Kindur á Hvanneyrarbrautinni

Kindur á Hvanneyrarbrautinni Þessi mynd er tekin á Hvanneyrarbrautinni á Siglufirði í morgun kl. 7.oo. 

Fréttir

Kindur á Hvanneyrarbrautinni

Þessi mynd er tekin á Hvanneyrarbrautinni á Siglufirði í morgun kl. 7.oo. 

Þegar sundlaugargestur kom akandi eftir götunni kom styggð að fénu þar sem það var að gæða sér á blómjurtum í garði við Hvanneyrarána. Í fjárhópnum voru 25 kindur, sem runnu norður Hvanneyrarbrautina og niður með nyrsta verkamannabústaðnum. Þegar sundlaugargesturinn sneri bílnum við komu 6 kindur til viðbótar skokkandi neðan við Sjúkrahúsið, og hefur beitiland þeirra sennilega verið vel hirtir garðar við Hlíðarveg. Þetta ástand í bænum í morgun minnti óþægilega á það sem var hér á árunum milli 1970 og 1980, en þá var nánast styrjaldarástand í bænum á hverjum morgni þegar „túlípanamóra“ hafði eyðilagt garða og skilið eftir sig ummerki við húsdyr.

Á þessum árum þurfti að smala bæinn á hverjum morgni, þrátt fyrir að umhverfis hann var fjárgirðing, sem kostaði milljónatugi að endurreisa á hverju vori.

Það sýndi sig þá að það er vonlaust að halda fé frá bænum með girðingu.

Þessu ástandi lauk upp úr 1980, þegar rolluhald var bannað að mestu í bæjarlandinu. Þá var unnt að fjarlægja bæjargirðinguna og þær fjárgirðingar, sem húseigendur höfðu komið sér upp umhverfis lóðir sínar.

Nú eru uppi áform bæjaryfirvalda um að leyfa aftur rollubúskap í bæjarlandinu og að leggja í milljónatuga kostnað við að koma upp gagnslausri fjárgirðingu umhverfis bæinn. Heyrst hefur að ætlað sé að reyna að stytta girðinguna með því að nota snjóflóðagarðana að hluta. Garðarnir og umhverfi þeirra eru útivistarsvæði, sem forljót fjárgirðing mun skemma, og jafnframt hefta för gangandi fólks.

Barátta bæjarbúa skilaði árangri fyrir 30 árum, en þá var erfiðara að fást við málið þar sem bæjarfulltrúar og lögreglumenn voru jafnframt fjáreigendur. Það er sorglegt að heyra að nú eigi að eyðileggja það sem þá vannst.

Aðstæður hér í Siglufirði eru að því leyti öðruvísi en í Ólafsfirði, að hér á Fjallabyggð nær allt land innan fjarðarins, og þeir aðrir sem eiga land stunda ekki fjárbúskap.

„Lög um fjallskil og fleira“, sem fjalla um búfjárhald, gefa landeigendum ýmis úrræði til að losna við ágangsfé, og tel ég að bæjaryfirvöld eigi frekar að nota þau meðul, en að leggja á bæjarbúa þann ófögnuð og kostnað, sem fylgir rolluhaldi.

 

 

Með bestu kveðju

Þorsteinn Jóhannesson


Athugasemdir

02.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst