Gömul frétt um fálka

Gömul frétt um fálka Nú á haustdögum var ég (ÖK) uppi í Skálarhlíđ ađ lesa úr bók minni fyrir nokkra íbúa ţar. Ţegar ég kvaddi, rétti Nonni Fönsu mér

Fréttir

Gömul frétt um fálka

Nú á haustdögum var ég (ÖK) uppi í Skálarhlíð að lesa úr bók minni fyrir nokkra íbúa þar. Þegar ég kvaddi, rétti Nonni Fönsu mér ljósmynd af manni með fálka á öxl sér. Jonni málari, faðir Nonna, hafði átt hana.  Ég sá strax að þessa mynd hefði pabbi, Kristfinnur myndasmiður, tekið á myndastofunni sinni. Hafði ekki séð hana áður en kannaðist við aðrar sambærilegar myndir þar sem þrír sjóarar sitja við borð og fálki á milli þeirra. Þeir höfðu komið beint af skipsfjöl með fuglinn sem þeir höfðu fangað úti á hafi og fengið myndatöku. Man ekki eftir annarri slíkri íslenskri ljósmynd. Og það er eitthvað við hana sem vekur áhuga. Hörkuleg einbeiting fuglsins, mildur svipur mannsins?

fálki
Ég kannaðist við hann, hafði hitt hann einu sinni. Hann hét Gísli Sigurðsson og bjó á Siglufirði ásamt fjölskyldu sinni um og eftir 1950. Bróðir Jóa bö. Ég hafði samband við son hans Jóhann Geirdal, skólastjóra í Keflavík, og spurði hvort hann myndi eftir fálkanum. Jóhann segir svo frá:

„Það var, eftir því sem ég kemst næst, árið 1950 sem faðir minn Gísli Sigurðsson var á togaranum Elliða. Þeir voru á heimleið frá Grænlandi. Veður var ekki gott. Þá sest fálki á togarann. Faðir minn mun hafa farið út í þeim tilgangi að reyna að ná fuglinum. Sennilega hefur fálkinn verið orðinn örmagna í verðurhamnum enda tókst að handsama hann.

Ég man að vísu ekkert eftir þessum fugli enda fæddist ég tveimur árum eftir að hann kom til fjölskyldu minnar. Til var skemmtileg mynd af þeim félögum Gísla og Fálka sem auðvitað vakti forvitni og var sagan um fálkann lifandi innan fjölskyldunnar. 

fálki

Á  þessum tíma bjó faðir minn og móðir, Freyja Geirdal, ásamt eldri systkinum mínum í Ásgeirsbrakka sem kallaður var. Fálkinn geymdur í búri sem faðir minn útbjó utan um hann.  Búrið var í forstofunni enda segja systkini mín Örn og Eygló sem ég hef sótt minn fróðleik til að töluvert hafi verið um að fólk hafi litið inn til að fá að skoða þennan nýja fjölskyldumeðlim. (Þau voru að vísu oftast kölluð Manzi og Didda þegar þau voru á Siglufirði)

Fuglinn var að mestu alinn á öðrum fuglum sem skotnir voru handa honum sennilega mest sjófugl en t.d. líka rjúpa. Krakkarnir höfðu gaman af að rétta honum kjötbita og stundum léku þau sér að því að sleppa bitanum ekki strax heldur toguðust þau á við fuglinn sem var býsna kraftmikill. Þá stóð hann á öðrum fæti en greip kjötstykkið með hinum, þegar hann hafði náð bitanum stóð hann á honum til að halda honum niðri á meða hann reif hann í sig í bókstaflegri merkingu.

Fálkinn tilheyrði fjölskyldunni ekki nema um tvær vikur. Þá segir sagan að Kanadamenn hafi fengið hann. Þeir höfðu verið í Grænlandi að fanga svona fálka en ekki verið búnir að ná þeim fjölda sem þeir ætluðu og því kærkomið að geta bætt þessum í hópinn. Tilgangur þeirra með fálkaveiðunum var að koma þeim fyrir við flugvelli til að halda öðrum fuglum frá völlunum því þeir áttu það til að lenda í hreyflum flugvéla og það gat haft alvarlegar afleiðingar.

Í stuttu máli: Örmagna fálki á Grænlandsmiðum tyllti sér á togarann Elliða þar sem honum var bjargað. Eftir endurhæfingu í Ásgeirsbrakkanum á Siglufirði var hann skráður í Kanadíska herinn og starfaði eftir það við loftvarnir í Kanada“.

Jóhann Geirdal sendi með frásögninni aðra mynd en ég fékk hja Nonna Fönsu(sjá seinni myndina). Sú mynd var fengin hjá Morgunblaðinu og því má leiða líkur að því að þar hafi birst frétt af Elliðafálkanum. Sú mynd er fjölskyldu Gísla Sigurðssonar kær. Þegar hann  lést, árið 2000, var henni stillt upp við hlið gestabókar erfidrykkjunnar.
Jóhann, Örn, Eygló, Ægir og Steinólfur  eru nöfn barna Gísla. Einnig var sonur hans Sigurður Geirdal fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi. Sonur Sigurðar er Sigurjón eða Sjón eins og er listamannsnafn hins kunna rithöfundar.
Að síðustu: Fálki þessi er ljósa litarafbrigðið eða sem oft hefur verið nefndur Grænlandsfálki.

Ljósmyndir: Kristfinnur Guðjónsson.

Ljósmyndir í eigu Ljósmyndasafns Siglufjarðar.

Texti: Örlygur Kristfinnsson og Jóhann Geirdal


Athugasemdir

26.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst