Viðtal úr Tímanum frá 1975 þar sem Jónatan Ólafsson talar um Siglufjörð‏

Viðtal úr Tímanum frá 1975 þar sem Jónatan Ólafsson talar um Siglufjörð‏ Frétti af því að þú hefðir sett inn póstinn sem ég sendi til Siglunes

Fréttir

Viðtal úr Tímanum frá 1975 þar sem Jónatan Ólafsson talar um Siglufjörð‏

Jónatan Ólafsson ca 1936
Jónatan Ólafsson ca 1936

Frétti af því að þú hefðir sett inn póstinn sem ég sendi til Siglunes Guesthouse og ljósmyndina af hljómsveit sem afi minn var í.

Sjá grein hér: Hótel Siglunes! Myndir frá horfinni tíð

Hann var í löngu og ítarlegu viðtali í Tímanum 1975 og ég sendi hér með þann hluta sem snýr að Siglufirði og nokkrar myndir sem hann átti frá þessum tíma. Þetta gæti vakið athygli.

Sá sem tók viðtalið er eingöngu skráður BH, en ég veit ekki nafnið á blaðamanninum því miður.

Bestu kveðjur
Jónatan Garðarsson


Hluti af viðtali sem birtist Tímanum 20. apríl 1975, sem BH tók við Jónatan Ólafsson:


Lífsævintýrið í síldarbransanum á Sigló...

„Já, það byrjaði nú eiginlega með Siglufjarðarævintýrinu mikla. Þannig var, þegar ég er að verða nítján ára, fer ég með Erlingi bróður norður á Siglufjörð. Ég var þá búinn að vera á spítala í heilt ár, heilsulaus ræfill, og dreif mig með honum norður, en hann hafði nóg að gera fyrir norðan, vann í síldarverksmiðjunum á sumrin og var viðloðandi karlakórinn Vísi. Hann raddþjálfaði þá, það sem hann kunni, og söng mikið með þeim. Hann heldur þarna konsert áður en hann byrjaði í verksmiðjunni og ég spilaði undir, og það er náttúrlegabókað á stundinni að ég sé óskaplega flinkur. Ég lenti inn í karlakórnum, þeir héldu auðvitað, að ég væri ógurlega fínn söngvari, og ég gat svo sem sungið fyrsta bassa, ekki með nokkra rödd, blessaður vertu. En það var söngmót hérna fyrir sunnan 1934. Þeir keyptu á mig kjólföt og allt og svo fékk ég fría ferð suður til að heimsækja pabba og mömmu.

En spilaðir þú þá ekkert fyrir norðan?

Það var nú nefnilega það. Ég lendi þarna í minni fyrstu hljómsveit, eiginlega strax við komuna, fyrsta skipti sem ég spila dansmúsík fyrir peninga. Það vantaði píanista á Brúarfoss og ég var búinn að dúlla svona hér heima, og ég tek djobbið. Við vorum tveir sem spiluðum þarna. Það voru mörg danshús starfandi þá, en það var alltaf fullt hjá okkur á hverju kvöldi. Þetta hét Brúarfoss og það er víst búið að rífa það núna.

Bræðurnir: 1936. Sigurður 15 ára, Jónatan 18 ára og Erling 23 ára

Það hefur ekki verið mikið um frí hjá ykkur?

Ég man, að við fengum einu sinni frí í tvo daga. Það var alveg rosaleg landlega þá, og Vestmannaeyingarnir búnir að fylla húsið með sínum dömum. Keflvíkingarnir komust ekki inn. Þetta var timburhús á einni hæð, kjallari undir, sem var eldhús og þess háttar. Það voru tveir inngangar á hæðina og tröppur, en það voru ekki notaðar nema aðrar dyrnar. Keflvíkingarnir rifu bara tröppurnar frá og réðust inn. Það var ekki ein einasta rúða heil í öllu húsinu og allt brotið inni. Það endaði með ósköpum. Þetta var í september og stór kakkelofn í salnum, hann var kynntur af því að það var hráslagaveður. Nú, það er allt orðið brjálað, slagsmál og djöfulskapur, og allir slógust. Þá er það, að einn pissar í ofninn, lagsmaður, í glóðina, og það gýs upp þessi rosalega pest. Það datt bara allt í dúnalogn. Þá fengum við frí í tvo daga meðan verið var að klambra saman borðum og stólum. Það var allt svo frumlegt þarna, „Pissúsar“ niðri, eins og við kölluðum það, bara kamar, þröskuldafullur. Þess vegna var það sem aumingja maðurinn sagði: „Hvar er djöfulsins pissúarið“? og opnaði bara ofninn. Nei, hann var ekki að hugsa um að stilla til friðar, bara þjóna sínum líkama.

En þú hefur spilað víðar en þarna á þessum árum?

Já, við héldum klúbb böll, slógum okkur saman tvær hljómsveitir. Voða fínt. Settum upp klúbb til að þéna extra pening. Þá spilaði ég með Stebba Baldvins. Hann var Siglfirðingur, fluttist seinna til Svíþjóðar. Ég heyrði frá honum fyrstu árin en það er langt síðan ég hef heyrt nokkuð af honum. Þetta er Stebbinn sem ort var um: „Hvað getur hann Stebbi gert að því þó hann sé sætur“? Það var Bjarni Guðmundsson, sem orti þennan brag. Hann var óskaplegur sjarmör, og sérstök týpa, málglaður og hress. Seinna var bragnum snúið upp á Stefán Íslandi í revíu.

Var Bjarni Guðmundsson þá fyrir norðan í síldinni?

Já, það var ábyggilegt. Sjáðu til, á þessum árum var Siglufjörður Mekka fyrir námsmenn og músíkanta og auðvitað aðra. Restórasjónirnar voru að mestu leyti lokaðar hér, og þá var að leita til Siglufjarðar til að fá sumarvinnuna. Meira að segja Einar Kristjánsson, óperusöngvari, var trommuleikari í Bíókaffi eitt sumar.

Hverjir voru í klúbbhljómsveitinni með þér?

Þetta voru indælis drengir. Trommuleikarinn okkar var Svavar Björnsson. Hann er dáinn. Svo var Tómas Hallgrímsson, afar músíkalskur, eins og það fólk er allt saman, mjög listhneigt. Svo kemur Sæmundur Jónsson, hann er afi hans Gylfa Ægissonar, ættaður úr Fljótunum, bjó á Siglufirði. Afi þessa Sæma hét Kristján, hann bjó í Fljótunum og var að verða áttræður þegar ég heimsótti hann. Hann spilaði á fiðlu, alveg eldfjörugur. Hafði fiðluna við öxlina eins og Harðangarnir og tæknin alveg ótrúleg. Hann spilaði á böllum, gömlu dansana með viðeigandi slaufum.

Er það ekki þannig, sem á að spila gömlu dansana?

Einmitt og það er það sem spilararnir verða að gera sér ljóst. Það verður að spila gömlu dansana á sinn hátt. Það er dansað bæði eftir hljómfallinu og laginu. Ef þessir gömlu klassísku gömlu dansarar fengu ekki sína slaufu á réttum stað, þá eyðilagði það hinn rétta hnykk. Dansinn er bara ónýtur. Þeir voru sjálfir búnir að impróvisera eitthvert spor, slaufu eða hnykk, sem þeir bara biðu eftir til að geta impónerað dömuna.

Voru miklar mannabreyingar í hljómsveitunum?

Jájá, við vorum bara tveir fyrsta árið. Næsta árið bættist sá þriðji við, Bjarni heitinn Guðjóns, bróðir hans Vilhjálms. Hann var með fiðlu og blés í saxófón og svo lék hann líka á trommurnar. Hann lærði líka á banjó og fór út til Englands til að læra á banjó. Við vorum með alls konar „fiff“. Við fórum í úníform og við spiluðum alls konar músík þarna. Við vorum með stromphatta, þegar við spiluðum sjómannalög og spænska hatta þegar við spiluðum suður-amerísk lög. Við vorum svona að reyna að lífga upp á hljómsveitina. Annars spilaði maður alltaf í dökkum fötum. Maður formaði ekki annað. Það þýddi ekkert að koma á lopapeysu.
 

Það hefur verið viss menningarbragur á þessu, þrátt fyrir ýmsa útúrdúra?

Blessaður vertu, yfirleitt fóru böllin fram í mesta bróðerni. Það var bara viðburður ef eitthvað bjátaði á, svipað því sem ég sagði frá áðan. Ég hef bara ekki kynnst betra fólki en þarna á Siglufirði. Þarna er búsett fólk af öllum stöðum á landinu. Þarna voru allir jafnir, ekki til klíkuskapur eða merkilegheit, hvort sem var forseti bæjarstjórnar eða hver sem var. Hvergi harðari pólitík. Það rauðasta í verkalýðshreyfingunni á þessum árum, það var að finna á Siglufirði, og Sjálfstæðisflokkurinn að hinu leytinu ekki síður sterkur – en þetta voru allt vinir og kunningjar.

Svo að við víkjum aftur að böllunum, hversu lengi stóðu þau?

Fyrst voru restórasjónirnar. Þær stóðu frá níu til hálftólf. Þá var svona kvöldmúsík, en auðvitað dansað ef menn vildu. Svo var sópað það mesta af gólfinu og síðan hófst ballið og stóð til tvö. Það voru einhver lög um þetta. Þau gátu staðið lengur, ef það var privat eða klúbbur. Það var alveg það sama í Reykjavík á þessum árum.

Þú hefur spilað víðar en á Siglufirði á þessum árum?

Já, það var til dæmis árið 1936, sem við vorum fengnir til Akureyrar. Fjögurra manna band. Við áttum upphaflega að spila á gamlárskvöld á Hótel Akureyri, en það varð bara úr að við spiluðum þarna í fjóra mánuði. Þá var nefnilega engin hljómsveit á Akureyri. Ég veit hvað þú ert að furða þig á. Trektin sem stendur þarna hjá nikkunni á myndinni var mikið notuð. Við sungum í þetta. Það voru engir míkrófónar þá. Við fylltum restórasjónirnar hjá henni Gígí kvöld eftir kvöld.

Hversu mörg danshús voru eiginlega á Siglufirði á þessu blómaskeiði síldaráranna?

Þau voru yfirleitt opin fjögur eða fimm. Árið 1937 var dansað í sex húsum, sem ég held að hafi ekki orðið fleiri.

Þú hefur starfað með ýmsum hljóðfæraleikurum þarna á þessum árum?

Já, ég eignaðist marga góða félaga, sem gaman var að vinna með. Þarna byrjaði ég að vinna með Óskari Cortes, þeim indæla dreng, og Polli Bernburg var á trommunum. Það var í Alþýðuhúsinu. Fínt band. Svo er hérna afskaplega gott band. Við spiluðum á Hótel Siglunesi í þrjá mánuði og við æfðum alltaf tvo tíma á dag. Við gátum að vísu ekki spilað músíkina sem við æfðum, því að við urðum að vera með sölumúsík, þurftum að spila fyrir fólkið. Þorvaldur Steingrímsson, hann Daddi, útsetti allt fyrir okkur. Svo var hann Polli með trommurnar og hann Gílsi Einars og maður varð að reyna að vera kúltiveraður líka til að fylgjast með þeim.

Svakalegar trommur eru þetta?
 

Það var móðins að hafa trommurnar svona stórar, blokkirnar miklar og gong-gongið á sínum stað. Það var danskur trommuleikari sem innleiddi þetta, Kragh Steinhauer. Hann var með líkamslýti en með reglulega fallegt andlit og lýtin sáust ekki bak við svona stórar trommur. Hann setti fyrstur manna upp auglýsingaskrifstofu hérna i borginni og svo spilaði hann í Halta bandinu á Borginni, en það var hljómsveit sem minn ágæti vinur Bjarni Bö setti saman meðan Borgin var að bíða eftir Jack Quinet. Það var meiriparturinn haltur, Naaby, danskur á píanóið, Rudi, þýzkur á trompet, harmoniku og fiðlu, Kragh Steinhauer á trommurnar, og svo Guðlaugur gullsmiður. Það var þá sem var tekið af þeim pásukaffið. Allt í lagi. Bjarni kom þá bara með sinn hitabrúsa og matarpakka og drakk frammi í restórasjóninni við peningakassann. Hellti í málið og gæddi sér á rúgbrauði og kæfu. Þeir fengu kaffipásu aftur. Bjarni var hetja. Við ættum ekki félag í dag ef hans hefði ekki notið við.

Þú hefur sungið með Karlakórnum Vísi á þessum árum?

Við skulum nú ekki gera of mikið úr því, en mikið eignaðist maður góða vini þarna. Það er unun að líta á þessa gömlu mynd frá 1934 og rifja upp andlit gömlu vinanna. Þormóður Eyjólfsson stjórnaði kórnum, bróðir Sigurðar Birkis. Þessa mynd skaltu virða fyrir þér. Þarna sérðu Aage Schiöth einsöngvara, Daníel Þórhallsson einsöngvara, Þorstein Hannesson núverandi tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins, Sófus Blöndal, feikilega góður bassi, bróðir Gunnlaugs málara. Svo er hérna heiðursmaður, hvar er hann nú blessaður kallinn, já, Jósep Blöndal, ljómandi bassi, Bjarni Kjartansson sem hafði vínbúðina. Hérna er hann Stebbi Baldvins, hrókur alls fagnaðar. Allir saman andskoti góðar raddir. Kristján Möller yfirlögregluþjónn, góður bartitónn, Páll Stefánsson, Alli Jónatans, alveg hörku bassi og hann Haraldur, hann var úr Svarfaðardalnum, en fenginn að láni í söngferðina. Svo var hann Aðalsteinn Jóhannsson skipstjóri, var lengi með Hrönn, feiknarlegur aflamaður, fórst á Faxaskeri. Nú, Gústi Þórðar, bróðir Jóns og þeirra, fínn tenór, Pétur Helga frá Tungu, Magnús Nordal, ég held að hann sé leigubílstjóri ennþá og Guðmundur Blöndal húsvörður hjá Morgunblaðinu. Þetta eru allt sómakarlar. Þegar Vísir hefur komið hingað á seinni árum hef ég æft gamla Vísisfélaga til að syngja á móti þeim í veislunni. Við Geirharður vorum einu sinni sæmdir lárviðarsveigum kórsins.
 

Kenndirðu ekki fyrir norðan?

Jú, seinustu fjögur til fimm árin sem ég var fyrir norðan kenndi ég í Gagnfræðaskólanum þarna. Ég kenndi söng það var reglulega gaman að kenna þessum krökkum. Ég reyndi alltaf að ná sambandi við þau og láta þau hafa ánægju af söngnáminu. Ég hef kennt krökkum á hljóðfæri síðan og börn eru heiðarlegustu og samviskusömustu manneskjur sem völ er á. En það má ekki leggja of mikið á þau. Það er svo hættulegt að setja þeim of mikið fyrir. Þau eru svo kappsöm að það getur haft hroðalegar afleiðingar. Kennurum hættir blátt áfram til að drepa músíkáhuga hjá börnum með því að æltast til of mikils af þeim. Sumir ganga með það í maganum að gera einhverja virtúósa úr þeim. Þetta er mesti misskilningur. Ef krakkinn hefur það í sér að vera snillingur kemur það fram sjálfkrafa. Ég lagði mest upp úr því að þau hefðu ánægju af söngnum og síðar hljóðfæraleiknum. Það voru tveir tímar í söng í einu og ef það var skíðaveður þá fórum við á skíði, inn í fjörð og þar sungum við. Voða gaman. Við héldum konsert á vorin. Ég lét þau syngja Schubert og hvaðeina. Þetta voru elskulegir krakkar og margir þeirra hafa náð langt á ýmsum sviðum. Bráðmúsíkalskir. Það var alveg dásamlegur tími þarna fyrir norðan, í allri fátæktinni.fátæktinni.

 

Þú talar um fátækt. Hrukku ekki sumartekjurnar nokkuð?

Jú, það er kannski ekki rétt að segja að þetta hafi verið fátækt, en þetta var leiðinda atvinnuástand. Algjör dauði að heita mátti yfir veturinn og svo þrælaði öll fjölskyldan meðan síldin var. Vitanlega þurfti fólk að slappa af eftir þrældóminn. En þetta var engu líkt. Maður fékk ýmsa sérsamninga fyrir ímynduð gæði – húsnæði, frítt rafmagn, kol og svoleiðis. Svo fór maður náttúrlega í síldina á sumrin, skrapp á plönin.

Hvenær lýkur Siglufjarðardvöl þinni?

Henni lýkur 1941. Þá fer ég suður og þá verða þáttaskil í lífi mínu. Ég byrjaði að spila á Hótel Birninum í Hafnarfirði.


 Takk Jónatan fyrir þessa skemmtilegu grein og myndir.

Texti og Myndir:
Jónatan Garðarsson

Fréttavinnsla:
NB


Athugasemdir

19.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst