Spjallađ viđ burtfluttan Siglfirđing – Harald Gunnar Hjálmarsson

Spjallađ viđ burtfluttan Siglfirđing – Harald Gunnar Hjálmarsson Ţeir Birgir Ingimars og Leó R. Ólason skrifuđu frábćra pistla á sigló.is fyrir ríflega

Fréttir

Spjallađ viđ burtfluttan Siglfirđing – Harald Gunnar Hjálmarsson

Halli Gunni. Ljósmyndari: BI
Halli Gunni. Ljósmyndari: BI

Þegar ég kom að Hamrahlíð númer 17 þar sem hinn væntanlegi viðmælandi býr, ýtti ég á dyrabjölluhnappinn sem var merktur Haraldur Gunnar Hjálmarsson. 

Það heyrðust miklir skruðningar í hátalara dyrasímans, en í gegn um hann barst mér til eyrna kunnugleg rödd. “Þú gengur beint inn, tekur stigann eða lyftuna upp á 3. hæð og ferð til hægri, inn ganginn, svo aftur til hægri og ég verð í dyrunum.

Ég fylgdi þessum leiðbeiningum og eftir skamma stund heilsaði ég Halla Gunna sem mér sýndist hlusta frekar eftir fótataki mínu nálgast, í stað þess að horfa eftir ganginum eins og flestir aðrir myndu hafa gert.

Snemma beygist krókurinn.

Ég þekkti Halla Gunna ágætlega þegar við vorum unglingar, við áttum svolitla samleið og hann kom stundum í heimsókn til mín þegar ég var nýbúinn að eignast fyrsta rafmagnsorgelið mitt. Ég kveikti þá gjarnan á því, en dró mig jafnframt í hlé og lét honum eftir að spila. Ef einhver heyrði á leik hans og héldi að þarna væri ég í góðum fíling, gat ég alveg reiknað með að þá fengi ég prik sem ég ætti reyndar ekki skilið. En til að friðmælast við sjálfan mig, velti ég því fyrir mér hvort mér bæri einhver skylda að leiðrétta slíkar hugsanir annarra.

 

Skroppið út á fjörð – Ljósmynd Júlíus Jónsson/Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Það var vorið 1969 sem fermingarárgangurinn fór í heilmikið ferðalag inn í Eyjafjörð. Þar hittum við jafnaldra okkar úr öðrum sóknum af Stór-Eyjafjarðarsvæðinu og það var efnt til mikillar samkomu í félagsheimilinu Laugaborg við Hrafnagil. Þar héldu lærðir menn og leikir ágætar og uppbyggjandi tölur yfir okkur krökkunum, sem nýlega höfðum unnið fermingarheitin okkar og fengið fyrir bæn og blessun (og auðvitað einhverjar fermingargjafir líka.)

Kirkjuorganisti sem þarna var staddur, settist við píanóið og spilaði undir fjöldasöng og það var ágætlega tekið undir. Ekki var þó neitt efni á dagskránni sem var beinlínis ætlað til skemmtunnar, eða boðið upp á neitt sem flokkast gat undir afþreyingu af einhverju tagi. Það leið því ekki á löngu þar til salurinn var orðinn svolítið ókyrr og mikið skvaldur yfirgnæfði flest það sem sagt var á sviðinu. Ég man að þegar líða tók á kvöldið, pískruðu einhverjir prestar og kennarar eitthvað saman og Halli Gunni var í framhaldinu kynntur sem númer. Hann fetaði sig upp að sviðinu ásamt aðstoðarmanni, en leiðin var eiginlega eins löng og hún gat verið. Siglfirski hópurinn var nefnilega aftast í salnum, sem var auk þess mjög þétt setinn. Að lokum var okkar maður kominn alla leið og sestur við hljóðfærið, en án þess þó að fá nokkra athygli skvaldrandi krakkaskarans. En þegar fyrstu tónarnir hljómuðu og fingurnir tóku létt dansspor um lyklaborðið, var engu líkara en þar færi galdradrengur sem magnaði upp einhvern framandi og töfrandi seið. Allt datt í dúnalogn og hvert eitt og einasta auga í salnum fylgdist vel með hinum kornunga og upprennandi tónlistamanni leika hvert lagið á fætur öðru.

Það var auðvitað heilmikið klappað og stappað eftir hvert einasta lag, en þess á milli liðu píanótónarnir ljúflega um salarkynnin og fönguðu athygli allra viðstaddra. Þegar Halli Gunni tók svo Bítlalagið Ob-la-di, ob-la-da sem var vinsælasta lagið í heiminnum um þetta leyti, ætlaði allt hreinlega að verða snarvitlaust. Við Siglfirðingarnir vorum vægast sagt ákaflega stoltir af okkar manni sem var sannkölluð stórstjarna fermingarbarnamótsins. Síðan eru liðin mörg, mörg ár, en þessi skemmtilega uppákoma sendur kyrfilega upp úr í minningunni um þessa ferð, þó flest annað sem í henni gerðist hafi fljótlega umbreyst í þokukenndar minningar.


Á rúntinum á Austin drossíunni.

Í framhaldi af ofanrituðu langar mig að rifja það upp að þegar Halli Gunni var sjö eða átta ára, hélt móðir hans málverkasýningu í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut til að safna fyrir píanói fyrir hann. Bæði var að myndirnar voru auðvitað frábærar og bæjarbúar vildu sýna stuðning sinn í verki, en hver einasta mynd seldist og draumurinn um slaghörpuna rættist í kjölfarið.

En við félagarnir tylltum okkur niður, eftir svolítinn kaffisopa hófum við spjallið

Bræðurnir Halli Gunni. Tóti og Stebbi.

Ég er fæddur á Siglufirði árið 1955 og elstur þriggja bræðra. Hinir eru Þórarinn fæddur 1959, en hann starfar sem flugstjóri hjá Icelandair ásamt því að þjálfa nýja flugmenn. Stefán er fæddur 1963, en hann er svæfinga og gjörgæslulæknir á Borgarspítalanum. Halla Haraldsdóttir móðir mín er systir Matta Haralds sem býr enn á Siglufirði og Sillu Haralds sem býr í Reykjavík. Hjálmar Stefánsson faðir minn er svo bróðir Friðleifs tannlæknis og Siggu sem búa í Reykjavík og Þrastar sem býr á Skaganum.


Bræðurnir tíu, tveggja og sex ára.

Ég byrjaði nokkuð seint að fikta við að spila, en þegar það byrjaði þá gerðust hlutirnir mjög hratt. Fyrsti neistinn sem kveikti bálið sem hefur logað alla tíð, var Bítlalagið “Only a Northern song” sem er reyndar eftir Harrison. Ég veit ekki hvað þetta lag hafði við sig það sem önnur lög höfðu ekki, en ég kolféll fyrir því og hef verið ólæknandi allar götur síðan. Fyrsta skiptið sem ég spila svo opinberlega var að mig minnir eitthvað á vegum barnaskólans heima á Siglufirði, en Lúðrasveit Siglufjarðar hafði líka einhverja aðkomu að málinu. Líklega hefur þetta verið tólf ára skemmtunin sem var alltaf haldin áður en við færðum okkur úr barnaskólanum á eyrinni og upp í Gaggann á Hlíðarveginum. Ég spilaði bæði í hljómsveit þarna með Hlyn kennara og Bigga Inga sem einnig var að koma fram í fyrsta skipti sem trommari, en líka einn á píanó.

Halli Gunni með foreldrum sínum Höllu og Hjálmari sem eru þarna rúmlega tvítug.

Þegar ég var ungur drengur á Siglufirði vann pabbi á bílaverkstæðinu Neista, en síðar á Kaupfélagsskrifstofunni. Þegar ég var 14 ára fluttum við frá Siglufirði og til Danmerkur, en þá fór hann að keyra olíuflutningabíl fyrir Dansk Esso.

Fyrstu eina eða tvær vikunar bjuggu foreldrar mínir í tjaldi nálægt skólanum sem ég gekk í, eða á meðan þau voru að leita sér að húsnæði. Þetta var í ágústmánuði svo það var auðvitað allt í lagi með veðurfar og þess háttar, en samt var þetta svolítð skrýtið. Þau bjuggu svo ytra í tvö ár eða þangað til ég var farinn að verða sjálfbjarga um flestalla hluti þarna, en fluttu þá heim aftur og settust að í Keflavík.

Á skólabalanum.

Ég bjó í Danmörku í heil 33 ár og kom heim árið 2002. Fljótlega eftir að ég fluttist þangað, lærði ég píanóstillingar og starfaði síðan talsvert við það. Þegar ég fór út var aðbúnaður og kerfið allt ekki nærri því orðið eins gott og það seinna varð, en þegar ég kem svo heim var orðin mikil breyting þar á. Ég held að það megi þakka bræðrunum Arnþóri og Gísla heilmikið fyrir hvað hefur áunnist, því þeir eru miklir baráttugaurar. Þeir eiga t.d. talsverðan þátt í að þróa hljóðbókina í þá veru sem við þekkjum hana í dag og hún gagnast orðið miklu fleirum en bara blindum og illa sjáandi. Nú geta allir haft ágæt not af henni og sennilega er stærsti neytendahópurinn skokkararar og göngufólk.

Maddi Jóhanns, Halli Gunni, Haraldur afi og Tóti.

Árið 1973 eða 74 var gefin út hljómplata sem fékk nafnið “Keflavík í poppskurn” og ég átti eitt lag á henni. Það hét “Ég man” og var svolítið spilað heima á Íslandi um tíma. Ég bjó þá enn úti, en mamma og pabbi voru nýlega flutt til Keflavíkur. Ég kom þangað í stutt frí og lagið var þá tekið upp. Þetta var nú ekkert stórt ævintýri, en ég fékk samt nokkra þúsundkalla í höfundarlaun í nokkur ár.

Úti í slabbi og slyddu.

Í Danmörku fór ég fljótlega að spila og var um tíma í reggiehljómsveit. Meðspilararnir voru gríðarlega klárir músíkantar og kunnu alveg á þessa svolítið skökku reggiesveiflu. Bassaleikarinn var með hina sérstöku tónaröð svo og nótnapásurnar sem einkenna bassalínu þessarar tónlistarstefnu alveg á hreinu. Einu sinni spiluðum við í veislu sem er líklega ein sú allra sérstakasta sem ég hef orðið vitni að. Staðurinn hét Månefiskaren og er rétt hjá Kristjaníu, þeim fræga stað. Salurinn var til dæmis alveg saga út af fyrir sig. Í honum miðjum var tjörn sem kastarar lýstu upp, en ofan í henni syntu eldrauðir og mjög skrautlegir fiskar. Það voru hjón sem höfðu lengi verið viðloðandi Danska tískugeirann, sem voru að halda þarna eins konar kveðjuveislu fyrir sig. Þau ætluðu sér að dvelja næstu árin í New York og stefndu því vinum sínum og fullt af tískufólki saman í þetta risapartý. Fólkið sem mætti þarna var hins vegar eins ósamstætt og hugsast gat. Þarna voru fjölmargir í litríkum mussum og með hippabönd, aðrir í einhverjum tötrum og mjög ræfilslegir til fara, en stór hluti gestanna var í smóking af dýrustu gerð. Þetta var hreint ótrúlega skrautleg samkoma, en jafnframt mjög skemmtileg og allir virtust virða fatasmekk hvers annars alveg í botn.

Þetta reggieband gekk mjög vel í þó nokkuð langan tíma, en svo fór að síga á ógæfuhliðina og það bara nokkuð hratt. Nokkrar meðlimirnir ánetjuðust alls konar ólyfjan meira og meira. Það endaði auðvitað með því að það fór allt í hund og kött, þeir urðu alveg kolruglaðir og við áttum því enga samleið lengur. Þeir hafa sennilega tekið hann Bob heitinn Marley einum of bókstaflega. Við fórum samt í stúdíó og héldum þar til í eina fjóra daga. Eitthvað var tekið upp þar, en ég veit því miður ekkert hvað hefur orðið af þeim upptökum. Líklega hefur það ekki verið svo merkilegt því helmingurinn af græjunum í þessu hljóðveri var bilaður og virkaði alls ekki.


Halli Gunni og líklega börn Jóns Dýrfjörð, hugsanlega er þetta Helena sem er í miðjunni.

Árið 1986 átti ég í svolitlu samstarfi við danskan mann sem heitir Charles Gade. Hann hafði búið lengi í Færeyjum og var að undirbúa útgáfu á eigin efni þar. Við tókum upp nokkur lög, en það snéri flest öfugt fyrir mér miðað við það sem ég hafði vanist. Hann spilaði á hljómborð, en ég á gítar og bassa í nokkrum lögum auk þess að syngja tvö þeirra. Afraksturinn kom svo út á kassettu árið eftir sem hét “Jorden er en smuk planet,” en útgáfa á kassettum virkaði alveg í Færeyjum þó hún gerði það aldrei almennilega á Íslandi. Annað lagið sem ég söng varð mjög vinsælt þar, en það heitir “I know I have to listen.” Það var svo endurútgefið á geisladisk sem innihélt vinsæl Færeysk lög u.þ.b. áratug síðar, en hann hefur eitthvað sést í íslenskum plötubúðum.

Úti í Danmörku.

Svo spilaði ég með rosalega góðu átta manna bandi, en hljómsveitarstjórinn í því var blindur lögfræðingur. Hann var líka meðeigandi í hljóðveri og við æfðum oftast þar. Það var rosalega gott því þar var firnagóður hljómburður og við heyrðum alveg ótrúlega skýrt hver í öðrum. Bandið var mjög vel spilandi, það var verulega gott skipulag á öllum hlutum og þarna var ekkert sukk. Við spiluðum mikið í stórum veislum í húsakynnum þar sem var gert út á formúlu sem þekkist ágætlega hér á klakanum. Fyrst er hópurinn í lokaðri veislu fram eftir kvöldinu, en svo er húsið opnað fyrir gestum og gangandi þegar líður á. Við völdum lögin á prógrammið þannig að þar væru melódíur sem svo gott sem allir þekktu, en það mátti samt ekki vera búið að ofspila þau í gegn um tíðina. Við vorum fimm sem spiluðum, ég var oftast á hljómborð en tók stundum bassann þegar bassaleikarinn fór yfir á gítar. Þarna var bæði trommuleikari og slagverksleikari og svo var annar gítarleikari. Einnig voru með okkur þrjár söngkonur sem sungu allar geysivel og það var mikið raddað. Þær voru eiginlega eins og svolítið dönsk útgáfa af Andrewsystrum eða Borgardætrum.

Innganga mín í bandið var líka svolítið sérstök. Það var nú kannski ekki alveg klárt hvort þetta væri einhvers konar prufa, en ég vonaði að ég stæði undir væntingum. Fyrsta lagið sem ég æfði með þeim var “Changes of fool” sem Areta Franklin söng á sínum tíma. Lagið átti að vera gríðarlega mikið soul blandið hjá okkur og ég átti að spila á clavinett svolítið framarlega í mixinu. Ég hafði þá einhverjum misserum áður stillt nokkur slík hljóðfæri og vissi því pínulítið hvernig átti að hantera þau. Svo hafði ég líka mikið verið að hlusta á og stúdera Steve Wonder, en hann notaði clavinettið mikið. Þessar clavinettstillingar og Steve Wonder pælingar skiluðu sér þarna fljótt og vel, því eftir að við vorum búnir að fara yfir þetta fyrsta lag á fyrstu æfingunni var ég orðinn fastráðinn og fullgildur meðlimur.

En nafnið á hljómsveitinni er líka alveg sérstök saga. Bandið hét Fester Kester og hljómsveitasrstjórinn var líka oft kallaður Kester þó hann héti allt annað. Hann var áður með band sem hét Kester, en það sendi frá sér tvær plötur með þekktum ábreiðulögum í eins konar grínútsetningum. Ég man að önnur þessara platna hét “Udsadt før Kester” og gekk nokkuð vel. Þetta er reyndar allt saman svolítill orðaleikur því Kester er bara seinni hlutinn af orðinu orkester.

Halli Gunni og Birgir spila saman á 50 ára “reunioni” á Sigló 2006.

Ég spilaði reyndar með miklu fleiri hljómsveitum í mislangan tíma og stundum fyllti ég í skörð ef einhver forfallaðist. Undir húsnæðinu þar sem ég lærði píanóstillingarnar, var kjallari og þar æfðu nokkrar hljómsveitir. Ég spilaði þar með hljómsveit sem var aðallega á norrænum þjóðlaganótum, en einnig tónlist sem ættuð var frá austur Evrópu. Þá var hljóðfæraskipanin yfirleitt talsvert öðruvísi, það voru mikið notaðar fiðlur, flautur og harmonika, en ég spilaði þá oftast á kassagítar. Við spiluðum oft á þjóðdansakvöldum og það var voðalega gaman. Þetta samstarf stóð meira og minna yfir í áratug eða svo, að vísu með einhverjum hléum, en það kveikti áhuga minn á þjóðlagatónlist.

Ég fór á Þjóðlagahátíð á Siglufirði fyrir 5 eða 6 árum og það var rosalega skemmtilegt. Það sem mér fannst standa upp úr á hátíðinni var stelpa frá Svíþjóð sem spilaði eins og meistari englanna á fagott. Vá, hvað hún var rosalega fær. Mig þrællangar að fara norður aftur á þessa hátíð sem að mínu mati er mjög vanmetin.

Svo var eitt bandið enn sem ég æfði með þarna í kjallaranum, en í því spilaði ég á kontrabassa. Ég fékk alveg ógurlegar blöðrur á puttana til að byrja með en það lagaðist nú allt. Við notuðumst lítið sem ekkert við rafmagnshljóðfæri, heldur var þetta eiginlega alveg acoustick allt saman. Þarna var gaur sem spilaði mjög vel á píanó og annar á harmonikku, en sá drengur var líka alveg frábær hljómborðsleikari. Hann var alveg blindur en samt hreint ótrúlega mikill leikari, húmoristi út í eitt og alltaf jafn svakalega skemmtilegur. En hann lifði lífinu bæði lifandi, hratt og tók verulega á því eins og sagt er. Eitt af því sem hann gerði var að fá sér svolítið stóra og marga sopa og hann gerði það býsna oft. En það eyðist allt sem af er tekið, hann fékk kröftugt heilablóðfall og lamaðist alveg vinstra megin. Ég var svo á leiðinni að heimsækja hann á stofnunina þar sem hann dvaldi, en þá fékk hann annað heilablóðfallið og var þá allur. Blessuð sé minning hans, þetta var einn af þessum fágætu og yndislegu drengjum.

Halli Gunni ásamt hinni dönsku vinkonu sinni og blindrahundinum hennar.

Ég eignaðist mjög góða vinkonu í Danmörku, en hún hafði misst sjónina aðeins 17 ára gömul. Fyrir utan að spila alveg listavel á flautu var hún lærður vefari. Þrátt fyrir að vera orðin blind, hélt hún áfran að vefa m.a. litrík veggteppi sem er auðvitað alveg ótrúlegt. Svo var hún líka alveg frábær kokkur og kenndi mér það sem ég þó kann á því sviði. Einu sinni var hún leiðsögumaður pabba þarna í borginni og sagði honum m.a. að beygja til hægri, fara undir brúna og síðan til vinstri og stoppa svo við búðina þarna. Hann skildi ekki alveg hvernig þetta var hægt, en hún hafði ótrúlega gott sjónminni og mundi leiðina frá því áður en hún varð blind.

Samband okkar stóð fram yfir aldamótin síðustu, en þá lést hún langt fyrir aldur fram. Fljótlega eftir það fór ég að hugsa mér til hreyfings sem endaði að lokum með því að ég flutti aftur heim.

Fjölskyldan í Keflavík.

Ég komst í ágæt kynni við Rúnna Júll meðan ég bjó úti og passaði reyndar upp á flygilinn í Geimsteini. Ég kom heim í frí tvisvar á ári og stillti þá alltaf hljóðfærið, það var einu sinni um sumarið og svo aftur um jólin. Að læra píanóstillingar var þriggja ára nám og raunar miklu meiri skóli og meira mál en flestir gera sér í hugarlund. Það er víst ekki nóg að eiga einhvern lykil sem passar á strekkjarana, hafa þokkalegt tóneyra og tónmæli upp á vasann.

Fyrir mig var að vísu langfljótlegast að nota bara eyrað, en það getur verið svolítið snúið að stilla allt heila klabbið ýmist jafn hreint, eða jafn skakkt í allar áttir, eftir því sem við á í hverju tilfelli. Öll tónasambönd eru sett upp eins og hringur og í þessum hring eru skekkjur með ákveðnu millibili. Ef fimmundahringurinn er skoðaður sést að á þessum tólf tónum sem mynda áttund verða að vera skekkjur, því ákveðin tónbil ganga ekki upp að öðrum kosti svona talnalega séð. Ég er þó að mestu hættur að stilla nú orðið og það er kannski af því að ég er ekki mjög mikill viðgerðarmaður. Það eru engin vandræði með tóninn og heyrnina, en nokkuð er um að alls konar óþekktir aðilar hafi verið að flytja inn píanó, þeim er síðan breytt og smíðaðar í þau einhverjar viðbætur. Oft hefur verið sett inn í þau það sem kallað er motoratolistar, en það eru m.a. borðar og filt sem er komið fyrir milli hamra og strengja. Þetta eru eins konar hljóðdeyfar sem eins og fleira svipað dót sem er ekki orginal, getur komið mönnum eins og mér í stórvandræði. Þegar ég kom heim tók ég þá ákvörðun að hætta að stilla og snúa mér frekar meira að því að spila, þó að launin fyrir það séu ekki mikil. Eitt af því sem ég er að gera í dag er að fara á dagvistanir fyrir aldraða og alzheimersjúklinga þar sem ég spila m.a. undir fjöldasöng. Það hefur víst verið fundið út að slíkt hefur mjög jákvæð áhrif og seinkar jafnvel alzheimerferlinu.

Ég á til þó nokkuð af lögum og hefur oft langað mikið til að taka eitthvað af þeim upp. Ég á meira segja til öll hljóðfæri sem ég myndi vilja nota, hljómborð, gítar, kassagítar o.fl. og ég get spilað á þau öll. Þegar einn maður gerir allt, þ.e.a.s. spilar á öll hljóðfæri og syngur líka, verða til einhverjir öðruvísi víbrar. Sumum finnst þeir mynda skemmtilegan karakter, en öðrum finnst þessi leið vera aflfeit. Ég tilheyri líklega fyrrnefnda hópnum.

Bekkjarsystkinin Helga Skúla, Sigrún, Halli, Jóa Ingimars og Anna.

Ég hef annars komið frekar litlu frá mér af því efni sem ég hef sett saman, en það gerðist þó fyrir fjórum eða fimm árum að eitt lag rataði svolítið óvænt á disk. Þá frétti ég af samnorrænni lagakeppni sem var að fara í gang, en í kjölfar hennar áttu síðan tvö lög frá hverju landi að koma út á diski. Þetta skemmtilega framtak var á vegum Samtaka blindra og sjónskertra á norðurlöndunum. En það var orðið svo stutt í keppnina þegar ég vissi af henni, að ég afskrifaði strax hugsanlega þáttöku þó mig langaði mikið til að vera með. Ég frétti nefnilega ekki af henni fyrr en tveimur dögum áður en skilafrestur laganna rann út, svo þetta var því tæplega inni í myndinni. Þá höfðu mamma og Kristbjörg frænka mín eitthvað veður af þessu og þær hvöttu mig mjög til að senda lag þarna út. Samtökin hérna fengu þá viku aukafrest fyrir mig og það var farið í að vinna mjög hratt í málinu.

Kittý var mjög ákveðin og sagði við mig að hún væri tilbúin með textann og bætti svo við; þú ferð svo út með lagið. Kristbjörg sem er dóttir Madda Jóhanns og Sillu móðursystur minnar gerði sem sagt textann og það lagið heitir “Opnaðu augu mín”. Og þó að titillinn bendi kannski til þess, þá fjallar hann alls ekkert um að vera blindur eða sjónskertur, heldur er þar leitast við að svara fjölmörgum áleitnum spurningum um lífið og tilveruna. Lagið var að mestu tekið upp í Hljóðrita af Atla Ingólfssyni, ég spilaði þar á hljómborð, kassagítar og bassa, en svo var svo farið með afraksturinn til Gunnars Þórðarsonar sem spilaði inn þennan fína rafgítar. Ef satt skal segja þá var ég ekkert endilega viss um að lagið kæmist inn í sjálfa keppnina, en það gerðist nú samt. Þegar hún var svo haldin nokkru síðar, lenti ég í öðru sæti og var auðvitað mjög kátur með það.

Vinabandið auglýst á Breiðholtshátíð.

Vinabandið er eins og nafnið ber með sér mjög vinalegt band, en þar er ég eiginlega unglingurinn í hópnum. Þetta er sex og stundum allt upp í átta manna hljómsveit, en fjöldinn getur verið svolítið breytilegur. Kjarninn samanstendur af hjónunum Adda sem er nikkari og Ingu sem spilar á trommur. Þorgrímur spilar á munnhörpu og ég á píanóið. Jón Hilmar hefur svo stundum líka spilað á harmonikku og sungið svolítið. Svo eru þrjár söngkonur þarna líka, þó þær séu ekki alveg á svipuðum nótum og þær þrjár sem voru í Danmörku.

Vinabandið á sviði.

Vinabandið var orðið átta ára gamalt þegar ég fór að spila með því. Það varð til að mér skilst vegna hvatningar Guðrúnar nokkurrar, en hún tengist ýmis konar menningarstarfsemi í Gerðubergi. Hún er oftast nefnd Guðrún í Gerðubergi eða jafnvel Gerðubergsmamman og það má jafnvel alveg segja á að hún hafi verið einn aðalstofnandinn. Það hefur alla tíð verið spilað mikið á alls konar stofnunum, mikið fyrir eldri borgara og auðvitað hér og þar og alls staðar eins og gengur. Vinabandið var einmitt að spila í salnum hérna í húsinu þegar ég átti mína fyrstu aðkomu að því. Þá hafði Sigmundur nokkur Júlíusson lengst af verið að spila á píanó, en var þarna nýlega hættur. Einhver spurði mig þá hvort ég vildi ekki setjast við píanóið og taka með þeim nokkur lög. Ég var auðvitað alveg til í það og þau voru það líka. Eftir þrjú eða fjögur lög sagði Addi svo við mig; “þú verður bara einn af oss” og þar með var það afráðið. Síðan hef ég spilað með Vinabandinu.

Halli Gunni heima í Hamrahlíðinni í des. 2010.

Það var farið að líða að miðnætti og kominn heimferðartími, við þökkuðum Halla Gunna kærlega fyrir kaffið og jólanammið sem hann bauð okkur upp á. Ég laumaðist svo í nammiskálina á leiðinni út og náði mér í risastóran súkkulaðimola í nestið.


Listakonan Halla Haraldsdóttir móðir Halla á vinnustofu sinni í Garðabæ.

 

 

Systkinin Halla, Matti og Silla.

Foreldrar Halla Gunna, þau Halla og Hjálmar að heimili sínu.

 

Texti: Leó R. Ólason.

Myndir: Birgir Ingimarsson.


Athugasemdir

08.desember 2022

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst