Röng forgangsröðun bæjaryfirvalda

Röng forgangsröðun bæjaryfirvalda Þegar ákveðið var að sameina sveitarfélögin tvö við utanverðan Eyjafjörð þá var megintilgangurinn sá að ná fram

Fréttir

Röng forgangsröðun bæjaryfirvalda

 Guðjón M. Ólafsson
Guðjón M. Ólafsson
Þegar ákveðið var að sameina sveitarfélögin tvö við utanverðan Eyjafjörð þá var megintilgangurinn sá að ná fram hagræðingu í rekstri, m.a. með því að minnka yfirbyggingu og þannig tryggja framboð á ákveðinni grunnþjónustu. Sveitarfélög eru ekki sameinuð í öðrum tilgangi en að tryggja íbúunum þjónustu sem þeim ber skylda samkvæmt lögum að veita. Þegar sameining á sér stað þá verður því oft og tíðum að taka erfiðar ákvarðanir sem því miður fela það í sér að fólk missir vinnuna.
Ég ætla ekki að leggjast í eitthvert lýðskrum og segja að hægt sé að sameina sveitarfélög án þess að nokkur maður missi vinnuna, fjarri því. Það er aftur á móti ekki sama hvernig hinar óhjákvæmilegu hagræðingaraðgerðir eru útfærðar.



Nokkuð hefur borið á óánægju starfsmanna áhaldahússins á Siglufirði vegna þess að þar stendur til að fækka starfsmönnum. Sömuleiðis stendur fyrir dyrum mikil hagræðing innan skólakerfisins í Fjallabyggð.  Innan þessara sviða þarf að hagræða og aðlaga reksturinn að breyttum veruleika og þörfum, því ætla ég ekki að mótmæla. Það er samt ákveðin mótsögn fólgin í því að byrja á að hagræða á þjónustuhliðinni án þess að horfa samtímis á stjórnunarhliðina. Ein grundvallarreglan í opinberri stjórnsýslu er að samsvörun sé á milli stjórnunar- og þjónustuþátta, enda lítill ávinningur í að vera með mannfrekt stjórnunarteymi ef þjónustusviðið krefst þess beinlínis ekki. Því væri nær að skoða æðsta stjórnkerfi sveitarfélagsins.



Frá því að núverandi meirihluti tók við völdum hefur æðsta stjórnsýsla sveitarfélagsins gert fátt annað en að þenjast út og þá einna helst í formi þess að hver millistjórnandinn hefur verið ráðinn á fætur öðrum. Fólk virðist greinilega trúa því að með hinni svokölluðu „stjóravæðingu“, þ.e.a.s. með því að stjórna nógu mikið með nógu mörgum stjórnendum, þá fáist hvort tveggja, betri nýting fjármuna og aukin gæði þjónustu. Það er hins vegar þannig að fjöldi millistjórnenda hefur lítið sem ekkert að gera með gæði þjónustunnar sem veitt er. Millistjórnendur kosta fjármuni og þeir skapa tiltölulega lítil verðmæti, eða þjónustu líkt og í tilfelli sveitarfélaga. Þess vegna er mikilvægt að gæta þess vandlega að fjöldi þeirri sé í samræmi við þarfir sveitarfélagsins hverju sinni. Í þessum efnum hefur meirihlutinn í Fjallabyggð því miður sofið á verðinum og þess vegna verða „vandamálin“ sem skapast vegna sameiningarinnar stærri og erfiðari viðfangs en ella. Án þess að ég ætli að gera lítið úr millistjórnendum því vissulega eru þeir nauðsynlegir og skila mikilvægu hlutverki en fjöldi þeirra verður aftur á móti að vera í samræmi við þarfir sveitarfélagsins. Í tilfelli Fjallabyggðar telst mér til að æðsta stjórnsýsla bæjarins telji ríflega 20 starfsmenn og því er hér nokkurt ráðrúm til hagræðingar.


Ég ætla að ekki að gera lítið úr því mikla verkefni sem bæjaryfirvöld standa nú frammi fyrir, þ.e. að klára sameininguna. En það að ætla sér að ganga til verka með þeim hætti að byrja á því að fækka starfsmönnum áhaldahússins og kennurum án þess að flysja mörinn af æðstu stjórnsýslunni er blátt áfram skammarlegt og engum manni til sóma. Enn fremur mætti draga úr útgjöldum til gæluverkefna sem þrátt fyrir góðan ásetning geta aldrei orðið annað en skammarstrik þegar litið verður um öxl (hér á ég að sjálfsögðu við hina svokölluðu skútukeppni Siglfirðinga og undirbúning við sundlaugargarð Ólafsfirðinga, sem líklega fara í sögubækurnar sem einhver mesta sóun á almannafé í sögu þessa sveitarfélags, hlutfallslega séð í það minnsta.) Vissulega er hægt að hagræða t.a.m. í rekstri áhaldahússins, og það sérstaklega á Siglufirði, en það að byrja á því að níðast á þeim sem veita þjónustuna, án þess að huga að stjórnendum, er leið sem hvorki er líkleg til sátta né árangurs.

Guðjón M. Ólafsson

Athugasemdir

17.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst