1.500 milljónir í samfélagssjóði ?
Á undanförnum fimm árum hefur þjóðin þurft að fylgjast með flóknum málum í kjölfar hrunsins 2008. Eitt af því flóknara hefur verið að skilja stöðu heimila og fyrirtækja. Þannig hafa dómstólar þurft að úrskurða um lögmæti erlendra lána og nú íhuga stjórnmálamenn hvort að leiðrétta eigi verðtryggð lán vegna forsendubrest.
Afl Sparisjóður er lítill sparisjóður með starfsemi á Siglufirði og Sauðárkróki.
Í grunninn er sparisjóðurinn elsta peningastofnun landsins sem fagnaði 140 ára afmæli sínu á þessu ári. Stofnsamningar
sparisjóðsins eru byggðir á gömlum gildum um sparnað almennings til velferðar í byggðarlögunum. Þannig má enginn einn aðili
hafa meira en 5% atkvæðavægi og hagnað sem upp safnast er ekki hægt að borga út í arðgreiðslum en óráðstafað eigið
fé skal fara í samfélagssjóð ef sparisjóðnum er slitið.
Þannig háttar til í Afli Sparisjóði að á skuldahliðinni eru stór erlend lán sem tekin voru fyrir hrunið 2008. Hve há
þessi skuld er skiptir öllu máli um stöðu sparisjóðsins.
Í dag eru þessi lán öll í eigu meirihluta eiganda stofnfjár Afls, þ.e. Arion banka.
Fyrir liggur lögfræðiálit um að þessi erlendu lán eru ólögleg útfrá dómum sem fallið hafa um sambærileg
lán.Þannig hefur Seðlabankinn nýlega leiðrétt erlend lán Sparisjóðs Vestmannaeyja um 330 millj. Til að fá fullvissu um
stöðu þessara erlendu lána þá er nauðsynlegt að fá úrskurð dómstóla um lögmæti þeirra.
Ef erlend lán Afls reynast ólögleg myndast umtalsvert óráðstafað eigið fé í sparisjóðnum. Upphæð sú
gæti verið allt að einn og hálfur milljarður. Við sameiningu eða slit sparisjóðsins ætti þessi upphæð að fara í
samfélagssjóði á Siglufirði og Sauðárkróki. Það þarf ekkert að útskýra frekar hvaða þýðingu
slík upphæð hefði að segja fyrir lítil samfélög.
Ef Afli sparisjóði yrði ekki slitið eða hann sameinaður þá yrði þessi litla fjármálastofnun langsterkasti sparisjóður
landsins og gæti verið undirstaðan í endurreisn sparisjóðakerfisins á Íslandi.
Að framansögðu má sjá að það er með öllu óviðunandi að Arion banki nýti sér styrk sinn til að þvinga Afl
sparisjóð til sameiningar meðan svo stór mál eru óútkljáð. Það er ekki einkamál bankastjóra Arion banka hvernig
fyrirkomulag bankamála verður á Íslandi í nánustu framtíð. Það getur ekki verið ásættanlegt að bankastjóri
Arion banka ákvarði upp á sitt einsdæmi hvort að sparisjóðakerfið lifi eða verði lagt af og hvort að íbúar lítilla
byggða horfi eftir réttmætri eign sinni lenda í sjóðum erlendra kröfuhafa.
Athugasemdir