Ég sé botninn

Ég sé botninn Nú er liðið ár frá falli Lehmans bankanns. Þetta er stærsta gjaldþrot veraldar. Bankinn var með efnahag uppá 619 milljarða USD, hann var

Fréttir

Ég sé botninn

Hermann Guðmundsson. Forstjóri N1
Hermann Guðmundsson. Forstjóri N1
Nú er liðið ár frá falli Lehmans bankanns. Þetta er stærsta gjaldþrot veraldar. Bankinn var með efnahag uppá 619 milljarða USD, hann var 6 sinnum stærri en bankarnir okkar þrír, samanlagt.  Fróðlegt verður að fylgjast með því uppgjöri og hversu miklir fjármunir endurheimtast fyrir lánadrottna til samanburðar.

Það var á þessum tíma 2008 sem ljóst var hvert stefndi. Við hjá N1 eyddum mörgum dögum í að reyna að kaupa 20 milljónir USD til að greiða fyrir olíuskip sem var að lesta í Noregi en án árangurs. Það stefndi í óefni, en á síðustu stundu tókst að fá keyptan gjaldeyri með aðstoð Seðlabanka Íslands og við þekkjum öll söguna sem síðan tók við.

Nokkrum dögum eftir fall bankanna voru komnir til landsins fjölmargir aðilar sem vildu gera góð kaup hjá þjóð í vanda. Ég hitti suma þessara aðila. Þeir vildu kaupa flugfélag, skipafélög, olíufélög, orkufyrirtæki, tryggingafélög og banka. Þeir vissu að vandinn var mikill og þeir vildu greiða út í hönd gegn ríflegum afslætti. Engum slíkum tilboðum var tekið, hvorki af stjórnvöldum eða atvinnulífi og það skiptir verulegu máli við endurreisnina.

Og hvar erum við stödd ári eftir þennan örlagaríka dag?  

Ekki er hægt að segja að staðan sé góð en hún er samt á margan hátt mun betri en verstu spár gerðu ráð fyrir.

Hvað veldur því?, spyrja þá margir.

Skýringarnar eru fjölmargar eins og alltaf þegar leitað er skýringa á gangi hagkerfa. Ein stór ástæða er að hagvél heimsins stöðvaðist ekki. Stóru mótorarnir í þeirri vél eru hagkerfin í Kína, Japan Indlandi, Kóreu og auðvitað Bandaríkin. Hinar risavöxnu aðgerðir stjórnvalda í þessum löndum til að styðja við hagkerfin hafa borið árangur. Hagvélin malar sem sagt hraustlega  fram á veginn þrátt fyrir all nokkrar gangtruflanir síðustu tvö árin.

Hér innanlands hefur margt hjálpað til við að lina þjáningarnar.  Frestun afborgana og lenging lána heimilanna var brýn aðgerð. Miklar stýrivaxtalækkanir á erlendu fjármagni hafa hjálpað íslenskum fyrirtækjum sem flest skulda lán í erlendri mynt. Mikil umferð erlendra ferðamanna bæði í flugi og sjó færðu landinu miklar tekjur í sumar. Veiðar hafa gengið vel og þrátt fyrir að aflaheimildir hafi verið skornir niður um allt 50 milljarða að útflutningsverðmæti, hefur sú mikla veiking sem varð á krónunni unnið upp allan þann niðurskurð. Ekki má gleyma að álverð hefur hækkað um 50% frá lægstu stöðu ársins.

Þjóðarframleiðsla er enn vel yfir 30.000 USD pr. íbúa og því erum við enn í hópi þeirra þjóða sem hvað hæstar þjóðartekjur hafa hlutfallslega. Við erum eitt af 20 tekjuhæstu löndum heims mælt í íbúafjölda. Það er gömul saga og ný að það eru grundvallar atriðin sem ráða úrslitum í rekstri fyrirtækja og hagkerfa. Ísland er framleiðsluland með mikil verðmæti í höndunum og gríðarlega gott sjóðstreymi, það er jú sjóðsstreymi sem á endanum skilur á milli þeirra sem geta greitt og hinna.

Yfirskrift þessa pistils er fullyrðing um að botninum sé náð í efnahagskreppunni. Það er mín trú þegar horft er á hagvél heimsins. Nokkur augljós merki eru t.d. eftirfarandi:

  • Álverð hefur hækkað um 50% á árinu
  • Olía hefur hækkað um 110% frá lægstu stöðu
  • Hlutabréfavísitalan SP500 hefur hækkað um tæp 50% á s.l. 6mán
  • Fasteignaverð er hætt að lækka á flestum mörkuðum
  • Atvinnuleysistölur í flestum löndum eru hættar að rísa

Markaðir verðleggja framtíðina og allir virðast sammála um að það sjáist í botninn.

Fjölmargt fleira má týna til en ég tel öll merki benda til sömu niðurstöðu. Með þessu er ekki sagt að leiðin verði greið til hagvaxtar alls staðar. Það eru samt sterkar líkur á að árið 2010 verði ár talsverðs bata í öllum helstu hagkerfum heims. Við munum njóta þess eins og aðrir.

Staðan hér innanlands er skárri en vænta mátti og t.d. þá hefur þjóðarframleiðslan ekki dregist saman jafn mikið og spáð var og eins hefur atvinnuleysið orðið minna en reikna mátti með. Það má samt reikna með að veturinn geti orðið erfiður ef ekki verða settar af stað framkvæmdir til að örva hagkerfið til skemmri tíma litið. Það má líka engan tíma missa í því að leiðrétta skuldir heimilanna, það ræður miklu um langtíma horfur atvinnulífsins.

Ef horft er til lengri tíma má reikna með að sá kraftur sem hefur borist inní efnahagslífið með veikingu krónunnar muni kveikja upp mörg störf sem annars kæmu ekki fram. Sú mikla kaupmáttarrýrnun sem hefur orðið má alls ekki festast í sessi. Það er brýnt verkefni aðila vinnumarkaðarinns.

Mikill kraftur er hlaupinn í frumkvöðla og margt spennandi er að fæðast.

Það gleymist stundum að hagkerfi þrífast á frumkvæði einstaklinga en ekki vegna pólitískra ákvarðana. Það skiptir samt sköpum að grundvallarmálin í hagkerfum virki og það er hlutverk stjórnmálamanna.

Nú þegar er búið að sækja um aðild að ESB, Icesave málið er komið í farveg, fjármögnun tveggja banka er lokið og vonandi koma erlendir kröfuhafar að þeim báðum og létta þeirri byrði af ríkissjóði.

Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var er einstakur á Vesturlöndum og sýnir hversu samhent þjóðin er þegar á reynir.

Stærsta einstaka vandamál stjórnvalda um þessar mundir er rekstrarstaða ríkisins og nauðsyn þess að skera niður útgjöld. Sennilega eru kröfur AGS óþarflega harkalegar og mitt mat er að við eigum að leyfa okkur að taka 3 – 5 ár héðan í frá til að ná aftur afgangi af fjárlögum. Á þeim tíma mun hagkerfið vaxa talsvert og umtalsvert ef t.d. Helguvík kemst í gagnið. Með þessu móti yrði ekki um jafn alvarlegar afleiðingar að ræða fyrir grunnþjónustu íbúanna.

Hvort sem að þjóðin kýs að ganga í ESB eða ekki þá trúi ég því að okkur muni farnast vel á þessari eyju og mun betur en flestum öðrum þjóðum.


Athugasemdir

17.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst