Aðför að tjáningarfrelsinu

Aðför að tjáningarfrelsinu Valgeir T Sigurðsson sendi siglo.is opið bréf til Bæjarstjórnar Fjallabyggðar með yfirskriftinni "Aðför að tjáningarfrelsinu"

Fréttir

Aðför að tjáningarfrelsinu

Valgeir T Sigurðsson ( af facebook síðu )
Valgeir T Sigurðsson ( af facebook síðu )

Valgeir T Sigurðsson sendi siglo.is opið bréf til Bæjarstjórnar Fjallabyggðar með yfirskriftinni "Aðför að tjáningarfrelsinu".  Bréf Valgeirs kemur hér:


Aðför að tjáningarfrelsinu


Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins og grundvöllur fyrir því að frjáls umræða og opinber skoðanaskipti fái þrifist og þá ekki síst um mikilvæg málefni samfélagsins og stjórnmálamanna. Það kom því verulega á óvart að á Íslandi skyldi vera til sveitarstjórn sem sendi frá sér einróma eftirfarandi ályktun, í lok árs 2012:

"Bæjarstjórn Fjallabyggðar lýsir vanþóknun sinni á ósmekklegri notkun Valgeirs T. Sigurðssonar, á mynd af ráðherra í Ríkisstjórn Íslands á fána sem hann hefur dregið að húni við Aðalgötuna á Siglufirði."

Það, að bæjarstjórn Fjallabyggðar lýsi einróma yfir vanþóknun á því að bæjarbúi nýti lögmætan rétt sinn til þess að tjá skoðun sína á einum umdeildasta stjórnmálamanni landsins, hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir almenning í Ólafsfirði og Siglufirði.

Ég hef ekki orðið var við annað í samtölum mínum við Siglfirðinga, en að það sé almenn ánægja með flaggið og sömuleiðis hafa viðbrögðin verið jákvæð á netinu. Viðhorf bæjarstjórnarinnar, sem birtust skyndilega í fundargerð Fjallabyggðar, komu því verulega á óvart.  Enginn bæjarstjórnarmaður hafði komið að máli við mig og lýst skoðun sinni eða óskað eftir að flaggið yrði fjarlægt. Enginn bæjarstjórnarmaður eða starfsmaður Fjallabyggðar hafði óskað eftir viðhorfum mínum til málsins eða þá að mér væri gefinn kostur á að tjá mig um meiðandi ályktun bæjarstjórnar um skoðanir mínar.

Ég hef nýtt mér tjáningarfrelsið með því að segja óhikað skoðun mína á mönnum og málefnum í gegnum tíðina og mun halda því áfram, þrátt fyrir frumhlaup bæjarstjórnar Fjallabyggðar, sem verður vart flokkað sem annað en aðför að tjáningarfrelsinu.

Ályktun bæjarstjórnarinnar á ekki heima á 21. öldinni, en hægt hefði verið að skilja hjarðhegðun bæjarstjórnarinnar ef fundurinn hefði verið haldinn fyrir daga prentfrelsins.

Framundan er kosningabarátta þar sem venjan er að menn reki áróður fyrir sér og sínum sjónarmiðum og jafnvel gegn öðrum. Ef bæjarstjórnin ætlar að halda áfram á vafasamri braut, má ætla að næsta verk verði að merkja auglýsingar og skoðanir sem eru bæjarstjórninni þóknanlegar.

Það væri miklu frekar í verkahring lýðræðiskjörinna fulltrúa almennings að standa vörð um réttindi borgaransna í stað þess að grafa undan þeim.


Athugasemdir

26.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst