90 ár liðin frá snjóflóðunum miklu

90 ár liðin frá snjóflóðunum miklu Þann 12. apríl 1919 varð eitt mesta slys í sögu Siglufjarðar þegar fjöldi snjóflóða urðu 18 manns að bana í

Fréttir

90 ár liðin frá snjóflóðunum miklu

Skiltið í rústum Evangers
Skiltið í rústum Evangers
Þann 12. apríl 1919 varð eitt mesta slys í sögu Siglufjarðar þegar fjöldi snjóflóða urðu 18 manns að bana í Hvanneyrarhreppi og eyddi fyrstu stóru fiskimjölsverksmiðju á Íslandi ásamt fjölda annarra mannvirkja.

Sjö heimilismenn létust á bænum Engidal vestan Siglufjarðar og tveir menn í snjóflóðum í Héðinsfirði. Níu fórust í gríðarlega miklu snjóflóði í austanverðum Siglufirði, fimm þeirra bjuggu í húsum Evangersbræðra og fjórir í tómthúsinu Sæbóli. Heimilisfólkinu í Neðri Skútu var naumlega bjargað.

Jón Jóhannesson fræðimaður skrifaði ritgerð um atburðinn sem birtist í þjóðsagnasafninu Grímu og einnig í bókinni Siglufjörður 1818-1918-1988.

Til minningar um þessa ægilegu atburði hafa minningarsteinar verið reistir þar sem Engidalsbærinn stóð og Síldarminjasafn Íslands stóð að lagfæringum á rústastað Evangersverksmiðjanna árin 2006-2007 og setti þar upp skilti með myndum og texta. Áður hafði Kiwanisklúbburinn Skjöldur sett upp minningarskjöld þar 1989.

Eftirfarandi texti er á skilti Síldarminjasafnsins:

Árið 1907 hafði mjög sneyðst um það land sem nothæft var fyrir umsvifamikla útgerð og síldarsöltun Norðmanna á Siglufirði. Hvanneyrin var orðin þéttsetin og nokkuð farið að nýta sjávarlóðir í landi Hafnar, sunnan eyrarinnar. Gustav og Olav Evanger frá Eggesbönes á Sunnmæri fengu það sumar lóð í landi Staðarhóls, hér austan fjarðar. Strax var hafin bygging síldarstöðvar með fiskihúsi og bryggju og Herlö, gufuskip þeirra, landaði þar síld til söltunar. Það blés byrlega fyrir hinum framkvæmdasömu bræðrum og hafinn var undirbúningur að byggingu stórrar og fullkominnar síldarverksmiðju.

Með samningi við fyrirtækin H. F. Hartner og Thomas Morgan & Sohn í Hamborg var stofnað hlutafélagið a/s Siglufjord Olje & Guanofabrik og annaðist það rekstur hinnar glæsilegu síldarverksmiðju sem tók til starfa í ágúst 1911 - einnar þeirrar fyrstu á landinu.

Verksmiðjuhúsið var byggt úr timbri, þrílyft á steyptum grunni, 50 álnir á lengd (31,4 metrar) og 20 á breidd (12,5 metrar). Á jarðhæð var 140 hestafla vél knúin gufuafli. Gufan var leidd í járnrörum frá kolakyntum gufukatli. Reim frá gufuvélinni lá upp á næstu hæð og sneri þar löngum öxli. Á öxlinum voru margar og misstórar reimskífur og þaðan lágu reimar upp og niður og sneru pressum, kvörnum, færiböndum og margs konar öðrum vélbúnaði. Allt var upplýst með rafmagni frá gufutúrbínu.

Fyrir framan þetta stórhýsi, í fjörunni, var mikil steinsteypt síldarþró. Úr henni var síldin flutt með færibandi í sex suðukör á efstu hæð. Milli 80 og 100 manns unnu við verksmiðjuna og var afkastagetan um 500 mál síldar,  eða 60 lýsisámur og 100 mjölsekkir á sólarhring. Forstjóri verksmiðjunnar var Gústav Evanger.

Ofurlítið þorp reis smám saman á staðnum. Þótti Siglfirðingum það tilkomumikið á síðkvöldum að sjá ljósadýrðina þar speglast í lognkyrrum sjávarfletinum og gufumökkinn frá síldarbræðslunni hverfa út í rökkrið.

Þann 12. apríl 1919 féll gríðarlegt snjóflóð af brúnum Staðarhólshnjúkanna nærri 1000 metrar á breidd og gjöreyddi mannvirkjum Evangersbræðra, húsum og bryggjum. Níu manns biðu bana í snjóflóðinu.

Þótt slysið væri Evangersbræðrum mikið áfall byggðu þeir aftur upp á Staðarhólsbökkum 1922 og ráku þar umtalsverða síldarsöltun í nokkur ár áður en umsvifum þeirra á Íslandi lauk endanlega. - ök

 


Athugasemdir

24.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst