Gamla myndin: Óskar Halldórsson

Gamla myndin: Óskar Halldórsson Ein þekktasta mynd Kristfinns Guðjónssonar í Ljósmyndasafni Siglufjarðar er af Óskari Halldórssyni útgerðarmanni og

Fréttir

Gamla myndin: Óskar Halldórsson

Óskar Halldórsson
Óskar Halldórsson
Ein þekktasta mynd Kristfinns Guðjónssonar í Ljósmyndasafni Siglufjarðar er af Óskari Halldórssyni útgerðarmanni og einum mesta síldarsaltanda landsins í áratugi, þar sem hann situr á síldartunnu. 

Myndin birtist sennilega fyrst í Sunnudagsblaði Vísis 6. september 1942.
 Að mati Örlygs Kristfinnssonar safnstjóra, sonar ljósmyndarans, gæti myndin hafa verið tekin sumarið 1942 á svonefndri Bakkevigsstöð, sem Óskar hafði þá keypt og í kjölfarið var nefnd Jarlsstöð. Stöðin var á austurhluta Siglufjarðareyrar, sunnan við söltunarstöðina Hrímni og austan við frystihús Ásgeirs Péturssonar, sem Óskar keypti einnig.

    Þetta sama sumar var þess minnst að 25 ár voru síðan Óskar hóf starfsemi sína á Siglufirði, 10. júní 1917. „Hann kom þangað öllum ókunnugur í þeim tilgangi að kaupa þar þorskalifur og bræða hana sjálfur,“ sagði í grein í Ægi. „Strax sama morguninn og hann kom keypti hann lóð fyrir 300 krónur af Bessa gamla, við Álalækinn, undir lifrarbræðsluskýlið, keypti í það efni, fékk smið til að reisa það, og um kvöldið var „fabrikkan” komin upp og í fullum gangi.“


    Árið 1919 hóf Óskar síldarsöltun í stórum stíl og síðan útgerð og annaðist hvoru tveggja í 33 ár. Óskar vakti fyrstur máls á því árið 1924 að reist yrði síldarverksmiðja á vegum ríkisins. Hann byggði íshús í Bakka við Siglufjörð og rak þar einnig á annan áratug stóra söltunarstöð, sem áður hafði verið í eigu Péturs Thorsteinssonar á Bíldudal. Sagt er að hann hafi þurft að endurbyggja bryggjurnar þar flest vor, vegna skemmda af völdum sjávargangs.


    „Ég hefi margar góðar endurminningar frá Siglufirði öll þessi ár, sem liðin eru síðan ég kom þar fyrst,“ sagði Óskar í blaðaviðtali 1942. „Hafði ég lengst af síldarstöðina Bakki, enda er ég lítt þekktur undir öðru nafni hér á Siglufirði en Óskar á Bakka. Það gekk misjafnlega þessi mörgu ár. Ég var stundum undir bakkanum og stundum ofan á honum, því að jafnan valt á ýmsu í síldarútveginum.“


    Óskar Halldórsson lést vorið 1953, 59 ára. Tæpum tveimur áratugum síðar kom út bókin Guðsgjafaþulaeftir Halldór Laxness. Nóbelsskáldið sagðist aldrei hafa farið í launkofa með það að hann hafi haft Óskar „til fyrirmyndar“ þegar hann „sauð saman“ aðalpersónuna, Íslandsbersa. „Óskar var afskaplega flott maður og stór í sniðum, alltaf sama stórmennið, hvort sem gekk vel eða illa í síldarbraskinu,“ sagði Halldór í samtalsbókinni Til fundar við skáldið.


    Aldamótaárið 2000 samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar að heiðra minningu þessarar stóru persónu í sögu Siglufjarðar og íslensks síldarútvegs með því að gefa nýrri löndunarbryggju sunnan Öldubrjóts nafnið Óskarsbryggja og nálægri götu nafnið Óskarsgata.

 


 

Þessi ljósmynd af Óskari Halldórssyni er orðin eins konar táknmynd fyrir síldarspekúlanta og síldarárin.

 

Texti: Jónas Ragnarsson.

Mynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.




Athugasemdir

26.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst