Skínandi falleg hrúga!

Skínandi falleg hrúga!  Mikil umræða geysar nú á Íslandi um framtíðar peningamálastefnu og hvort krónan okkar sé ónýt eða ekki. Enginn skortur er á

Fréttir

Skínandi falleg hrúga!

Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson
 Mikil umræða geysar nú á Íslandi um framtíðar peningamálastefnu og hvort krónan okkar sé ónýt eða ekki. Enginn skortur er á sérfræðingum um þetta efni og rökin með og á móti gjaldmiðlinum eru flestum orðin vel kunn.

Mikið minni umræða er hins vegar um það sem meira máli skiptir og það er stefna okkar í hagstjórn og markmiðasetningu um fjölbreytt atvinnulíf. Krónan er í eðli sínu eins og hlutabréf, hún er pappír sem inniheldur greiðsluloforð og hlutdeild í framleiðslu þjóðarinnar, allt annað tal er eingöngu umbúðir utan um það sem máli skiptir. Ég ætla því ekki að þvælast um akra orðræðunnar um peningamálastefnu, hún verður afleiðing af því sem máli skiptir.

Ef við hugleiðum örstutt myntir heimsins almennt og metum verðmæti þeirra horft fram á veginn, er alveg víst að flestar myntir búa við meiri óvíssu en sú íslenska. Bandaríkjadalur sem er langstærsta mynt veraldar með um 60% af veltunni rambar á barmi óvissunar vegna gríðarlegra skulda þjóðarbússins og það sem enn verra er: Viðskiptahalla sem er óbærilegur og taprekstri ríkissjóðs, fylkja og sveitarfélaga. Það er öllum ljóst sem vilja að skuldadagar nálgast hratt og eina leiðin er að verðfella myntina enda er hún ekki að sýna framá raunvirði til lengri tíma litið. Það fer t.d. ekki hátt í umræðunni um hina vonlausu krónu að 1 bandaríkjadollar er í dag aðeins 1/16 af því verðmæti sem hann hafði fyrir 80 árum síðan. Allar myntir missa verðgildi til lengri tíma litið, það er óumflýjanlegt en hraðinn skiptir máli.

Hvað með Evruna?

Evran stendur enn mun traustari fótum en bandaríska myntin en það eru samt komnar fram vísbendingar um að verðmæti hennar fáist ekki staðist í núverandi hæðum þar sem sú verðmætasköpun sem að baki hennar er byggir á of fáum og það sem verra er þeim fer fækkandi. Ekki má heldur horfa framhjá því að skuldir Evruþjóðanna eftir heimskreppuna hafa magnast upp og grafa enn undan virði myntarinnar. Ég spái því að þau lífsgæði sem Evrópubúar töldu sig eiga vís næstu 10 – 20 árin mun rýrna í takt við vaxandi útgjöld þjóðanna til heilbrigðis og tryggingamála sem vaxa mun hraðar en þjóðartekjur. Þessi jafna mun leita jafnvægis með skerðingum og verðfellingu myntarinnar. Þetta ferli tekur hins vegar langan tíma og verður brokkgengt.

Sú mynt sem til næstu framtíðar er án efa verðmætust og líklegust til að eflast mjög á kostnað hinna tveggja stóru er kínverska RMB. Kínverjar hafa til nokkuð margra ára verið að byggja upp nútímaborgir af gríðarlegum myndarskap. Geysistórt vegakerfi með hraðbrautum og vegstyttingum hefur verið byggt nánast frá grunni, það eykur verulega  framleiðni og auðveldar flutninga á verðmætum og vinnuafli á sama tíma og uppbygging á járnbrautum hefur líka verið stórbrotin. Samgöngur í lofti eru orðnar mjög greiðar og óvíða eru fleiri nýjar þotur af bestu gerð að sinna almennu farþegarflugi. Allt þetta hafa Kínverjar getað gert á sama tíma og þeir hafa safnað upp mesta gjaldeyrisvarasjóði sögunnar. Peningaráð Kínverja eru margföld á við olíuríkin eða þau önnur fáu lönd sem eru lánveitendur heimsins til skuldugra þjóða. Þessi mikli varasjóður er síðan sjálfbær vegna allra þeirra vaxtatekna sem hann myndar, þeir vextir eru útflutningstekjur þeirra þjóða sem fá lánin. Þannig deila þær þjóðir sínum tekjum með þeirri þjóð sem mestum afgangi allra skilar af vöruskiptum. Þetta er draumastaða fyrir Kínverja og er árangur áratuga erfiðis og skipulagðrar atvinnustefnu.

Aftur hingað heim. Ef við íslendingar ætlum okkur að halda áfram að bæta lífskjörin eins og við höfum gert af svo miklum þrótti síðustu 60 árin er aðein ein leið til þess og hún er sú að framleiða okkur út úr vandanum og flytja hann út í formi vöru og þjónustu. Vegna þess mikla afgangs sem við njótum af vöruskiptum  nú þá hefur kreppan ekki orðið verri en raun ber vitni, vandinn er hins vegar sá að við skuldum of mikið af erlendum lánum og það sogar útflutningstekjur okkar út úr hagkerfinu og í önnur hagkerfi. Þessu þarf að snúa við sem allra fyrst og aftur er lausnin einföld, við þurfum að framleiða meira af vörum og þjónustu til að flytja út í skiptum fyrir erlendar myntir sem við verðum að nota til uppgreiðslu lána en ekki til að framkvæma innanlands.

Það vantar matreiðslumeistarann

Hinn aldni meistari Warren Buffett var spurður að því fyrir fáum dögum hvernig stæði á því að hann væri ekki þátttakandi í kaupum og sölum á hrávörum eins og olíu, korni, bómull og málmum. Hann var ekki lengi til svars og sagði að bragði að ástæðan væri sú að hann vissi ekkert hvert verðmæti hennar væri og hvert það yrði síðar, síðan tók hann dæmi sem er minnisstætt:

„ Ef öllu gulli heimsins væri safnað saman á einn stað þá myndar það stafla sem er ca. 23 mt hvern kant . Allt þetta gull er að verðmæti 7 trillion usd í dag eða u.þ.b. hálf þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna. Fyrir sömu upphæð væri hægt að kaupa þriðjung af öllum fyrirtækjum í Bandaríkjunum eða allt ræktanlegt land frá New York til Los Angeles. Þótt að það geti verið gaman að eiga svo stóra skínandi fallega hrúgu af málmi þá mundi ég velja annað hvort fyrirtækin eða ræktunarlandið. Ástæður er tvær, gull framleiðir engin verðmæti og hin ástæðan er sú að eina ástæðan fyrir því að einhver myndi vilja borga meira fyrir gull á morgun en greitt var í gær er hræðsla.“

Umræðan á íslandi er um of drifin áfram af hræðslu, hræðslan um að við séum ekki nógu gáfuð eða úrræðagóð til að skapa góð lífskjör, við séum vanmáttug gegn afli alþjóðaviðskipta og á endanum fari allt til fjandans. Að mínu mati þá er þessi ótti ekki ástæðulaus en hann er ekki byggður á góðum líkum.

Ég tel líka vafasamt að lausn á okkar vanda felist í því að nota annara manna fé í stað þess að framleiða okkar eigið eða eins og segir í máltækinu „ you can´t borrow your way out of debt“.

Það stendur einhvers staðar skrifað að þú gerir ekki góðan mat nema úr góðu hráefni og það gildir það sama í efnahagsmálum. Án verðmætasköpunar verður ekkert byggt upp og lífskjör versna, í samanburði við marga þá stöndum við enn mjög vel og í flestu þá erum við með frábært hráefni en það vantar alveg matreiðslumeistarann.


 

Athugasemdir

27.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst