Breytt borgarlandslag: í stað blaðasala - betlarar

Breytt borgarlandslag: í stað blaðasala - betlarar Mér þykir vænt um miðborg Reykjavíkur. Ég hef starfað í miðbænum lengst af um starfsævina og bjó

Fréttir

Breytt borgarlandslag: í stað blaðasala - betlarar

Marta B Helgadóttir
Marta B Helgadóttir

Mér þykir vænt um miðborg Reykjavíkur. Ég hef starfað í miðbænum lengst af um starfsævina og bjó lengi í námunda við bæinn.

Mest er skrifað um höfuðborgina okkar þegar kosningar eru í nánd.  Ég ætla að bregða útaf þeim (ó)vana og velta upp nokkrum hugleiðingum. Ég læt smá tuð fylgja með :)    

Mér finnst miðbærinn hafa breyst mjög mikið síðustu árin. Fátt til hins betra. Viðhald gamalla húsa hefur dregist á langinn og þau fengið að drabbast niður. Við höfum gleymt að leggja rækt við fólkið í bænum eins og ég vil kalla miðborgina og nánasta umhverfi hennar. Þá á ég ekki aðeins við íbúa miðborgarinnar heldur líka þá sem þar dvelja yfir daginn. 

Miðborgin eins og hún er núna tekur fyrst og fremst mið af óskum þess fólks sem stundar næturlífið. Þjónustufyrirtæki eru horfin úr miðbænum. Þær verslanir sem enn eru til staðar eru einsleitar og selja flestar varning fyrir erlenda ferðamenn. Apótek í miðborginni voru 3-4 en er nú aðeins eitt eftir. Snyrtivöruverslanir hafa sömuleiðis horfið ein af annarri. Stella í Bankastræti stendur fyrir sínu alla tíð og er nú eina snyrtivöruverslunin á stóru svæði.    

Fjölskyldufólk velur annað en miðbæinn til að eyða sínum frístundum í. Börn sjást þar næstum aldrei. Ekkert laðar barnafólk sérstaklega þangað. Það er ekki gert ráð fyrir að börn leiki sér í miðborginni og Hljómskálagarðurinn er þar meðtalinn því miður. Á allra sólríkustu dögum á sumrin er einna helst að sjá einstaka mömmur eða pabba með barnavagna eða kerrur. Þau virðast annars ekki skjótast í búð í þessu hverfi.  

Á Austurvelli eru bæði rónar og betlarar. Þeir fyrrnefndu ganga örna sinna við næsta tiltæka runna og hvor hópur um sig virðist hafa "eignað" sér ákveðin götuhorn eða húsveggi, þar sem þeir stunda iðju sína.

Ég er nú orðin svo háöldruð að ég man allt aftur til ársins 1992 Wink 

Auðunn blaðasali Þá voru enn blaðasalar á götuhornum í Reykjavík. Blaðasalarnir voru í viðskiptum sem þeir sinntu fagmannlega og af dugnaði.

Þeir "eignuðu" sér ákveðin svæði sem þeim þóttu vænleg til söluárangurs. Þeir voru mættir eldsnemma á morgnana til að passa upp á að enginn tæki staðinn þeirra og til að selja þeim sem voru á leið til vinnu. Þarna stóðu þeir og seldu vel fram eftir degi eða þangað til blaðabunkinn var uppseldur. Yfirleitt voru það svo einhverjir aðrir sem mættu eftir hádegið til að selja síðdegisblöð á þeim tíma sem þau voru ennþá gefin út á Íslandi. Oft var það skólafólk sem mætti og aflaði tekna með því að selja síðdegisblöðin eftir að skóladegi lauk hjá þeim.  

Það má vera að ég sé hér í einhverjum nostalgíuþönkum. Hvað sem því líður þá er ég ekki sátt við að rónar og annað útigangsfólk geti gengið þarfa sinna á Austurvelli án þess að lögreglan eða aðrir skipti sér af því. Miðborgareftirlitsaðilar ef þeir væru til gætu sinnt miðbænum betur en gert er nú. Það er mannekla hjá lögreglunni. Kannski er þarna komin viðskiptahugmynd fyrir einhverja - að selja borgarstjóranum(?) þá hugmynd að ráða sérstaka eftirlitsaðila með lystigörðum borgarinnar. 

Með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga bágt og hafa sína veikleika varðandi áfengisneyslu og fleira, þá er það bara ekki neitt sjarmerandi þrátt fyrir bekki, falleg blóm og tré, að setjast niður í hádeginu og njóta umhverfisins á Austurvelli þegar mígandi sauðdrukkið fólk stendur álengdar við næsta runna.

Óli blaðasali

Þessi mynd er tekin við gatnamót Pósthússtrætis og Austurstrætis á björtum sólskinsdegi.

Óli blaðasali var eitt af andlitum miðbæjarins.

Óli Sverrir Þorvaldsson, þekktur sem Óli blaðasali, stendur á apótekshorninu og býður vegfarendum nýjustu fréttir til kaups. Óli hóf að selja blöð níu ára gamall og starfaði við blaðsölu mestan sinn starfsaldur eða í ríflega hálfa öld.


Athugasemdir

19.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst