Bragðlauka-Tangó á Siglunes Guesthouse

Bragðlauka-Tangó á Siglunes Guesthouse Nú þar sem við, ég og vinur minn Vilmundur Ægir höfum það orð á okkur (allavega hann) að vera freka miklir matmenn

Fréttir

Bragðlauka-Tangó á Siglunes Guesthouse

Örstutt matar-saga frá Sigló.

Nú þar sem við, ég og vinur minn Vilmundur Ægir höfum það orð á okkur (allavega hann) að vera freka miklir matmenn báðir 2, þó sérstaklega hann Ægir, hann meira að segja fórnaði því að eignast konu og geta með henni börn svo hann gæti helgað sig og einbeitt sér alveg 150% af allslags matargerð og smökkun þá gátum við nú ekki látið Matar-Happaþrennu úr hendi sleppa þegar okkur ásamt henni Ólöfu minni og stúlkunum okkar bauðst að fara út að borða á Siglunesi Guesthouse. 

 Ég segi Matar-Happaþrenna vegna þess að að sjálfsögðu fengum við okkur þríréttað, sem er jú algjört lágmark þegar við í "Matar-Tanka" fjélaginu bregðum undir okkur miklu betri fætinum og fáum okkur "lauflétt" í  gogginn. 
Þetta byrjaði dásamlega því ein af fegurri fljóðum fjarðarins hún Heiða Jonna tók skælbrosandi á móti okkur og tilkynnti okkur það að það hefði þurft að fækka borðapöntunum um helming þegar þau fréttu af ferðum okkar. Sem jú var dásamlegt að heyra. Við fengjum þá enn meiri athygli en svo allt og oft áður þegar við förum eina "Tanka" ferð.

 Við fáum svo matseðilinn og Ólöf mín pantaði eitthvað grænmeti og fisk fyrir sig og stúlkurnar en við Ægir fengum okkur dásamlega góðan smokkfisk og rækjur í forrétt. Uuuuuummmmmm þvílíkur unaður. Ég spurði þjóninn hvernig þetta smokkfisk dæmi væri borið fram á ensku og hún var fljót að svara "Ja ég býst við því að það sé töluvert öðruvísi en þú mundir bera það fram og orðið sem þú ert að hugsa".  Sem er alveg rétt. Ég hefði sagt "Yes, let mí hef þhe "condom fish" viþþ þhe shrimps plííís". En það er víst Clam eða eitthvað í þá áttina. Við Ægir fáum diskana okkar með smokkfisknum og það eina sem heyrðist í þeirri atrennu frá honum Ægi vini mínum var "Jeee dúdda mía…dásamlegt" eftir hvern einasta bita.

siglunesÆgir með forrétinn. Clams.

Reyndar fengum við svokallaðan for-forrétt, en það var alveg hreint dásamlegt Marokóskt brauð með osti. Alveg hreint dásamlegur for-forréttur. Það var virkilega gaman að fá svona for-forrétt og ættu fleiri veitingastaðir að taka þetta upp hjá sér hið snarasta. 

siglunesFor-forrétturinn var alveg dásamlegur.
 
Nú þegar við erum búnir að gúffa þessu í okkur eins og frystitogarsjómenn (semsagt gúffað í sig í einum grænum, og hlaupið út á dekk, nema vélstjórarnir, þeir taka sér nógan tíma, þeir eru jú bara niður í vél að bíða eftir því að eitthvað bili), biðum við ögn eftir því að Ólöf og stúlkurnar kláruðu grænmetisforréttinn. Við fengum reyndar að smakka þetta hjá henni Ólöfu minni og viti menn, grænmetið var meira að segja alveg geggjað…..hvað er það eiginlega?? 

siglunesGrænmetis forrétturinn góði. 

Svo fáum við Marókkóska lambið og jesús minn maður minn. Ég var á tímabili að spá í að skipta um trúfélag þetta var svo gott. Hægeldað lambakjöt með apríkósum og ýmsum öðrum ansi hreint framandi hráefnum. Ég verð víst að viðurkenna það að ég er ekkert allt of hrifin af apríkósum, gráfíkjum, döðlum og svoleiðis stöffi en þetta apríkósudæmi með lambakjötinu er vægast sagt alveg geggjað. Við Ægir horfðumst í augu, annað slagið og orð voru óþörf. Í eitt skiptið sem ég leit örsnökkt á vin minn hann Ægir, vottaði fyrir tári á hvarmi og mér fannst eins og hann hvíslaði "þetta er bara svo falleg stund"…. Ég viðurkenni það á því tímabili var ég orðin töluvert smeikur um að ég væri að missa hann Ægir yfir á eitthvað annað tilverustig þannig að ég byrjaði að syngja fyrir hann í rólegheitunum eftir matinn og fyrir valinu var partur úr laginu "Englarnir eru víst ei". Og hann tók undir og textinn er einhvernvegin svona:
 " Dásamlegur dagur rann, er ég drauminn eina fann,
   í huga mínum þakka má, að hafa þiiiiiiig mér hjá!!,
   Englarnir eru víst ei, bara, bara á HIMNINUM".
  Hann kom svo til baka úr mókinu eftir sönginn og allt varð á eðlilegri nótunum aftur. Ja allavega eins eðlilegt og getur talist þegar við tveir förum út að borða.  

siglunesLambakjötið, dásamlegt. 

Að sjálfsögðu fengum við að smakka fiskinn Ólafar og barnanna og var hann líka alveg ljómandi góður en nóg um fiskinn hennar Ólafar.

siglunesFisk-diskurinn hennar Ólafar minnar.
 
Í eftirrétt fengum við svo öll osta, einhverskonar kál(man ekki hvað það heitir en það var grænt) og unaðslega gott sætt graskersmauk sem var alveg ljómandi svona í restina, meira að segja kaffið var unaðslegt. Og eftir þetta allt saman þá sagði Ægir, "Þetta hljómar bara eins og mússík í mín eyru". Og hann sagði þessa setningu jafn oft og "DÁSAMLEGT!!!".  

Heiða Jonna elskuleg gekk svo um salin og spurði hvernig smakkaðist og hvort þetta hafi ekki verið vel útilátið sem allir voru sammála um að hafi verið. Reyndar spurði hún okkur Ægi ekki þessarar spurningar með "vel útilátið" en hver svosem láir henni fyrir það. Að sjá 2 Matar-Tanka sem líkjast "Jabba the hött" úr Starwars myndunum eftir svona dinner, þá kemur spurningin "vel útilátið"  líklega hvað síst upp í hugan.

En heiðurinn af öllum þessum matar-unaði á hann Jaouad. Jaouad er frá Marokkó og verður hér í sumar að elda á Siglunes Guesthouse. Já og reyndar á vertinn á Siglunes Guesthouse, hann Hálfdán Sveinsson heiðurinn af því að flytja þennan öðling hann Jaouad inn til okkar á Sigló.

siglunesHér má sjá örlítið sýnishorn af kryddinu sem hann Jaouad notar í matseldina.

Við Ægir fengum eina mynd með kappanum og líklega hefur hann verið frekar hissa að sjá tvo Matar-Tanka koma grátandi á móti sér, knúsa hann og kyssa og þakka honum fyrir upplifunina. Ef það hefði verið teppi á gólfinu þarna þá hefðum við líklega lagst á hnén í austurátt og tilbeðið hann Jaouad.  

siglunes Ægir, Jaouad og Hrólfur. Við erum í Matar-MEKKA Siglufjarðar!!

Þetta var allavega virkilega skemmtileg matarupplifun, eitthvað sem við hvorugur höfum smakkað í líkingu við áður og getum við hiklaust mælt með þessu. Og já það þarf að panta borð (Við Ægir eigum samt alltaf fast borð með sérstyrktum stólum, það tekur það engin af okkur).

5 Matar-Tankar af 5 mögulegum.


Athugasemdir

19.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst