem er einn af virtustu fjárfestum í heimi telur að Bretland eigi litla möguleika þar sem landið eigi takmarkaðar auðlindir til að selja öðrum ríkjum og þar af leiðandi sé samkeppnisstaða landsins mjög veik þegar horft er til framtíðar. Jim talar um að Norðursjór sem hafi verið ein helsta auðlind Bretlands sé nánast þurrausinn. Ekki er staðan betri í mið-Evrópu þar sem fáar vænlegar auðlindir eru til staðar, Evrópubúar eru upp á Rússa komnir með olíu og gas og fátt um fína drætti í útflutningsgreinum. Evrópubúar hafa verið góðir í því að selja hver öðrum þjónustu og vöru en hafa lítið skapað af tekjum með því að selja vörur út fyrir evrusvæðið nema þá helst Þýskaland. Taka má dæmi af þjóð eins og Danmörku sem er rekin nánast eins og sveitabær sem skiptir á mjólk og kjöti við aðra sveitabæi í nágrenninu. Lítil raunveruleg verðmæti koma hins vegar inn í sveitabæinn þar sem allt snýst um skipti á milli kotkallanna á sveitabæjunum í hreppnum. Fáar góðar auðlindir eru til þar sem búið er að þurrausa þær flestar svo sem fiskimið, olíusvæði o.s.frv. Skuldirnar fara hins vegar ekki neitt og erfitt verður fyrir þessar Evrópuþjóðir að vinna á þjóðarskuldum nema til komi auknar tekjur eða mikill niðurskurður.

Ef þessi auðlindamælikvarði sem Jim nefnir mun verða notaður til að mæla eðlilegan styrk gjaldmiðla í framtíðinni er ljóst að við Íslendingar getum haldið áfram að kyssa krónuna okkar. Krónan mun verða sterk og mjög álitlegur fjárfestingarkostur í framtíðinni. Á Íslandi er staðan þannig að við erum útflutningsþjóð og eigum gnótt af auðlindum svo sem gríðarlega verðmæt fiskimið, rennandi vatn í endalausum mæli, orku í iðrum jarðar, vel menntað vinnuafl og mögulegar olíuauðlindir. Edmund Conway, viðskiptablaðamaður á Telegraph, telur að það sem muni leiða Bretland á endanum úr kreppunni verði útflutningur. Sama á við Ísland, við erum bara um 320.000 víkingar og því er ljóst að við munum á næstu árum með auðveldum hætti geta átt mikinn afgang að öllum viðskiptum við útlönd miðað við allar þær auðlindir sem við sitjum á. Takist að reka þjóðfélagið vel á næstu árum er ljóst að krónan mun styrkjast og ná fyrra gildi fyrir hrun vegna þess að fjármagn mun flæða hingað inn til þess að vinna úr þeim auðlindum sem við höfum úr að spila. Það er hins vegar mikilvægast að við Íslendingar verðum áfram eigendur að okkar auðlindum svo við getum notið arðsins af þeim. Ef við göngum í Evrópusambandið erum við um leið leggja okkar gríðarlegu auðlindir í pottinn með öðrum þjóðum Evrópu sem eiga fáar auðlindir eftir til að leggja í sama pott. Þá er hætta á því að útkoman verði hálf íslenskur grautur sem við þurfum að deila með öðrum þjóðum sem eiga ekkert tilkall til grautsins.

Vísbendingar eru um það núna að íslenska krónan geti verið við það að hefja nokkurt styrkingarferli, fjárfestar sjá að góðir vextir fást hér samanborið við önnur lönd þar sem vextir eru allstaðar í sögulegu lágmarki, vöruskiptajöfnuður mun vera jákvæður hér á næstu misserum og þá má gera því í skóna að talsverður hluti jöklabréfanna svokölluðu sé farinn úr landi þar sem lífeyrissjóðirnir okkar hafa verið duglegir við að skipta á gjaldeyri við eigendur jöklabréfanna að undanförnu. Þá má ekki gleyma því að okkar efnahagur með öllum okkar auðlindum lítur bara ekki svo illa út með tilliti til útflutnings miðað við aðrar þjóðir sem eru nú á fallandi fæti. Þá styður tæknigreining við það að krónan geti styrkst gagnvart evrunni á næstunni.

Ágúst Þórhallsson, hdl., MBA starfrækir einkahlutafélagið M10 sem er fyrirtækjaráðgjöf og lögmannsstofa. Ágúst lauk MBA prófi frá Edinburgh Business Scool árið 2006 með sérstaka áherslu á sögu fjármálamarkaða.


Athugasemdir

12.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst