Aftur komin trú á framtíðina?

Aftur komin trú á framtíðina? Ég er einn af þeim heppnu sem dreginn var til út að vera fundarmaður á þjóðfundi í gær. Ég segi einn af þeim heppnu vegna

Fréttir

Aftur komin trú á framtíðina?

Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson
Ég er einn af þeim heppnu sem dreginn var til út að vera fundarmaður á þjóðfundi í gær. Ég segi einn af þeim heppnu vegna þess að þarna var ekki bara tækifæri til að koma að sjónarmiðum mínum og hugmyndum heldur ekki síður til að heyra hugsanir annara um sama efni. Það er að mínu mati mikils virði að geta sest niður með ókunnugu fólki víða af landinu og hlusta á þau sjónarmið sem þau vilja að verði tekin til greina á stjórnlagaþinginu.

Fyrri þjóðfundurinn sem haldinn var er fyrirmynd þess fundar sem haldinn var í gær. Það var samt allt annar andi sem sveif yfir vötnunum núna. Á fyrri fundinum fann ég á fólki reiði, sorg og vantrú á framtíðina. Nú var stemningin önnur, það var eins og að fólk hefði fengið trúna aftur á framtíðina en það ætlaði samt ekki að láta koma sér aftur í sömu vandræði vegna sinnuleysis og værukærðar. Það var alveg skýrt að fólk vildi ná fram breytingum sem flestar sneru að því að sníða nýjan ramma utan um hið pólitíska landslag og að dreifa valdi og ábyrgð.

 
•   Dómarar væru kosnir í almennum kosningum samfara sveitarstjórnar og eða Alþingiskosningum. Þannig kæmi umboðið beint frá þjóðinni til að dæma gjörðir eða fólk.
•   Að ráðherrar væru ekki þingmenn til að skerpa á skilunum á milli Alþingis og ráðuneyta.
•   Að landið væri eitt kjördæmi og þingmenn kosnir persónukjöri.
•   Að stjórnarskrá megi aðeins breyta með þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að ný stjórnarskrá hefur verið sett.
•   Að ný stjórnarskrá ætti að byrja á mannréttindakaflanum en ekki á Alþingi og forseta. Þetta væri stjórnarskrá fólksins og fyrir fólkið en ekki stofnanir. Stjórnarskráin ætti að vera grunnvörn fólks gegn stjórnvöldum m.a.
•   Að í landinu væri einn lífeyrissjóður og þannig væru jöfnuður í réttindasöfnun tryggður.
•   Að skoða hvort stofna ætti auðlindasjóð sem tæki við því fjármagni sem fengist úr leigu á auðlindum með skýrum heimildum um hvað mætti ráðstafa miklu fé að hámarki á hverju ári. Þetta væri einhvers skonar öryggisnet fyrir komandi kynslóðir.
•   Að í stjórnarskrá væri ákvæði sem bannaði að íslenskir ráðamenn styddu stríðsrekstur eða árásir á aðrar þjóðir.
•   Að drög að nýrri stjórnarskrá væru borin undir rafræna atkvæðagreiðslu í gegnum heimabanka landsmanna áður en Alþingi fengi að fjalla formlega um hana. Þannig mætti tryggja að umboð stjórnlagaþings væri formlegt og heimild Alþingismanna takmörkuð til breytinga.
•   Að sjálfstæði Íslands megi ekki framselja.
•   Að auðlindir séu í almannaeigu og séu ekki framseljanlegar.
•   Að forseti eigi að hafa skýrari valdheimildir og til staðar sé varaforseti komi eitthvað fyrir forseta
•   Að í stjórnarskrá sé ákvæði sem banni að skuldir ríkissjóðs séu hærri en 50% af þjóðarframleiðslu til að stemma stigu við þeirri ógn sem slök hagstjórn getur kostað skattgreiðendur.
•   Að 1/3 hluti þingmanna geti óskað þess að Hæstiréttur úrskurði hvort að lög sem búið er að samþykkja á Alþingi stangist á við stjórnarskrá og öðlist lögin ekki gildi fyrr en úrskurður liggi fyrir.
•   Að tryggt sé að hafni forseti lögum staðfestingar þá sé tryggt að atkvæðagreiðsla fari fram eins fljótt og auðið er.

Fjöldamargt fleira kom til umræðu á fundinum og mikið magn gagna varð til sem skoða má netinu.

Áhyggjur sumra af því að Ísland fyllist af innflytjendum var greinilega til staðar og voru sumir þeirrar skoðunar að herða þyrfti enn á skilyrðum fyrir því að fólk fengi hér búseturétt. Aðrir töldu að við ættum að vera enn opnari en áður fyrir því að fjölga hér innflytjendum.

Hvað sem um svona viðburð má segja þá er alveg klárt að hluti af því ferli að þjóðin grói sára sinna er að fram fari opin umræða með aðkoma allra þeirra sem vilja leggja orð í belg. Mitt mat er að ljósvakamiðlar hafi alls ekki rækt það hlutverk sitt að vera vettvangur fyrir þjóðina til að eiga þetta samtal.

Stjórnlagaþingið sem tekur til starfar síðar í vetur fær í hendur mikið efni til að skoða og meta inní þá vinnu sem fólgin er í því að skrifa nýja stjórnarskrá.

Ég óska því fólki sem nær kjöri velfarnaðar við það mikla verk.


 

Athugasemdir

30.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst