Spjallað við burtfluttan - Kristrún Þóra Gunnlaugsdóttir

Spjallað við burtfluttan - Kristrún Þóra Gunnlaugsdóttir Við félagarnir heimsóttum Kittý Gull í fjölbýlishúsið við Arahólana þar sem hún býr og röltum

Fréttir

Spjallað við burtfluttan - Kristrún Þóra Gunnlaugsdóttir

Kittý. Ljósmyndari; BI
Kittý. Ljósmyndari; BI

Við félagarnir heimsóttum Kittý Gull í fjölbýlishúsið við Arahólana þar sem hún býr og röltum eftir ganginum í sameigninni. ”Strákar, hvað er ég eiginlega búin að koma mér út í og hvernig datt mér eiginlega í hug að segja já við ykkur?”


Við litum upp og sáum hvar hún stakk höfðinu út á milli stafs og hurðar á einni íbúðinni og talaði til okkar í alveg sérlega skondnum þykjustu feimnis og vandlætingartón. Það glaðnaði yfir okkur við hressilegar móttökurnar og við gengum til stofu.

Kittý er fædd árið 1945 í Reykjavík, árið sem stríðinu lauk og komst sjálf þannig að orði að hún hefði því fæðst með friði. Hún fluttist þriggja mánaða gömul til Siglufjarðar og er dóttir Gunnlaugs Þ. Jónssonar frá Siglufirði og Þuríðar Andrésdóttur frá Eyrarbakka.

Fjölskyldan bjó í heil 21 ár á Lækjargötunni á neðri hæðinni í afa og ömmuhúsi eða hjá foreldrum Gunnlaugs. Hún er elst þrettán systkina og heitir fullu nafni Kristrún Þóra Gunnlaugsdóttir.

Þegar horft er til baka er ljóst að Kittý hefur ekki aldeilis alltaf fetað þekktustu vegina eða gengið troðnustu slóðirnar eftir að hún lagði af stað út í lífið. Hún er mikil félagsvera í eðli sínu, haldin ævintýraþrá í ríkum mæli, flökkueðlið er greinilega í blóðinu, en hún er einnig gædd mikilli þjónustulund sem kemur svo vel fram í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Segja má að hún hafi verið aðeins 5 ára gömul þegar hún fór fyrst að heiman, en að vísu hvorki langt eða til lengri tíma. Pabbi hennar og afi fóru með hana á trillu út á Sauðanes, en Jón og Jóna voru þá vitaverðir þar og mikið vinafólk þeirra ömmu og afa. Það var gaman að vera á Sauðanesi og þar lærði hún líka að lesa. Og hún hefur ekki enn gleymt kettinum sem var á bænum. Sá var með hræðilega stórt kýli á bakinu og hún var alveg logandi hrædd við hann. Það var ekki langt að skreppa þaðan inn á Dalabæ, en hún staldraði líka við þar hjá þeim heiðurshjónum Sigga og Höllu í svolítinn tíma. – Við skulum gefa henni orðið.

 

Á leið á jólaball á Hótel Höfn. - Jói ”raf” bauð okkur alltaf á jólaball sem haldið var á vegum Rotarýfélagsins. Hér vorum við stelpurnar í splunkunýjum kjólum sem mamma hafði saumað.

Á vorin eftir að skóla lauk, fékk ég að fara til Ólafsfjarðar nokkur sumur og eignaðist góða vini þar sem alltaf hefur verið jafn gaman að rekast á æ síðan. Ég þurfti þó allaf að vera komin aftur heim til að passa yngstu systkinin áður en síldin byrjaði, þ.e.a.s. þau sem voru þá ekki orðin nógu gömul til að fara á Leikskála. En Leikskálar voru starfræktir á sumrin í Skíðaborg sunnan við bæinn. Þangað gekk gömul rúta frá torginu og þar var allt stóðið mætt kl. 9 á morgnanna en kom heim kl. 18.

Örlítill hluti Lækjargötunnar var svo alveg sérstök veröld út af fyrir sig. Í aðeins þremur húsum bjuggu á tímabili hvorki meira né minna en 36 krakkar að mig minnir, og þau héldu hópinn eins og um eina fjölskyldu væri að ræða. Þetta voru auðvitað við Gullarnir, Blöddarnir í Blöndalshúsinu og svo Gústarnir í húsinu þar sem Mikki bjó lengi.

Þetta var með ólíkindum þéttur hópur og félagslega séð svo sjálfum sér nægur. Við þurftum aldrei að leita neitt lengra eftir leikfélögum og okkur fannst það sennilega bara fráleitt að hugsa til slíks. Við þoldum heldur ekkert sérlega vel að einhverjir aðkomukrakkar kæmu inn á okkar svæði. Ég man að einu sinni kom mjög elskulegur drengur sem átti heima á Grundargötunni og vildi leika við okkur. En vegna uppruna síns passaði hann auðvitað ekkert inn í hópinn og ég lamdi hann í hausinn með kústi svo að blóðið lak úr honum.

Hann hljóp þá grátandi heim og hann er enn með ör eftir mig. Hann sýndi mér það fyrir ekki svo löngu síðan og það mun líklega aldrei hverfa frekar en minningin um þetta atvik. Þetta er líklega í eina skiptið sem ég hef gert svona nokkuð og ég vona bara að hann sé búinn að fyrirgefa mér.

Í litla húsinu sem stóð götumegin við Mörtuskjól bjó hún Begga á efri hæðinni en niðri blandaði Oddur Tóra ísmjólkina sem var notuð í Bíóísinn. Þaðan var hún svo borin í plastfötum yfir á Bíóbarinn og þótti engum neitt athugavert við það. En við krakkarnir höfðum mikinn áhuga á þessari starfsemi sem fór fram í þessu litla húsi og fengum oft að smakka á afurðinni. Það er bara alls ekki hægt að gleyma því hvað þessi ís var rosalega góður svo ég tali nú ekki um rjómaísinn sem var notaður í kúluís. - Namminamm!

Á sumrin fengum við að vera lengur úti og vorum þá gjarnan í ýmsum leikjum eins og t.d. hornabolta sem var afar vinsæll. Þá komu foreldrarnir stundum út með okkur og við áttum það þá jafnvel til að loka götunni. Það hefur svo verið talað um að halda Lækjargötumót á næsta ári, en það hefur einu sinni verið gert áður.

Fyrir 25 árum síðan vann ég á teríunni sem er á Reykjavíkurflugvelli, en þar eru enn í dag sömu rekstraraðilarnir. Það er ekki óalgengt að ef ég rek þar inn nefið sem ég geri stundum, sé sagt við mig: ”Hann bróðir þinn kom hérna aðeins við í kaffi” og er þá átt við Jóhannes Blöndal sem drekkur ennþá frítt út á mig ”systur” sína. Lækjargötutengslin eru sem sagt enn í fullu gildi þó allir séu farnir af þessum litla bletti.


Þetta er sennilega eina myndin sem til er af öllum hópnum. Aftari röð: Jón, ég, Birna, Sverrir, Anna Stína, Hjördís og Andrés. Fremri röð: Sigurjón, Elva, mamma með Óttar í fanginu, Þorfinnur, Erla og Úlfar.

Ég réði mig á planið hjá Stjána á Kambi sumarið eftir að ég fermdist. Þetta var fyrsta alvöru vinnan mín og ég upplifði þetta sumar alvöru síldarvertíð, þ.e. að þurfa að standa alveg heilan sólarhring og salta þar til allur síldarfarmurinn var kominn ofan í tunnur. Ég held að það hafi verið bæði hollt og gott að prófa að vera ”síldarkerling,” en þetta var rosalega mikil vinna.

Sumarið eftir réðum við Bettý Ingimars okkur í kaupavinnu til Vopnafjarðar aðeins 15 ára gamlar og það höfðu ekki margir trú á að við myndum endast þar. Það kom til á einhvern hátt í gegn um hana Þorfinnu í Hlíð. Við fórum með Esjunni austur og þetta var heilmikið ævintýri allt saman. Þá kom það sér líka vel að maður var alinn upp við að þurfa að vinna. Við fórum á sitt hvorn bæinn, vorum settar nánast beint upp í dráttarvélarnar og vorum alveg eldfljótar að læra á þær. Svo unnum við auðvitað öll þau úti og inniverk sem til féllu þarna í sveitinni og voru nú sum þeirra kannski hálfgerð karlmannsverk. Ég lærði auðvitað að keyra bíl þarna og keyrði alveg eins og herforingi, en það lögbrot er líklega fyrnt núna svo það er sennilega í lagi að segja frá því. En þarna var alveg  rosalega skemmtilegt að vera og við fórum líka aftur sumarið eftir. En svo vildi maður auðvitað prófa eitthvað nýtt og gera eitthvað allt annað.


Kittý söng með Kvennakór Siglufjarðar sem Silke stjórnaði. Hér er kórinn á leið til Ólafsfjarðar með varðskipinu Albert til að halda konsert.

Ég man vel eftir stóra slagnum á Hótelinu þegar löggan notaði táragasið á gestina og allt varð hreinlega vitlaust. Það var nokkru áður en ég byrjaði að vinna þar, en við fylgdumst vel með atburðarásinni. Við áttum heima þarna í næst, næsta húsi og ég hélt mig hálfa nóttina á bak við gardínurnar og gægðist út undan þeim, auðvitað alveg skíthrædd. Það var ekkert sofið þá um nóttina því þetta var algjört bíó, eða eins og einhver svakaleg hasarmynd, þrælspennandi frá upphafi til enda. Og það gekk ennþá meira á þessa nótt, því Erla systir fæddist þarna um morguninn. Þvotturinn hvarf líka af snúrunum og maður var að finna hann út um allt einhverja daga á eftir. Ég fór svo að vinna á Hótelinu hjá Palla á Höfninni, síldarævintýrið var þá ennþá í algleymingi og þarna var mikið að gerast.

Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar frá Keflavík var fastráðin á Höfninni fyrra sumarið. Sú hljómsveit var eiginlega undanfari Hljóma, en þar var Engilbert Jensen söngvari ásamt Einsa Júll sem náði einmitt í hana Diddu sína þarna. Eggert Kristinsson var trommuleikari, Þórir Baldurs spilaði á píanó, Erlingur Jónsson á bassa og Þráinn Kristinsson sílafón.

Þá var yfirleitt dansað fimm eða sex kvöld í viku minnir mig. Oft var það þannig að maður kláraði vaktina, dansaði svo til eitt eða tvö og ef maður átti svo frí daginn eftir, skellti maður sér í síldargallann og fór beinustu leið að salta síld á einhverju planinu, því það þurfti ekkert svo mikið að sofa í þá daga.

Um haustið fórum við Lára Halldórs til Keflavíkur að vinna því eftir að síldarvertíðinni lauk var eins og bærinn sofnaði. Við fengum vinnu á veitingastað og þarna var hreinlega allt að gerast. Okkur gekk vel að aðlagast samfélaginu þarna suður frá og eignuðumst fullt af vinum. Þá var farið í Krossinn allar helgar, enda var hann aðalstaðurinn. Um vorið lá svo leiðin aftur til hans Palla á Hótel Höfn því sumarið var framundan með allri síldinni og auðvitað allri vinnunni sem henni fylgdi.

Það sumar var hljómsveitin Sóló aðalnúmerið, en í henni voru Rúnar söngvari, Guðmar á trommunum, Óli Már á gítar og svo voru þeir Lalli Hjaltisted, Lúlli og Kelli þarna líka.

Þetta var rosa góð sex manna hljómsveit og skemmtilegir strákar. Það var alltaf stuð á Höfninni og mikið um að vera. En sumrinu lauk, allir fóru til síns heima og þá var málið að koma sér líka í burtu.


Guðmunda Dýrfjörð,  Jóhanna, Stella í Hlíðarhúsum, ég og Hadda Hannesar.

Við fórum þá tvær vinkonurnar til Reykjavíkur, Mumma hans Adda í Visnesi og ég, en Lára festist í Keflavíkinni og er þar enn. Við fórum að vinna á Hrafnistu um veturinn, en vorum harðákveðnar í að fara til Englands með vorinu sem au-pair og vorum mjög duglegar að safna okkur fyrir ferðinni. Sá draumur rættist 1. maí 1964 þegar ég var 19 ára, en á þessum tíma vissu alls ekkert allir hvað au-pair stóð fyrir. Heima var allt okkar fólk í sjokki og leist alls ekkert á þetta uppátæki. Þetta var líka ekkert smá ævintýri og alveg ómetanleg reynsla.

Leiðir okkar Mummu skildu og fórum við í sitt hvora áttina, hún til Birmingham og ég til Hertfordshire. Þegar út kom kynntist ég strax íslenskum stelpum og vorum við nokkuð duglegar að nota fríin til að skeppa til London og fylgjast með poppinu. Við gerðumst þar meðlimir í klúbb í Soho sem hét Marquees og stunduðum hann auðvitað grimmt. Á sunnudögum var þar sem kallað var ”Ready, steady radio,” en því var útvarpað sem þætti á Radio Luxemburg. Þarna komu margir frægir popparar sem ýmist spiluðu, sungu eða spjölluðu. Þangað kom t.d. Eric Burdon söngvari Animals og tók lagið, sem og Brian Jones úr Rolling Stones sem droppaði þarna við einu sinni. Þarna í klúbbnum fórum við líka á fína tónleika með Mannfred Mann sem var auðvitað stórt númer á þessum tíma. Einu sinni fórum við á hljómsveitarkeppni í Watford þar sem margar hljómsveitir komu fram. Þar gjörsigruðu The Zombies með laginu She's Not There, en það varð síðan heimsfrægt í kjölfarið í flutningi þeirra.

Við fórum líka tvær saman á tónleika með sjálfum Bítlunum en það er upplifun sem er varla hægt að lýsa með orðum. Þetta hét "The Beatles Christmas Show" og var haldið í Hammersmith Odeon. Við náðum í miða á 4. bekk sem var staðsetning í dýrasta flokki því við ætluðum aldeilis ekki að missa af neinu. Þarna vorum við innan um mikið af ríku og fínu fólki. Þarna spiluðu m.a. The Yardbirds, en á þessum tíma var Clapton gítarleikari í því bandi og einnig stór númer eins og Freddie And The Dreamers og Elkie Brooks.

Hápunkturinn var svo auðvitað þegar Bítlarnir sjálfir stigu á svið, því þá ætlaði allt að verða alveg snarbrjálað. Við grétum auðvitað úr okkur augun þarna, en það gerðu hvort eð er nánast allir sem voru í salnum. Allir örguðu eins og raddböndin leyfði og hávaðinn í áheyrendunum yfirgnæfði næstum því hljómsveitina. Þetta var algjör múgsefjun. Alla leiðina heim vorum við svo eins og lamaðar og mæltum við ekki eitt einasta orð. Þessi upplifun var svo yfirþyrmandi að það tók okkur langan tíma að jafna okkur. Enn þann dag í dag er ekki hægt annað en að fá svolítinn fiðring þegar maður sér myndbönd eða eitthvað slíkt frá þessum tíma sem bítlaæðið var í algleymingi.


Bítlarnir á sviði.

Ég má líka til með að minnast á skemmtilegt atvik sem gerðist úti í London stuttu eftir að ég kom þangað. Við vorum nokkrar saman á gangi í fólksmergðinni á Piccadilly og mér fannst ég reka sig á annan hvern mann. Sorrý, sorry sagði ég aftur og aftur, en svo rakst ég harkalega á einn og lít þá upp. Ég ætlaði einmitt að segja sorry einu sinni enn, en sá þá að þetta var Óli Tóra, hugsið þið ykkur. Hann varð eflaust alveg jafn mikið hissa og ég og sagði: “Ja, þó að Siglufjörður sé lítill þá er nú heimurinn ekki stór. Komiði stelpur ég býð ykkur í kaffi.” Við rifjuðum þetta atvik upp fyrir stuttu og hann mundi vel eftir þessu.

Eftir rúmlega ársdvöl í Englandi lá leiðin ekki aldeilis á heimaslóðir, heldur til Sviss í þetta skiptið. Ég hafði eignast mjög góða vinkonu þaðan sem var skólasystir mín í Englandi og þar ætlaði ég að staldra við í þrjá mánuði sem urðu reyndar eitt og hálft ár. Ég fór að vinna á fallegu veitingahúsi sem fjölskylda vinkonu minnar átti, en það var aðeins opið yfir sumartímann. Annars bjuggum við í borg sem heitir Sion. Ég kunni ekki stakt orð í frönskunni, en þarna varð ég að læra nýtt tungumál yfir af enskunni ef svo mætti segja og það var ekkert mjög auðvelt. Einhvern vegin tókst þetta nú samt með tímanum og ég lærði líka svolítið í þýsku, en þarna komu margir Þjóðverjar. Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími og eftir að ég fór að vinna á ferðaskrifstofunni skrapp ég næstum á hverju ári til að vinna þarna með vinkonu minni í sumarfríunum. En allt breytist með tímanum og staðnum var lokað árið 2000 því ekki reyndist lengur rekstrargrundvöllur fyrir honum.

 

Á fyrri myndinni er Kittý tvítug mær á veitingastaðnum úti í Sviss 1965, en að afgreiða kaffi á þeirri síðari 1993. Á báðum myndunum er hún í sama einkennisbúningi staðarins, en hann beið hennar alltaf tilbúinn og klár í slaginn þegar hún mætti til leiks.

En þar kom að ég lagði af stað heim til Íslands, því ýmislegt gerst sem beinlínis kallaði á mig. Meðan þetta langa ferðalag mitt stóð yfir hafði ég eignast tvö ný systkini sem ég hafði auðvitað aldrei séð, en einnig sá sorglegi atburður að mamma og pabbi skildu.

Meðan ég var ennþá úti í Sviss, var ég auðvitað farin að undirbúa næsta kafla í þessari löngu ævintýraferð sem mig langaði satt best að segja ekkert til að lyki neitt allt of snemma. Ég sótti um starf hjá Loftleiðum því mig langaði mikið til að verða flugfreyja. Ef sú hugmynd gengi eftir, myndi ég alla vega fá að ferðast nægju mína og það í vinnunni. Svo væri það nú aldeilis ekki slæmt að fá borgað fyrir að gera það sem mér þykir skemmtilegt. Ég komst að því að það bráðvantaði frönskumælandi fólk í stéttina. Ég fékk alla pappíra senda út með hraði, fór í atvinnuviðtal þegar ég kom heim og næsta skref var svo að fara í myndatöku. En mál þróuðust með öðrum hætti en ég hafði hugsað mér og líf mitt tók sannkallaða vinkilbeygju um þetta leyti. Það gerðist síðan aldrei neitt meira varðandi umsóknina, draumurinn um að verða flugfreyja hreinlega slokknaði og ég hef aldrei verið fyllilega sátt við sjálfa mig fyrir að hafa sleppt þessu tækifæri.


Mynd tekin í apríl 1979 tveim vikum áður en Þorfinnur lést. Aftari röð: Jón, Úlfar, fermingarbarnið Óttar, Sigurjón og Sverrir. Fremri röð: Elva, Birna, Anna Stína, Þorfinnur, Erla, Hjördís og ég. Á myndina vantar Andrés.

Ég var auðvitað full eftirvæntingar að komast heim, en sjálft ferðalagið var ekkert sérlega skemmtilegt og jafnvel svolítið hráslagalegt á köflum. Ég flaug í fysta áfanga til Heathrow, en þegar halda skyldi áfram blasti við mér svolítið sem fékk mig til að langa mest til að snúa við. Þarna stóðu stórar og glæsilegar þotur í röðum, tilbúnar að halda eitthvert langt út í heim þar sem ævintýrin gerðust, en svo var þarna ein pínulítil flugvél merkt íslensku flugfélagi á leiðinni í snjóinn og myrkrið heima á skerinu. Það var vélin mín, ég fann á einhvern óþægilegan hátt til smæðar minnar og langaði mest til að hætta við heimferðina. Ekki batnaði líðanin þegar inn kom, því þessi flugvél var einhvern vegin eitthvað svo gömul og úr sér gengin enda kom fyrsta þotan stuttu seinna. Þarna var ég 21 árs gömul og árið var 1966. Í þá daga var lent á Reykjavíkurflugvelli og þar tók á móti mér ísköld og kolbikasvört nóvembernóttin með rigningu og slagviðri í ofanálag. Í þriðja sinn á heimleiðinni langaði mig til að snúa við.

Þetta bliknaði þó allt saman í samanburði við ferðalagið norður því það var allt á kafi í snjó fyrir norðan og alveg kolófært. Ég komst þó með rútu norður á Hofsós en ekki fetinu lengra, en var svo heppin að eiga vinafólk á Hofi á Höfðaströnd þar sem ég fékk inni meðan beðið var eftir að veðrinu slotaði. Á þessum tíma lá vegurinn um Siglufjarðarskarð og ennþá verið að sprengja göngin í gegn um Strákafjall, svo ekki voru miklar líkur á að ég kæmist landleiðina heim. Það varð mér því til bjargar að póstbáturinn Drangur sigldi þá til Hofsóss og ég fór því heim með honum næst þegar hann kom. Þegar ég stóð svo á Hafnarbryggjunni á Siglufirði með ferðatöskurnar mínar í enn meiri snjó vandaðist málið, því ég vissi bara alls ekki hvar ég átti heima. Það vissi heldur ekki nokkur maður að ég væri að koma þennan dag svo engin var heldur móttökunefndin.

Ég átti heima á Lækjargötunni þegar ég fór síðast að heiman þremur árum áður, en nú var mamma flutt og ég hafði ekki hugmynd um hvert. Þetta var vægast sagt nöturleg uppgötvun en það rættist auðvitað úr þessu eins og það virðist alltaf rætast einhvern vegin úr öllum vandamálum. Ég sá hvar löggubíllinn kom niður á bryggju og ég spurði Bubba löggu sem var þar undir stýri, hvort hann gæti ekki bjargað mér. Hann brást vel við þeirri ósk eins og við var að búast og keyrði mér og mínu dóti eins langt og hann gat, en það var þó ekki lengra en upp á Suðurgötu fyrir neðan kjá Kela Ben vegna ófærðarinnar. Svo öslaði hann snjóinn með mér alveg upp í mitti, upp allan Brekkustíginn og við bárum eða öllu heldur drógum á eftir okkur dótið mitt.

Svo bankaði ég á dyrnar á Hávegi 10, eða í Lákahúsinu eins og brekkubúar kölluðu það á sínum tíma. Það var komin nótt en allur hópurinn vaknaði upp og kom til dyra. Það urðu auðvitað miklir fagnaðarfundir, en yngstu systkini mín vissu varla hver ég var, enda þrjú ár liðin frá því ég fór að heiman. Þau störðu bara á þessa furðuveru sem datt þarna inn um dyrnar úr snjónum og dimmri nóttinni.

Ég hafði ekki hugsað mér að stoppa lengi heima, kannski bara rétt yfir jólin og áramótin eða eitthvað svoleiðis. Það teygðist þó heldur betur úr því og ég var fljótlega komin í bullandi vinnu á Höfninni.

Eftir að ég kom heim var ég auðvitað strax tekin inn í saumaklúbbinn með skólasystrum mínum en sá fljótt að ég var svolítið utanveltu í því samfélagi. Meðan ég hafði verið að skoða heiminn höfðu þær eignast bæði menn og fullt af börnum, svo það var langmest talað um börnin og bleyjurnar. En á þessum tíma ætlaði ég mér sko ekkert að fara út í svoleiðis hluti alveg strax. Þá kynnist ég Palla Birgis, við giftum okkur og fórum að búa saman, en sambandið varð því miður ekki langt. Hann lést í hörmulegu slysi áður en við höfðum verið saman í þrjú ár. Þegar það gerðist höfðum við eignast einn strák og ég var ófrísk af öðrum. Þá var ég að vinna sem klínikdama hjá Jonna tannlækni.


Saumaklúbbsstelpurnar Stína Eggerts, Hulda Kristins, Guðný Inga Andersen, Sólveig Helga, Gústa Lúthers, Anna Laufey, Mumma, Olla Steingríms, ég, Gitta, Guðný, Unnur og Bylgja.

Ég fór fljótlega að vinna eftir að Páll yngri fæddist og vann stundum á Matstofunni hjá Ásu Þórarinns með öðru, en hún átti frændur sem ráku hótelið á Blönduósi og bráðvantaði starfsmann í eldhús. Hún kom að máli við mig og hvatti mig til að taka þessa ágætu vinnu. Þarna væri mjög gott að vera og eignlega alveg sáralítið að gera. Ég sló til og flutti á Blönduós með strákana mína tvo. Þeir voru þá alveg að verða tveggja og þriggja ára, en ég komst fljótlega að því að þetta með rólegheitin í sveitinni var stórlega ýkt. Ég var varla kominn nema rétt inn úr dyrunum þegar mig langaði mest til að bera dótið mitt aftur út í sama bíl og ég kom með og fara strax heim.

Á þessum tíma var hafin undirbúningsvinna við Blönduvirkjun og það voru 30 manns í föstu fæði sem tengdust því verkefni, auk þess sem það þurfti líka að nesta þá áður en þeir fóru til vinnu. Svo stoppuðu rúturnar líka á Hótelinu og margir farþegarnir borðuðu þarna líka. Á dögum hinna holóttu og seinförnu malarvega og á meðan bensínstöðvar seldu bara bensín og olíur, var svo margt með öðrum hætti. Það var því algengt að það væru um 60 manns í mat hvern einasta dag og ég var að miklu leyti ein í eldhúsinu frá 7 á morgnanna til miðnættis.

Fyrsti mánuðurinn fór að miklu leyti í að læra og búa til skipulagið alveg frá a til ö sem síðan var svo unnið eftir. Ég var enginn kokkur og eldaði bara venjulegan heimilismat. Ég fékk allan fisk sendan frá Jósa og Bödda á Siglufirði og á þessum tíma voru kótílettur og buff með spæleggi mjög vinsælt eða eiginlega eins og hálfgerður tískumatur. En þetta var ansi mikið erfitt og ég þurfti virkilega að taka á honum stór mínum hvern einasta morgunn til að hafa mig í gang. Ég var svo heppin að bróðir hótelstjórans sem var þarna húsvörður, tók hann Palla litla nánast að sér og það létti mikið undir. Ég hélt þó út veturinn en um vorið var ég hreinlega þrotin af kröftum og fór heim. Þar fór ég að vinna á hótelinu eins og svo oft áður, en einnig saumastofunni hjá Steinari Jónassyni en þó aðeins fram á haustið því þá langaði mig eins og svo oft að prófa eitthvað nýtt.


Ráðskona á Blönduósi.

Ég var búin að vera að leita að einhverri vinnu þar sem ég gæti haft strákana með mér. Sú leit bar reyndar ágætan árangur, ég var veturinn 72-73 á Sólheimum í Grímsnesi og þar var alveg æðislegt að vera. Ég fór svo aftur heim um vorið en þegar líður á sumarið hringir Guðrún Árnadóttir í mig og biður mig að fara suður og taka að mér hóp af Færeyskum krökkum. Ég færðist undan í fyrstu og taldi mig ekki vera nokkra mannesku í starfið en Gunna gaf sig ekki svo auðvitað sagði ég já fyrir rest.

Foreldrarnir ýmist ráku eða unnu í skóverslun Þórðar Péturssonar í Kirkjustrætinu sem var þá ein þekktasta skóverslunin í Reykjavík. Hjónin sem ráku búðina áttu tvö börn, systir konunnar þrjú, dóttir þeirra tvö og svo var ég með mína tvo stráka. Þarna var því mikið fjör eins og gefur að skilja og vissulega var þetta ekkert auðvelt, en ég var alveg gallhörð á að láta þetta ganga upp.

Þetta voru ansi fjörugir krakkar og hingað til höfðu nánast allar stelpur sem voru ráðnar til að gæta þeirra gefist upp. En ég var svo sem ýmsu vön og þegar ég var einhverju sinni alveg búin að fá meira en nóg af einum stráknum, lét ég hann bíta í sápustykki. Það hlýtur eitthvað að hafa verið í sápunni, því hegðun hans snarbreyttist til batnaðar og hann var yfirleitt aldrei til vandræða meir. En þegar ég varð svo sextug, fékk ég pakka frá honum sem í var rauðvínsflaska og svo fylgdi auðvitað sápustykki. Mamma hans sem er ein besta vinkona mín kom með pakkann frá honum, en hann býr núna úti í Færeyjum. Þannig var að búðin var á neðri hæðinni, en uppi var íbúð þar sem ég passaði alla krakkana á daginn. Ég var svo hjá þessu ágæta fólki í tæp þrjú ár, það var mér mjög hjálplegt í alla staði og við höldum mjög góðu sambandi enn í dag.


Færeysku krakkarnir.

Eftir þetta skemmtilega Færeyska ævintýri var ég komin í sambúð og þriðja barnið á leiðinni. Ég varð auðvitað að gera eitthvað annað og meira en að vera heimavinnandi húsmóðir, og vann m.a. hjá Sambandinu, í versluninni Torginu við Austurstræti, í smurbrauðinu á Reykjavíkurflugvelli, hjá Ferðaskrifstofu Íslands, Akogeshúsinu og mörgum fleirum stöðum, en síðast en ekki síst í Oddfellowhúsinu. Þar mynduðust einhvern vegin svo sterk tengsl við allt það góða fólk sem þar var og er margt af því er reyndar starfandi enn, að ég hef stundum farið þangað í desember og unnið þegar mikið er að gera.


Kittý var í Skagfirsku söngsveitinni eftir að hún kom suður. Myndin er af kvennaarmi þeirrar ágætu sveitar í íslenska þjóðbúningnum.

Svo var til fyrirtæki sem hét upphaflega Ferðaskrifstofa Ríkisins, en starfsfólkið keypti reksturinn þegar hann var seldur og nafnið breyttist í Ferðaskrifstofu Íslands. Ég fór að vinna þar og þetta var góður og skemmtilegur vinnustaður sem hentaði mér auk þess mjög vel. Ég gat unnið þar á daginn, en á kvöldin og um helgar í veisluþjónustugeiranum. Ég var þarna í 10 ár eða svo, en Flugleiðir keyptu þá reksturinn. Þar með var ég kominn undir Flugleiðahattinn ef svo mætti segja sem var kannski ekki alslæmt, en því fylgdu ýmis konar réttindi sem í mínu tilfelli náðu yfir starfsaldur minn frá byrjun. Ég gerðist síðan veitingastjóri hjá Veislunni sem er stórt veislufyrirtæki og var þar í rúmt ár. Þá lá leið mín aftur í ferðabransann, ég fór að vinna á Flugleiðahótelinu á Egilstöðum og var þar meira eða minna í önnur 10 ár. Ég ferðaðist mikið á þessum tíma og sleppti helst aldrei tækifæri til slíks.

Ég vann á þessum tíma mikið sem þjónn og þá helst í fínum veislum á stöðum eins og Valhöll á Þingvöllum, Kjarvalstöðum, Þjóðmenningarhúsiðinu o.fl. Svo tók ég að mér að reka Dillonshús í heil 5 ár. Ég var alltaf með hóp af frábæru fólki í vinnu og varð stundum sumum á orði að þar færi landsliðið í þjóninum, enda vorum við alltaf að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum og öðru fyrirfólki.


Stórvinkonurnar Gústa Lúthers, Lára Halldórs og ég fyrir fáeinum árum. Sennilega höfum við verið að hittast vegna árgangsmóts. Á myndina vantar Möggu Helga sem líklega hefur tekið hana.

Stundum gerðust svolítið skrýtnir hlutir á þessum fínu stöðum, eða manni fannst þeir alla vega vera svolítið skrýtnir þó maður væri ýmsu vanur. Einu sinni tókum við nokkur saman að okkur að þjóna í veislu hjá mjög þekktum erlendum þjóðhöfðingja sem hélt alveg rosalega flotta veislu. Ég átti svo sem ekki von á neinu sérstaklega óvæntu en það kom nú annað í ljós.

Hann mætti með sinn yfirþjón sem var eins og herforingi. Hann stóð stífur eins og myndastytta og við fylgdumst með honum. Allt í einu rétti hann snöggt út hendina eins og hann væri að skjóta af startbyssu á kappleik og þá fór allt í alveg bullandi gang. Það var líka komið með allan matinn, borðbúnaðinn og þar á meðal allt silfrið sem var ekkert smáræði.

Þar á meðal voru flennistórir og níðþungir silfurbakkar og á þeim voru m.a. stórar skálar með sósu og kartöflum. Á þessu þurfti maður að halda hálft kvöldið og ég hélt að ég myndi annað hvort líða út af eða bakið hreinlega brotna. Það varð mér til bjargar að Carl Billy var að spila þarna yfir matnum og flygillinn var staðsettur á alveg sérlega hentugum stað fyrir mig. Ég laumaðist því til að leggja olnboga handarinnar sem hélt á bakkanum ofan á hann svo lítið bar á og þannig hafði ég mig í gegn um kvöldið.

Þó maður væri eitthvað yngri á þessum tíma var samt þó nokkuð töff að vinna fyrst fullan vinnudag, fara svo að undirbúa veislu, dekka upp, standa allt kvöldið og eftir það þurfti svo auðvitað að ganga frá öllu saman og gera klárt fyrir næsta dag.

Einu sinni gerðist það að allir erlendu veislugestirnir spruttu skyndilega á fætur og þrömmuðu út í þráðbeinni röð rétt eins og vel þjálfaður herflokkur, að því er virtist alveg upp úr þurru. Það var komið að því að bera inn kaffið eftir matinn og við stóðum eftir furðu lostin með könnurnar og konfektskálarnar á lofti og veltum því fyrir okkur hvað hefði eiginlega komið upp á. Þetta voru allt gestir frá framandi landi hinum megin af hnettinum og þeir höfðu greinilega ýmis önnur viðmið og siði en við hérna á klakanum. Eitt af því sem var greinilega tekið mjög alvarlega hjá þeim, var stundvísi svo og allar tímasetningar. Veislunni hafði verið áætlaður ákveðinn tími og það var því staðið upp alveg á sekúndunni og stefnt mjög hratt og ákveðið til dyra þó að dagskráin væri alls ekki búin. Þetta var allt saman mjög óraunverulegt og líkast því að vera eins og súrrealísk sena sem er klippt út úr einhverri bíómynd, en samt alveg bráðfyndið svona eftir á. Já margt var brallað, enda alveg meiri háttar fjör í þessum geira og þessi vinna síður en svo óskemmtileg.


Árgangurinn hittist á Siglufirði.

Ég var nú ekki af baki dottin þó að ég væri komin svolítið til ára minna og skellti mér til Danmerkur fyrir þremur árum sem amma au-pair. Þar býr Palli sonur minn ásamt sinni konu og þrem sonum. Þar var ég í tæpt ár og gekk m.a. í dönskuskóla, svona aðallega til að gera eitthvað skemmtilegt. Þatta var frábær tími en það var nú samt mjög gott að komast heim að lokum. Danir eru nefnilega ekkert sérlega fjörugir og ég kynntist því aðallega skemmtilegum Íslendingum þar ytra.

Ég hef nú verið að mestu leyti frá vegna veikinda vel á annað ár, en í dag stefnir allt í rétta átt. Núna er ég á svolitlum krossgötum, en er óðum að ná mér og get vonandi fljótlega farið að koma mér út á vinnumarkaðinn aftur. Ég er búin að vera voða dugleg í jóga en ætti kannski meira að fara út að ganga, en ég hefði nú miklu frekar viljað fara út og dansa salsa eða gera eitthvað sem er virkilegt fjör í.


Úr brúðkaupi Páls og og Kristínar. Tengdadóttirin Kristín og Páll Birgis þá Gunnar Hilmar, Þorfinnur Karl, ég og Belinda dóttirin og elsta barnabarnið mitt Páll Kristján stendur fyrir framan pabba sinn.

Ég gerði játningu fyrir viðmælanda okkar og upplýsti að ég hefði ekki verið alveg hundrað prósent viss um hvað hún héti í rauninni, því ég hefði bara aldrei heyrt hana kallaða nokkuð annað en Kittý. Það örlaði á svolitlu brosi áður en svarið kom.

Já, það er nú svolítil saga út af fyrir sig að segja frá því. Þegar ég var lítil var ég fyrst kölluð Kiddý eða jafnvel Kiddý Þóra. Ég var ekki orðin há í loftinu þegar ég strækaði alfarið á þá nafngift. Mér fannst hún rosalega hallærisleg, en Kittý var hins vegar bara töff og kolféll alveg í kramið hjá sjálfri mér. Það nafn hefur fylgt mér fram eftir öllu og margir hafa aldrei heyrt neitt annað. Eldri systkini mín kalla mig Kiddý en þau yngri Kittý, en í sveitinni á Eyvindarstöðum var ég alltaf Þóra kaupakona. Ömmubörnin kalla mig ömmu Kristrúnu, enda hæfir það vel hinum virðulega ömmualdri og vil ég þess vegna helst heita Kristrún nú orðið.


Kittý með ömmubörnunum átta.


Myndir: Birgir Ingimarsson.

Texti: Leó R. Ólason.


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst