Beikonhátíð sunnudagaskólans

Beikonhátíð sunnudagaskólans Síðastliðinn sunnudag var alveg hreint rífandi stemmning í kirkjuskólanum hér á Siglufirði – ja, eins og reyndar alltaf. En

Fréttir

Beikonhátíð sunnudagaskólans

Síðastliðinn sunnudag var alveg hreint rífandi stemmning í kirkjuskólanum hér á Siglufirði – ja, eins og reyndar alltaf. En þann sunnudag var síðasti sunnudagaskólinn á þessum vetri.

Eitthvað var verið að vandræðast með það hvað ætti að gera skemmtilegt í tilefni þess. Einhver stórsnillingurinn stakk upp á því að hafa svokallaðann "brunch" síðasta daginn og því var svona líka ljómandi vel tekið. Í fyrravor hafði verið endað með pylsuveislu. Vonandi verður nautasteik og messuvín næst.

beikonhátíð

Ákveðið var að Hrólfur, Skarphéðinn og Hjalti myndu hjálpa þeim Sigga presti, Rut Viðars, Viðari og fermingarbörnum vetrarins að græja veisluna sem samanstóð af alveg hreint slatta af beikoni, eggjahræru, pylsum og kartöflum, amerískum pönnukökum, bökuðum baunum, ristuðu brauði, hlynsírópi, tómatsósu og svo bara nenni ég ekki að telja meira upp. Hafa þetta semsagt aðeins öðruvísi en ella.

Mæting var klukkan 09:00 og sá sem svaf minnst yfir sig var Hrólfur og mætti hann kl. 09:30, næstminnst svaf Skarphéðinn yfir sig en hann mætti kl. 10.15 og svo rak Hjalti restina með alveg arfaslakann millitíma en sá tími var 10:35. Þeim Skarphéðni og Hjalta til varnar verður að taka það fram að annar þeirra sá um að steikja kartöflurnar og pylsurnar og hinn sá um eggjahræruna og því töfðust þeir heima fyrir. En Hrólfur var líklega sá af þeim sem hugsaði virðist vera mest og græjaði það sem hann átti að græja kvöldið áður og varð þar af leiðandi minnst seinn. Það þarf ekki að taka það fram að Viðar, Rut og Siggi voru að sjálfsögðu mætt kl. 09:00 og jafnvel fyrr. Eða höfðu bara ekkert farið heim frá því síðast.

Það var söngur, sprell og já bara virkilega skemmtilegt í eldhúsinu. Þetta var bara næstum því jólastemmning. Viðar var beðinn um að hringja klukkunum í þetta skiptið ansi duglega, já eiginlega bara slá ekki neitt af, og ekki væri verra ef hann finndi hátíðlega hringingu á takkaborðinu. Rut sveif um gólfið með hnífapör og diska og Siggi prestur og Mikael dönsuðu af gleði yfir matseðli dagsins, og annað slagið heyrðist í Sigga "þetta er dásamleg stund, megi þær verða fleiri svona" og ég beið alltaf eftir að heyra á eftir " halli-lú-ja og amen" en það kom ekki. Svo sungu þeir Skarphéðinn og Hjalti "Snert hörpu mína" eins og sannir karlakórsmenn, enda báðir með eindæmum lagvissir og tónelskir. Hrólfur tónaði svo undir með þeim eins og væri hann biskup. Á tímabili hélt ég að gáttir himins væru að opnast, þvílík var gleðin, og eitt augnablik heyrðist ég heyra englasöng. Og kl. 11:20 byrjaði veislan og held ég að það sé óhætt að segja það að allir hafi verið ljómandi glaðir með þetta, alls 70-80 manns á öllum aldri.

Erla Björnsdóttir og Gauti komu alla leið frá Akureyri og Gauti var duglegur að koma inn í eldhús og hreinlega grátbað um að fá að fara með beikonið fram. Sem við auðvitað lofuðum honum að gera.

Ég held að ég geti talað fyrir munn allra foreldra og forráðamanna barnanna sem mæta í sunnudagaskólann hér í bæ þegar ég segi að hér er vel á málum haldið og mig langar að koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra Sigga, Rutar og Viðars fyrir að leggja þennan metnað og vinnu í fjölskyldustundirnar á sunnudögum yfir vetrartímann og það í eina og hálfa klukkustund í senn. Hvort sem það eru ávextir, grænmeti, vöfflur, pönnukökur, súkkulaðikex, popp eða beikon með kaffinu þá er þetta eiginlega bara alveg virkilega góð morgunstund þar sem málin eru rædd í gamni og alvöru. Reyndar mætti alveg sleppa ávöxtunum og grænmetinu mín vegna en það er alveg allt annað mál og börnunum finnst þetta alveg afbragðsgott.

Söngurinn og sögurnar hjá Sigga fyrir kaffistundina eru líka sérstaklega skemmtilegar, þó sérstaklega þegar hann er með léreftssöguspjaldið og myndirnar til að hengja á það.

Siggi var eitt sinn að sýna börnunum himin, jörð, sól, tré, dýr og einhvern helling í viðbót á spjaldinu góða – sem var aðeins of mikið reist – og var búinn að koma því haganlega fyrir en svo allt í einu hrundi veröldin beint á gólfið þannig að spjaldið var autt, bláleitt og börnin horfðu á Sigga vægast sagt hissa. Það var því ekkert annað í stöðunni fyrir klerkinn en að redda málum með því að segja: "Og svona krakkar var þetta í upphafi, áður en Guð skapaði allt sem liggur núna hérna á gólfinu". En þetta var nú bara svona útúrdúr um léreftsöguspjaldið.

Alla vega segjum við takk fyrir okkur og takk fyrir veturinn. Við hittumst örugglega aftur í september og tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þá verður líklega svokölluð "vöfflumessa" en þá smella þau Siggi, Rut og Viðar í vöfflur með kaffinu.

Viðar og Rut voru svo mikið á fartinu að það hreinlega náðist ekki að ná þeim á mynd.

Svo er einhver slatti af myndum hér fyrir neðan.

kirkjuskóliHér er Hjalti að byrja að syngja "Snert hörpu mína" .

beikonkirkjaOg Skarphéðinn hummaði með.

beikonhátíðOg þessi tónaði annað slagið undir.

beikonkirkjaHér er verið að telja beikonið áður en Siggi fékk að fara með þennan skammtinn fram á borð.

beikonkirkjaKartöflur og pylsur "a-la-Skarphéðinn"

beikonkirkjaÞessi byrjar bara stundum að hlæja upp úr þurru og enginn veit hvers vegna..... skrítið.

beikonhátíðÞvílík gleði sem skín út úr þessu andliti. Gauti kom með alla fjölskylduna frá Akureyri í brunch í kirkjunni.

beikonhátíðKonur og börn ruddust að sjálfsögðu fyrst að borðinu. Þess má geta að hún Steinunn María (í blárri peysu á miðri mynd) kláraði líklega cirka eina flösku af hlynsírópi með amerísku pönnukökunum. Vildi bara svona deila því með ykkur.

beikonhátíðJá, jaa konur börn og Gauti ruddust fyrst að borðinu.

beikonhátíðAlgjör veisla.

beikonhátíð

Og hér eru svo fleiri myndir.


Athugasemdir

20.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst