Jólahlaðborð Hafliðaguttanna

Jólahlaðborð Hafliðaguttanna Í gærkvöldi, fimmtudaginn 16.des, hittust Hafliðaguttar annað árið í röð á jólahlaðborði. Reyndar var það heilmikil

Fréttir

Jólahlaðborð Hafliðaguttanna

Hafliðaguttarnir. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Hafliðaguttarnir. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Í gærkvöldi, fimmtudaginn 16.des, hittust Hafliðaguttar annað árið í röð á jólahlaðborði. Reyndar var það heilmikil hangikjötsveisla í grunninn, en þarna mátti einnig líta ýmiskonar annan þjóðlegan mat. Aðsókn var með ágætum eða tæpt hálft hundrað sem er ríflega 100% aukning frá fyrra ári.



Miðasali og gjaldkeri var Leifur Jóns. Þarna er Eiður Eiðsson að gjalda Leifi það sem Leifs er, ef þannig mætti yfirfæra þá fleygu setningu. Honum er síðan hleypt inn í veislusalinn eftir að kortið hefur verið straujað.



Gunnar Trausti var veislustjóri. Hann kynnti atriðin og lét nokkrar vel valdar smásögur og snyrtilega orðuð skeyti fljóta með öðrum fróðleik.

Á tjaldi á bak við sviðið, rúlluðu alveg frábærar togarajaxlamyndir teknar af Jóa Matt.

Eftir matinn var sýnd stutt kvikmynd sem Hafsteinn Odds tók á sjöunda áratugnum. Það verður að segjast um hana að þar er á ferðinni alveg frábær heimild sem sýnir vel handtök og verklag sem ekki er þekkt í dag nema e.t.v. af afspurn. Það var heldur ekki leiðinlegt að sjá Svan og Örn Pálssyni togast á við Hannes Boy um brennivínsflösku. Eiginlega verður ekki annað sagt að þar hafi menn verið afar sannfærandi í hlutverkum sínum.
 


Kristján Elíasson flutti einkar skemmtilega og fróðlega samantekt úr sögu togaraútgerðar, bæði á Siglufirði svo og á landsvísu. Eitthvað gekk honum þó brösuglega að komast af stað með erindið í fyrstu þrátt fyrir að gleraugun væru komin á sinn stað, en allt varð miklu léttara eftir að Gunnar Trausti færði honum leslampann.



Valgeir Sigurðsson Stuðmaður sté á svið þar sem hann spilaði, söng og spjallaði við gestina.
 
Hann sagði okkur af því að hann samdi lagið “Bíldudals grænar baunir” þegar hann varð eitt sinn veðurtepptur á Siglufirði með konuna kasólétta, ásamt Baldri Brjánssyni töframanni sem var með 10 sískítandi dúfur í pappakassa.

Svo sagði hann okkur frá því þegar hann gerðist sjóari sem var pínulítið skrautleg frásögn. Hann sagðist hafa farið strax eftir menntaskóla og nánast beint úr skemmtilegu partýi, um borð í bát sem hét Hinrik og var gerður út frá Kópavogi. Það var haldið rakleiðis í Norðursjóinn en lítið veiddist, m.a. vegna þess að uppistaða áhafnarinnar var hópur reynslulausra unglinga í sinni fyrstu sjóferð. Aðrir voru eins og Valgeir orðaði það “fullir ALLAN tímann” og komu þess vegna að heldur litlu gagni.

Þá lét hann vaða besta, vonda brandaranum sem hann hafði að sögn á ævinni heyrt og hafði hann eftir Gylfa Ægis. Varla þarf að taka það fram að þar var ekki farið nema í besta falli hæfilega fínt í að orða hlutina. Myndaðist í kjölfarið nokkur kliður í kring um eitt borðið í salnum og sögumaður var lítið eitt vandræðalegur þegar hann varð þess áskynja að fjórir bræður Gylfa voru staddir þarna í salnum.

Ekki minnkaði kliðurinn við að Valgeir brást við með því að spyrja salinn hvers konar “lýður” þetta væri eiginlega. Spurningin kom í kjölfar umræðunnar um þá Ægissyni og olli því skiljanlegum misskilningi, en þarna var sennilega verið að tala um hinn ótrúlega prúða, háttvísa og bláedrú sal. Gítarleikarinn góðkunni sagði líka að það mættu fleiri áhafnir gamalla síðutogara taka sér Hafliðaguttana til fyrirmyndar og halda bindindismót á aðventunni.



Þórir Björns.


 
Sigurður og Lýður Ægissynir


 
Doddi Gerðu og Matti Kristjáns



Frímann elsti bróðir Sigga Ægis og Örn Páls.



Erlingur Björns, Jóhannes Blöndal og Sævar.



Og auðvitað blessaði presturinn söfnuðinn, en reyndar með myndavélina á lofti.


 
Aðaldrykkur kvöldsins var “Jólablanda” sem eins og við vitum saman stendur af malti og appelsíni. Eftir matinn var svo boðið upp á kaffi og konfekt, en margir þessara jaxla sögðust vera löngu hættir að drekka jafn örvandi drykki og kaffi eftir að kvöldsett væri orðið. Þá var komið með heitt vatn á brúsa og gátu menn þá annað hvort fengið sér te, eða heitt vatn með mjólkurtári og kannski svolítinn sykur út í.

Þar kom að menn fóru að tínast heim einn af öðrum og einhver hafði á orði að það væri farið að líða að háttatíma. Þetta var búið að vera alveg frábært kvöld og ég leit á klukkuna. Hún var hálf tíu og ég hugsaði með mér að einhvertíma hefðu þessir ”naglar” kannski verið vísir til að vaka eitthvað örlítið lengur.

Texti Leó R. Ólason.
Myndir Birgir Ingimarsson.

Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst