Björgunarsveitin Strákar í útkalli. Myndband

Björgunarsveitin Strákar í útkalli. Myndband Þann 7. og 8. desember síðastliðinn gekk óveður yfir Ísland og ég held að flest allir ef ekki bara algjörlega

Fréttir

Björgunarsveitin Strákar í útkalli. Myndband

Þann 7. og 8. desember síðastliðinn gekk óveður yfir Ísland og ég held að flest allir ef ekki bara algjörlega allir fréttatímar, fréttamiðlar og samfélagsmiðlar hafi verið undirlagðir af fréttum af óveðrinu sem var á leiðinni, var komið eða var nýlega farið hjá. Gott ef það er ekki eitt á leiðinni í þessum skrifuðu orðum.

 
Þegar líða tók að kvöldi 7. desember (vonandi er þetta rétt dagsetning, allavega miðað við myndirnar) þá gekk veðurofsinn yfir Tröllaskaga með tilheyrandi traustabrestum í gömlum timburhúsum, fjúkandi ruslatunnum og ýmsu lauslegu sem fluttist búferlum sunnar í bæinn á þeim tímapunkti.
 
Mig minnir að það hafi verið einhverstaðar á bilinu 21:00-22:00 sem rafmagnið fór af Siglufirði og nærsveitum. Neúú þar sem við flest öll erum vel net-tengd í gegn um símann þegar rafmagnið er OFF-LINE þá kepptumst við við að dúndra inn á samfélagsmiðlana eins og facebook hvað það það væri nú offsalega "kósý í kertaljósi" þegar rafmagnið var ekki á. Reyndar hafði ég meztar áhyggjur af frystikistunni með jólanauta-lamba og fuglakjötinu okkar Ólafar minnar. Ég hugsaði líkar reyndar "já og humarinn.... ekki má hann nú þiðna svona korter í jól". 
 
En þar sem allar kjéllingarnar á heimilinu steinsofnuðu í rafmagnsleysis-kósýparexelance-heitunum þá var ég víst orðinn æðstráðandi á heimilinu og réð mér víst alveg sjálfur þetta korter sem ég beið þess að allir væru örugglega steinsofnaðir. Þar sem ég var tölvulaus, sjónvarpslaus, rafmagnslaus og þar af leiðandi næstum því allslaus af afþreygingarefni fyrir utan það að lesa góða bók (sem ég hef ekki gert síðan þeir byrjuðu að lesa þær fyrir mann inn á disk) þá var ekkert annað að gera en að kíkja út og athuga hvort ég sæi ekki eitthvað fjúka framhjá mér svona til afþreyingar. 
 
Það var reyndar ótrúlega spennandi að sjá bæinn rafmagnslausan og það mætti jafnvel taka þann sið upp svona túristalega séð að taka götulýsinguna af bænum í cirka klukkustund á góðviðriskvöldum yfir svartasta skammdegið. Það er svo fjári myndavélavænt og ég er sannfærður um það að túristar munu elska þá stemmningu. En líklega er þetta allt of góð hugmynd til að hljóta nokkurn hljómgrunn. 
 
Á leið minni um bæinn mætti ég nokkrum ruslatunnum sem fuku í suðurátt og fjölbreytt úrval úrgangsefna úr tunnunum góðu skelltu sér annað slagið á framrúðuna á bílnum svona rétt áður en ruslið hélt áfram suður í bæ. Ótrúlegt hversu oft ruslið leytar í suðurbæinn, en það er nú alveg hreint allt annað mál og þetta skrifaði ég eingöngu til að pirra þá sem eru suðurbæingar, enda er ég aaalveg grjótharður bakka-gutti úr norðri. Ég veit reyndar ekkert hvað þeir kölluðu sig hér áður fyrr norðurbæingarnir þegar meira að segja jólaljósin og flugeldarnir voru í svarthvítu en eitthvað hefur maður heyrt talað um villimannahverfið og fleiri nafngiftir. Ég reyndar ólst upp í 10 ár í Villimannahverfinu en það hverfi er fyrir norðan kirkju og þar af leiðandi er það líka norðurbærinn. En jæja ég steinhætti að skrifa um þetta málefni.
 
En eftir fjölbreytt og skemmtilegt áhorf á ruslatunnur og rusl fjúka til suðurs ákvað ég að kíkja á strákana og stúlkurnar sem skipa Björgunarsveitina Stráka. Þegar ég kom þar niður eftir voru allir úti að sinna útköllum nema þeir Áki Vals og Ómar Geira sem voru í stjórnstöð. Jón Konn frá löggunni kom einnig þarna við til að athuga stöðuna hjá björgunarsveitinni. Seinna meir kom björgunarsveitarfólkið inn hvert af öðru úr verkefnunum sem það var að sinna, sem voru mestmegnis lausar  þakplötur, ruslatunnur og hugsanlega eitt og eitt trampólín jafnvel. Ég fékk svo seinna um nóttina að kíkja með þeim Óðni Frey, Magga í SR,Guðmundi Gauta og Sigurjóni Ólafi suður á Hóli þar sem eitthvað var að fjúka. Rúnturinn með þessum drengjum var vægast sagt skemmtilegur og fræðandi, bæði um störf björgunarsveitarmanna sem og önnur fræðsla sem fram fór og ég get bara ekki með nokkru móti sagt frá hér. Reyndar get ég ekki sagt frá því nokkur staðar annars staðar heldur en það er alveg hreint allt annað mál. Við fórum suður að Hóli og þar stökkva þeir allir af stað til að athuga hvort þeir geti reddað einhverjum bárujárnsplötum frá því að fjúka upp á Blekkil og ég einn eftir í bílnum. Ég man að ég hugsaði með mér "þetta er nú kannski ekkert offsalega kósý neitt, það er allavega ekkert kertaljósa rómó hérna" og meðan hentist bíllinn til og frá og ég horfði annað slagið óttaslegin á sprungu í framrúðunni á bílnum og mörg augnablik hélt ég að framrúðan væri á leiðinni aftur í sæti til mín . Á tímabili hélt ég að þessi þriggja og hálfs tonna Ford hlunkur færi á eftir bárujárnsplötunum sem þeir náðu ekki að festa niður og ég þar af leiðandi með en það slapp allt saman til. Líklega slapp það vegna þess að ég sat í bilnum, allavega taldi ég mér trú um það að ég hefði bjargað einum björgunarsveitarbíl, ég sat allavega norðan megin í honum og hélt ballans. Þegar piltarnir voru búnir að því sem þeir þurftu að gera suður á Hóli þá var farið um allan bæ til að athuga hvort eitthvað sæist sem þyrfti skoða nánar. En rosalega var ég samt fegin þegar ég sá þá koma einn af öðrum. Þegar ég var búinn að fylgjast með þeim festa allt mögulegt og ómögulegt niður þá fór ég heim um 03:30. Þá áttu þeir eftir að vera til allavega 05:00.
 
Og nú kemur líklega það sem mestu máli skiptir í þessu öllu saman en það er það að fólkið í björgunarsveitunum gerir þetta algjörlega launalaust fyrir þig. Það nær í trampólínið sem þú gleymdir að festa niður. Það lemur niður þakplöturnar á húsinu þínu svo húsið þitt verði ekki fyrir skemmdum og/eða skemmi ekki eigur annarra. Það neglir fyrir glugga sem hafa brotnað. Þau reyna að passa upp á það að það flæði ekki inn til þín og ef það flæðir inn til þín þá hjálpa þau til við að dæla út úr húsinu þínu eða skipi eða hverju sem flæðir inn í. Svo ef þú smellir þér í jeppa eða vélsleðaferð og verður svo ótrúlega óheppin að ná ekki veðurspánni eða bara hreinlega villist þá er þetta fólk líklega fyrst af stað til að hjálpa þér og þínum. Svona er líklega endalaust hægt að telja upp. En einu launin sem þau þyggja fyrir það er að geta hjálpað einhverjum og oft á tíðum bjargað lífi og limum þeirra sem bíða eftir hjálpinni.  
 
Þess vegna vona ég að sem flestir versli flugeldana af Björgunarsveitunum. Þessi fjáröflunarleið er hugsanlega það sem skiptir Björgunarsveitirnar mestu máli.
 
Hér er svo örstutt myndband sem ég gerði með myndum og myndbrotum af því sem fyrir augu bar aðfaranótt 8. desember. Og fyrir neðan myndbandið er mynd af strákunum sem bíða alveg snarspenntir eftir því að þú komir og styðjir þetta góða málefni.

 
 

 

björgunarsveitin

Opnunartími flugeldasölunnar.

30des 13:00 - 22:00
31des 10:00 - 15:00


Athugasemdir

25.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst