Bjarni Þorsteinsson, eldhugi við ysta haf - fjögurra og hálfrar stjörnu bók.

Bjarni Þorsteinsson, eldhugi við ysta haf - fjögurra og hálfrar stjörnu bók. Þáttaskil urðu í lífi séra Bjarna Þorsteinssonar 14. desember fyrir 126 árum

Fréttir

Bjarni Þorsteinsson, eldhugi við ysta haf - fjögurra og hálfrar stjörnu bók.

Bjarni Þorsteinsson
Bjarni Þorsteinsson
Þáttaskil urðu í lífi séra Bjarna Þorsteinssonar 14. desember fyrir 126 árum þegar hann „í fyrsta sinni fann inndælu himnesku varirnar … í brennheitum löngum kossi“ og „í fyrsta sinni – „loksins“ – vissi hvað Kjærlighed var,“ eins og hann lýsti þessari töfrastund síðar. 14. desember er afmælisdagur fyrsta kossins þeirra Bjarna og  sýslumannsdótturinnar Sigríðar Lárusdóttur Blöndal.

Seinna varð hún eiginkona hans eftir að þau höfðu setið í festum í sex ár, hún lengst af í Vatnsdal og hann á Siglufirði. Þau héldu lengi sambandi sínu leyndu og vinkona Sigríðar í Reykjavík hafði milligöngu um að koma bréfum milli þeirra.

Samgöngurnar voru með þeim hætti á þeim tíma að það gat tekið 99 daga að fá svarbréf! Innileg og ævilöng ást þessara merku hjóna er á meðal áhrifaríkustu þáttanna í vandaðri og vel skrifaðri bók Viðars Hreinssonar um ævi Bjarna Þorsteinsonar. Bjarni var prestur á Siglufirði í tæp 47 ár og helsti forystumaður bæjarins þegar síldarævintýrið hófst. Íbúafjöldinn þrefaldaðist á 30 árum og Siglfirðingar kölluðu Bjarna höfund Siglufjarðar. Hann er þó þekktastur fyrir að bjarga stórum hluta þjóðlagaarfs Íslendinga frá glötun með margra ára þjóðlagasöfnun sinni, auk þess sem hann var þjóðkunnur lagahöfundur og eitt fyrsta tónskáld þjóðarinnar til að birta lög sín á prenti.

Viðar lýsir mjög vel stórbrotnu lífshlaupi Bjarna, háleitum hugsjónum, stórvirkjum á sviði tónlistarinnar og atorku hans í sveitarstjórnarmálunum. Hann dregur þó ekki upp neina helgimynd af séra Bjarna því í bókinni er einnig fjallað um veikleika þessa mikilhæfa manns. Ályktanirnar sem höfundur bókarinnar dregur eru vel ígrundaðar og sannferðugar.

Kostir og gallar Bjarna tvinnuðust saman. Í bókinni kemur fram að séra Bjarni afneitaði nánast uppruna sínum og foreldrum eftir að hann fór að heiman, kalinn á hjarta eftir örbirgð, strit og harðneskju föðurgarði. Bjarni virðist hafa haft mikla þörf fyrir viðurkenningu og Viðar telur að sú þörf kunni að hafa verið sterkari vegna þess harðræðis sem hann bjó við í æsku.

„Metnaður hans var mikill þar sem hann beitti sér, kannski vegna fátæktar og óblíðs atlætis í æsku og af þörf fyrir viðurkenningu,“ skrifar Viðar. Bjarni sýndi mikla þrautseigju í þjóðlagasöfnuninni og þurfti að glíma við gamla og heimaríka smákónga á tónlistarsviðinu. Þeir lögðu eftir mætti steina í götu hans, að því er virðist vegna mikils rígs meðal tónlistarmanna. Bjarni varð sjálfur heimaríkur í hreppsnefnd Siglufjarðar og þoldi illa gagnrýni. „Hann virðist hafa verið orðinn eins konar einvaldur sem lét sér nægja að tilkynna bara á fundum hvað gera þyrfti,“ skrifar Viðar.

„Hann hafði í æsku brotist undan miskunnarlausu föðurveldi og stefnt til samfélagslegra metorða og valda.“ Sigríður var einnig merkiskona, sennilega enn hæfileikaríkari í tónlistinni en séra Bjarni. Hún hafði afburðafagra söngrödd og lék listavel á gítar. Ást Sigríðar bræddi klakaskelina sem Bjarni hafði brynjað sig. Metnaður Bjarni Þorsteinsson
prestur og þjóðlagasafnari. Stórbrotnu lífshlaupi vel lýst.

Morgunblaðið: Bogi Þór Arason


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst