Annar pistill Ugluspegils um hina ólöglegu lánastarfsemi og hörmulegar afleiðingar hennar.

Annar pistill Ugluspegils um hina ólöglegu lánastarfsemi og hörmulegar afleiðingar hennar. Kæru lesendurÉg þakka frábær viðbrögð við síðasta pistli mínum

Fréttir

Annar pistill Ugluspegils um hina ólöglegu lánastarfsemi og hörmulegar afleiðingar hennar.

Þórleifur Ugluspegill Ásgeirsson
Þórleifur Ugluspegill Ásgeirsson
Kæru lesendur
Ég þakka frábær viðbrögð við síðasta pistli mínum og ég lofaði ykkur að ég myndi ekki láta staðar numið þar.

Eins og síðast ætla ég að henda á ykkur spurningu til að velta fyrir ykkur. Ef ég, annar eins skíthæll og ég nú er, myndi af ásettu ráði, leggja ákveðinn mann í einelti. Og ég léti ekkert tækifæri ganga mér úr greipum til að vinna honum tjón, helst fjárhagslegt. Ég myndi semda honum tilhæfulausa reikninga og setja þá í lögfræðiinnheimtur alveg eftir nótum. Sönnunarbyrðinni myndi ég koma á hann, svo að flestar kröfurnar væru viðurkenndar.

Maðurinn myndi senda mér bréf, og biðja mig að hætta þessu, og ég myndi að sjálfsögðu hunsa það. Og að lokum gæfist vesalings maðurinn upp og skrifaði mér kveðjubréf og svipti sig lífi.

Þegar farið væri að rannsaka málið, þá kæmi hið sanna í ljós, bæði með innheimtubréfunum, svo og afritum af bréfunum til mín í tölvunni hans.

Ég yrði handtekinn með það sama og ákærður fyrir morð, og næstum örugglega dæmdur, því að án minnar skítlegu íhlutunar hefði maðurinn lifað góðu lífi, og væri örugglega á lífi..

Eftir síðustu grein hef ég fengið mikið af bæði tölvupósti og skilaboðum á Facebook, og margar reynslusögur. Eina þeirra vildi ég kanna sérstaklega, og hafði samband við hlutaðeigandi aðila.

Sagan kemur hér:

Maður á fertugsaldri í Reykjavík ákvað að stofna fyrirtæki árið 2006, með jarðvinnu og lóðafrágang að aðalstarfi. Hann kaupir sér vörubíl og traktorsgröfu á um það bil 13 milljónir samtals. Það var fjármagnað með myntkörfuláni í japönskum Yenum og svissneskum frönkum. En hann gerir röð af mistökum sem urðu afdrifarík.
Fyrir það fyrsta þá byrjar hann sem einyrki og rekur fyrirtækið á eigin kennitölu.
Það annað sem hann gerir er að samþykkja að faðir hans gangi í ábyrgð með honum,

Hann átti hús, en ekki leist þeim á veðhæfi þeirrar eignar, en á henni hvíldi um 70% lán frá sama fjármögnunarfyrirtæki. Skuldlaust hús föður hans var miklu betri kostur.

Og ekki virtust tækin standa undir veðinu sem á þeim hvíldi, svo að mig rennir í grun um að stefna fjármögnunarfyritækjanna um að lána sem mest í gjaldeyristryggðum lánum hafi verið langtímaplott, því eins og flestum er kunnugt þá tóku bankarnir stöðu gegn krónunni gagngert til að hagnast á gengismuni, þegar þeir sáu að allt var á leið í hundana.

Reksturinn gekk bærilega, og hann var með skólakrakka í sumarvinnu, og á veturnar mokaði hann snjó, því hann var laginn að verða sér út um verkefni.

Hann kláraði að byggja húsið sitt og gerði lóðina snilldarlega fallega, svo að verðmæti eignarinnar jókst umtalsvert, án þess að frekari lán væru tekin.

Svo kemur að því að Geir Haarde telur það tímabært að biðja Guð að hjálpa sér og Íslandi. Við vitum hvernig það gekk, allar framkvæmdir stöðvuðust, og lánin hækkuðu og hækkuðu, með aðstoð fallandi gengis íslensku krónunnar, sem eins og áður er sagt var plott lánastofnana.

Vinur okkar er atvinnulaus, og með tæki sem þarf að greiða af, en standa bara verkefnalaus. Fjármögnunarfyrirtækið var ekki lengi að sækja tækin. Það gerðist 12 dögum eftir að þriðja afborgun fór í vanskil. Uppgjörið var heldur ekki lengi að láta sjá sig.

Samkvæmt því skuldaði drengurinn 14,2 milljónir í það heila, Tækin voru metin á 4,8 milljónir, en samkvæmt óháðu sölumati, þá var gangverð þeirra rúmar 9 milljónir, og sennilega meira, því þeim hafði verið vel við haldið. Samt kom þessi venjulegi reikningur fyrir þrif og viðgerðir upp á 1,1 milljón, og lækkaði matsverðið í 3,7 milljónir. Eftirstöðvarnar stóðu í cirka 10,5 milljónum.

Á þessum tímapunkti var ekki búið að frysta nauðungaruppboð, og fjármögnunarfyrirtækið var ekki lengi að bjóða húsið upp, og keypti það á sínum fyrsta veðrétti, og þar af leiðandi fékkst ekkert upp í tækjakröfurnar.

Hjónin áttu húsið saman og voru gift, og þar af leiðandi bæði komin á svartann lista. Þau fengu þrjá mánuði til að rýma húsið, og það stóð ekki á fjármögnunarfyrirtækinu að rukka leigu, og hana ekkert í lægri kantinum, því að auðvitað vissu þeir að þau þyrftu tíma til að pakka niður og tæma húsið, og að sjálfsögðu vildu þeir fá leigu á meðan.

Fólk á svörtum lista á erfitt með að fá húsnæði leigt í Reykjavík, og ekki voru til miklir peningar á heimilinu.

Maðurinn varð þunglyndari og þunglyndari dag frá degi, því hann gerði sér fullvel grein fyrir hvert málin stefndu. Og eina nóttina skömmu áður en þau áttu að flytja, þá skrifar hann kveðjubréf til fjölskyldunnar og einnig kurteislegt bréf til fjármögnunarfyritækisins þar sem hann sagðist ekki sjá að hann ætti neina framtíð fyrir sér, og yrði bráðlega útskúfaður af fjölskyldu sinni.

Þessa nótt svipti maðurinn sig lífi í bílskúrnum á húsinu sem hann byggði. Hann varð 37 ára.

Það voru ekki margir dagar liðnir frá jarðarförinni, þegar kröfubréf og hótanir um nauðungarsölu fóru að berast foreldrum hans. og þá voru eftirstöðvarnar komnar vel á fjórtándu milljón.

Gamli maðurinn fer til fjármögnunarfyrirtækisins og greiðir upp kröfuna með sparifé, og lífeyrissjóðsláni, og hann fer fram á að fá að greiða alla upphæðina og fá tækin afhent aftur, í von um að geta gert sér eitthvað meiri pening úr þeim en fjármögnunarfyrirtækið hafði metið þau á, og jafnvel minnkað tjón sitt eitthvað.

Nei það var ekki hægt, því þeir vildu ekki selja tækin svona ódýrt, en hann fékk tilboð um að fá þau keypt á 10,5 milljónir, því þau voru svo vel með farin, og í svo fínu standi. ( Er ekki smá rökvilla þarna? )

Ég heimsótti foreldrana, og fékk að skoða pappírana sem gamli maðurinn hafði undir höndum, og fékk leyfi til að segja ykkur söguna, ef nafnleyndar yrði gætt, og allir sem segja mér sína sögu meiga treysta því að nafnleyndar verður gætt sé þess óskað.

Ég verð að segja að ég hef ekki séð ósvífnari og rætnari aðgerðir. Innheimtubréfin voru hrein og klár hótunarbréf.

Ég gleymdi að spyrja föðurinn hvort ég mætti nefna fjármögnunarfyrirtækið á nafn sem hagaði sér svona alúðlega. En ég fæ vonandi leyfi til að gera það, og þá kemur það á stundinni.

Ég bauð gamla manninum að fara í málið með honum og ræða við lögfræðinginn minn, sem er snillingur í svona málum, en svarið sem ég fékk var: Drengurinn minn lifnar ekki við þó að ég fái einhverjar krónur.

Þarna er búið að rústa lífi þriggja ættliða, því barnið er búið að fá finna fyrir þessu enda 11 ára þegar faðirinn dó.

Í almennum hegningarlögum stendur:
248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
249. gr. Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.


Getur þetta þvælst fyrir nokkrum?

Og svo leggst Ríkisstjórnin með Gylfa í fararbroddi, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið á eitt við að styðja við bakið á þessum glæpahundum.

Kannski er kominn tími á hryðjuverkalög á ofantalda aðila

Ugluspegillinn á meira í pokahorninu.

Kveðja
Leifur
leifur@simnet.is

Dreyfist sem víðast!!!!!!!!!


Athugasemdir

03.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst