Hvađ eru almannahagsmunir?

Hvađ eru almannahagsmunir? Eins og flestir vinir og ćttingjar vita ţá lést Palli, bróđir hennar Ólafar unnustu minnar, í flugslysinu á Akureyri mánudaginn

Fréttir

Hvađ eru almannahagsmunir?

Eins og flestir vinir og ættingjar vita þá lést Palli, bróðir hennar Ólafar unnustu minnar, í flugslysinu á Akureyri mánudaginn 5. ágúst síðastliðinn.

Það þarf ekki að taka það fram að það er ómetanlegt að hafa og vita af góðum ættingjum og vinum sem standa þétt við bakið á manni á svona stundum, sem eru einhverjar erfiðustu stundir lífsins og vil ég þakka þeim alveg sérstaklega vel fyrir.

Ég þarf samt sem áður nauðsynlega að koma skilaboðum til fólks og blaðamanna sem verða vitni að svona slysum og hugsanlega taka myndir eða myndbönd. Þegar ég fór inn á facebookið mitt sama dag og slysið varð sá ég strax á myndbandi eða myndböndum og myndum sem þar voru, að það hefði orðið flugslys á Akureyri og greinilega mjög alvarlegt. Eftir að ég sá þetta fór ég strax á fréttamiðlana og þar sá þar einnig myndir af slysinu. Ég persónulega kannaðist við eitthvað af þeim flugvélapörtum sem þar sáust, þó aðalega litasamsetningu vélarinnar og þá sérstaklega stél flugvélarinnar sem fórst.

Á þessum tímapunkti var unnusta mín að reyna að ná í bróður sinn í síma, síminn hringdi en var ekki svarað. Ég þorði ekki að segja að ég kannaðist við litasamsetningu vélarinnar og brotin úr vélinni. Ég vonaði að hann hefði ekki verið á vakt í sjúkrafluginu og að allir væru heilir sem í slysinu lentu. Móðir Ólafar náði sambandi við konu sonar síns og hún hafði ekki heyrt neitt, Palli var í sjúkraflugi. Það var eiginlega á þessum tímapunkti sem ég vissi innst inni að hann hafði verið í vélinni og ég óttaðist það versta en vonaði það besta. Þarna var ekki búið að hafa samband við konu Palla, systur hans, bræður móður eða aðra nákomna ættingja en það voru komnar myndir og myndbönd af slysinu inn á facebook og helstu fréttamiðla landsins. Þessir aðilar sem ég taldi upp eru öll á facebook eða hafa aðgang að facebook og hefðu líklega getað séð þetta þar eða á fréttamiðlunum. Ég tek það aftur fram að það var ekki búið að hafa samband við nánustu aðstandendur þeirra sem í slysinu voru.

Ég ætla ekki að fullyrða það hvar ég sá brotin úr vélinni sem ég kannaðist við en ég sá þau samt sem áður og þekkti flugvélarpartana sem á jörðinni voru. Annars er þessi mánudagur í nokkurs konar þoku.

Við förum strax af stað til Akureyrar og á leiðinni fáum við fregnir af því að það hafi komið á einhverjum fréttamiðli að þetta hafi verið sjúkraflugvél sem lenti í slysinu. Þá voru líkurnar á því að bróðir unnustu minnar hafi verið í vélinni mjög miklar og ég tek það aftur fram að það var ekki búið að hafa samband við nánustu ættingja þeirra sem í vélinni voru, við þurftum að leitast eftir því hvaða vél þetta var og hverjir voru í vélinni og hvort allir væru heilir.

Svo á miðri leið fáum við fréttir sem við trúðum ekki og trúum ekki ennþá og einfaldlega viljum ekki trúa.

Ef þú verður einhvern tímann vitni að slysi og hugsanlega tekur myndir eða myndbönd af því þá í guðs bænum ekki setja þær inn á samfélags miðla.

Ég er ekki að ásaka neinn og ég veit að sumt gerir fólk í fljótfærni og ákveðnu hugsunarleysi sem ég ætla ekki að skammast yfir, ég get sjálfur verið fljótfær og vitlaus eins og allir aðrir.

Hafðu það í huga að ef það verður slys og þú tekur myndir eða myndbönd af slysi þá eru ættingjar og vinir sem hugsanlega kannast við bíla, flugvélar, báta o.s.frv. eða eitthvað annað sem fyrir augu ber á myndum og myndböndum og hugsanlega gætir þú átt ættingja, vin, föður, móður,barn eða vini í því slysi.

Annað dæmi. Fyrir nokkru missti ég frænda minn og vin. Í litlu samfélagi eins og því sem ég bý í þekkja allir  alla. Á facebook sé ég ekkert nema krossa og ég var viss um það strax að ég þekkti einhvern sem var farinn. Ég vissi bara ekki þá að um nákominn frænda og vin væri að ræða. Ég fékk fréttir af því eftir að ég sá krossana á facebook.

Núna svo í byrjun árs 2014 byrjar svo upprifjun á þessu skelfilega flugslysi þar sem tveir menn létu lífið frá konum, börnum, fjölskyldu og vinum og annar slasaður á sál og líkama. Það byrjar með myndbirtingu af slysinu og svo kemur heilt myndskeið af slysinu. Ég get ekki með nokkru móti séð að það varði almannahagsmuni að sýna þetta myndskeið. Þeir sem hafa horft á þetta ættu að gera sér grein fyrir því að þeir hafi verið að horfa á slys þar sem tveir menn létu lífið og dóu frá fjölskyldum sínum. Þetta var ekki bíómynd.

Ég vill taka það skýrt fram að ég, líkt og svo margir aðrir  vill komast að því hvað gerðist í þessu hörmulega slysi.  Ég tel þó að til séu mun sérhæfari og fróðari menn en ég og sófasérfræðingarnir á kommentakerfunum, sem þurfa að sjá þetta myndskeið til þess að hægt sé að varpa ljósi á tildrög slyssins. Umræðan um að það þurfi að komast til botns í þessu máli, sem og öðrum málum, er þörf en ég sé ekki að það sé gott fyrir fólk, hvorki aðstandendur né aðra,að sjá svona myndbönd.

Svo sér maður myndbandinu deilt á facebook. Það eru næstum því allir fullorðnir á facebook, og börn líka.

Ég tek það skýrt fram að ég er ekki reiður þegar ég skrifa þetta en fólk þarf nauðsynlega að passa sig á því hvað það setur á facebook og aðra vefmiðla, hvort sem það eru myndir, myndbönd, krossar eða annað slíkt sem gefur til kynna að mannlegur harmleikur eins og slys eða fráfall einhvers hafi átt sér stað.

Ég krefst þess að siðanefnd blaðamannafélagsins taki myndbirtingar, myndbandabirtingar og umfjallanir um slys til athugunar, það er það sem varðar almannahagsmuni.

Virðingarfyllst

Jón Hrólfur Baldursson

 

 

 


Athugasemdir

08.desember 2022

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst