Ísland stendur á bjargbrúninni

Ísland stendur á bjargbrúninni Geðveiki: Að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við mismunandi niðurstöðu - Albert Einstein Síðasta

Fréttir

Ísland stendur á bjargbrúninni

Alex Jurshevski
Alex Jurshevski

Geðveiki: Að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við mismunandi niðurstöðu

- Albert Einstein

Síðasta þriðjudagsmorgun lækkaði matsfyrirtækið Moody’s lánshæfismat Portúgals um tvö flokka, niður í A1 (sem er nokkrum flokkum ofar en Ísland).

Lækkun lánshæfismatsins varð til þess að fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna ræddu af enn meiri alvöru en áður, hvernig færi með aðgengi ríkja innan Evrópusambandsins að lausafé og eigur bankanna ef ríki innan sambandsins yrði gjaldþrota.

Ef Evrópusambandið hefur áhyggjur af því að Portúgal geti ekki staðið við skuldbindingar sínar með A1 lánshæfismat, hvernig ætli viðhorfið sé gagnvart nýlegri þróun á Íslandi sem er með Baa3 í lánshæfismat?

Þessi þróun á lánshæfismati hefur sérstaklega mikla þýðingu fyrir Ísland í ljósi nýfallins dóms Hæstaréttar um ólögmæti þess að tengja lán sem veitt eru í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.   Í kjölfar dómsins gáfu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands út tilmæli um að miða skyldi við lægstu vexti Seðlabankans við útreikning á lánunum. Tilmælin leiddu til mikillar reiði meðal almennings en mótmælin fyrir framan Seðlabankann eru hins vegar það síðasta sem ríkisstjórnin þarf að hafa áhyggjur í þessu sambandi.

Raunveruleikinn er sá að dómur Hæstaréttar varpaði eingöngu ljósi á einkenni vandans en ekki vandann sjálfan.  Sú staðreynd að litlar líkur voru á því að gengistryggð lán stæðust skoðun dómstóla ætti ekki að hafa komið neinum á óvart. Raunar vakti ég máls á því síðast í janúar á þessu ári.  Fjármálaeftirlitið hafði ennfremur falið lögfræðingum að skoða lögmæti gengistryggðra lána fyrir þann tíma.  Áhættan og afleiðingar þess að lánin yrðu dæmd ólögmæt hefðu því átt að vera ofarlega í hugum ráðherra ríkisstjórnarinnar.  Engu að síður voru nokkrir ráðherrar að krefjast þess að gjaldeyrishöft yrðu afnumin fyrir ekki svo löngu síðan. Ráðherrarnir virðast alls ekki hafa gert sér grein fyrir því að ef gjaldeyrishöftin hefðu ekki verið til staðar þegar dómur Hæstarréttar var felldur hefði það verið koss dauðans fyrir íslenska ríkið.

Ljóst er að ríkisstjórnin hefur ekki tekið neitt af þessu með í reikninginn við stjórnun skuldavandans. Vegna þessa stendur ríkisstjórnin nú frammi fyrir ófyrirséðum útgjöldum sem nema í kringum 20-25% af vergri landsframleiðslu sem verður að fjármagna, en það sem meira er, áætluninni, sem ríkisstjórnin hefur unnið að í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, er nú teflt í tvísýnu.

Það sem hefur hins vegar úrslitaþýðingu er að dómurinn sýnir svo ekki verður um villst að aðalvandamálið er,að ríkisstjórnin hefur ekki markað sér neina almenna stefnu um stjórn skuldavandans.  Afleiðingin er sú að efnahagslífið heldur áfram að blæða út fjármagni.   Enginn í ríkisstjórninni eða í Seðlabankanum sér eða skilur heildarmyndina þannig að það er ekki spurning um hvort heldur hvenær efnahagslífinu blæðir út.

Fyrir utan það sem að ofan greinir þá hefur þessi staða varpað ljósi á þrjá aðra þætti sem ástæða er til að hafa áhyggjur af:

  •      Þar sem ríkisstjórnin hefur ekki almenna áætlun um hvernig hún ætlar sér að koma landinu úr þessarri skuldakreppu þá er hún enn í viðbragðsstöðu.  Sú staðreynd dregur umtalsvert úr líkunum á því að Ísland komist úr þessarri erfiðu stöðu án þess að eitthvað verra gerist eða atburðir endurtaki sig áður en einhver áttar sig á því hvað þarf nauðsynlega að gera.
  •      Ríkisstjórnin hefur vanmetið í áætlunum sínum kostnaðinn af hruninu og yfirtöku ríkisins á bönkunum um milljarða. Þetta hefur áhrif á hvernig ríkisstjórninni tekst til við að byggja upp efnahags- og fjármálalífið á öðrum vígstöðvum s.s. í viðræðum um Icesave, aðildarviðræður að ESB, skatta og fjárlög og samskipti við fjárfesta;
  •      Sú ofurtrú sem ríkisstjórnin hefur á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við að koma landinu úr þessarri klemmu er misráðin. Það er ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að finna eða útfæra lausnir fyrir Ísland. Sjóðurinn mun ekki taka á sig neina sök eða axla neina ábyrgð á því hvernig fer enda ættu þeir ekki að gera það. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er alþjóðleg lánastofnun með lánasamning í höndunum.  Það er ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að dekra við aðildarríkin. Það er hlutverk og á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að leita til hæfra ráðgjafa sem hafa reynslu af því að leysa skuldavanda af þessu tagi og af því að framkvæma gagnsæja og varanlega áætlun um stjórn vandans. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki séð neina þörf á því.

Aðalatriðið er þetta: að halda áfram á sömu braut er ákaflega áhættusamt.  Þegar ég fór fyrir tvær þingnefndir (fjárlaganefnd og efnahags-og skattanefnd) í mars á þessu ári þá varaði ég þær við því, að án yfirgripsmikillar áætlunar um stjórnun skuldavandans og í ljósi þess hve umfangsmikill vandinn er og og að sérfræðinga skorti á þessu sviði til þess að innleiða og framkvæma slíka áætlun, væri óhjákvæmilegt að fjölmörg stórslys, af sama tagi og nýgenginn dómur Hæstaréttar er,  myndu eiga sér stað

Með þessarri greiningu er hægt að finna að minnsta kosti tvö önnur svarthol sem ekki er ólíklegt að ríkisstjórnin sogist inn í ef hún heldur áfram á sömu braut.  Þær munu leiða til þess að íslenska ríkið verður gjaldþrota. Við vöktum athygli á áhættunni af gengistryggðu lánunum fyrir sex mánuðum og við vöruðum marga þingmenn við öðrum áhættustýringarmálum fyrir fjórum mánuðum.

Dómar um gengistryggðu lánin hafa fallið með tilheyrandi afleiðingum og enn er eftir að huga að öðrum þáttum sem við höfum vakið athygli á. 

Þessi orð eru ekki hugsuð sem áfellisdómur yfir öllum þeim innan stjórnkerfisins sem augljóslega eru að reyna í fullri einlægni að gera sitt besta við að hafa stjórn á skuldavandanum. Það eru margir velmeinandi stjórnmálamenn á Íslandi sem og embættismenn, sérfræðingar og álitsgjafar sem vilja svo sannarlega finna lausn á vandanum og marga þeirra höfum við þegar hitt. Staðreyndin er sú að Ísland hefur enga reynslu af því að eiga við skuldavanda af þessarri stærðargráðu einfaldlega vegna þess að Ísland hefur aldrei staðið frammi fyrir þessum vanda áður. Og til þess að gæta fyllstu sanngirni, hvernig eiga einstaklingar innan stjórnsýslunnar sem bera nú ábyrgð (eða báru áður ábyrgð á) að leysa úr þessum vanda að vita hvar hætturnar leynast og hvar tækifærin liggja við þessar aðstæður ef þetta er í fyrsta skipti sem þeir og í reynd landið allt, glímir við vanda af þessarri stærðargráðu?

Báturinn er að sökkva.  Þeir sem skilja það og er ekki sama verða að láta í sér heyra.  Eins og við sögðum ríkisstjórninni fyrir nokkrum mánuðum þá er ekki mikill tími til stefnu til þess að snúa þróuninni við.

   

Athugasemdir

02.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst