Segir skilið við Framsóknarfélag Fjallabyggðar

Segir skilið við Framsóknarfélag Fjallabyggðar Starfar áfram utan flokka í bæjarstjórn Sólrún Júlíusdóttir segir sig úr

Fréttir

Segir skilið við Framsóknarfélag Fjallabyggðar

Sólrún Júlíusdóttir
Sólrún Júlíusdóttir

Starfar áfram utan flokka í bæjarstjórn Sólrún Júlíusdóttir segir sig úr Framsóknarfélagi Fjallabyggðar, ástæðan er ágreiningur innan raða Framsóknarfélagsins í fyrirhuguðum framkvæmdum vegna grunnskólabygginga í Fjallabyggð.

Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 400.000.000 í viðbyggingar á Ólafsfirði og Siglufirði á árunum

2011-2013. Áður en slíkar ákvarðanir eru teknar er nauðsynlegt að vandað sé til verka. Ég hef haft efasemdir um getu bæjarfélagsins til að fara í stórt einstakt verkefni á svo stuttum tíma. Með þessu er í raun verið að ganga verulega á allt framkvæmdafé bæjarins fyrir utan nauðsynleg viðhaldsverkefni, nema þá með þeim mun meiri lántökum.

Nú liggur fyrir að rekstur sveitarfélaga er að þyngjast verulega og má í því sambandi nefna nýgerða kjarasamninga og lækkun útsvars af séreignasparnaði. Ég styð uppbyggingu í skólamálum heilshugar, en við þurfum einnig að huga að öðrum málum, til dæmis að styðja við atvinnulífið og skapa störf. Með þessu er ég ekki að leggja til að bæjarfélagið fari í beinan atvinnurekstur, en bæjarfélög þurfa að skapa umgjörð fyrir atvinnulífið og hafa til þess fjármagn.

Fyrir mánuði síðan var áætlað að framkvæmdirnar kostuðu 300.000.000, þegar ég fór að spyrja nánar út í kostnaðinn hækkuðu áætlanir í 400.000.000. Áætlanir liggja í raun ekki fyrir, enda er hönnun hússins ekki endanlega lokið. Hvað varðar sparnað af byggingu Siglufjarðarmegin, þá hef ég ekki fengið fullnægjandi skýringar né sundurliðun á þeim sparnaði, enda liggja forsendur ekki endanlega fyrir. Í fyrirliggjandi áætlunum að hagræðingu er ekki gert ráð fyrir vaxtagjöldum af lántöku.

Í ljósi framangreinds ákvað ég að leggja fram svohljóðandi tillögu á bæjarstjórnarfundi í dag 14.09.2011.

Ég undirrituð, Sólrún Júlíusdóttir legg fram svohljóðandi breytingatillögu við 9. lið á fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar nr. 228. „Ég legg til að öðrum áfanga í stækkun skólahúsnæðis verði frestað, þ.e. viðbyggingu Siglufjarðarmegin“

Greinargerð:

Að undanförnu hef ég óskað eftir sundurliðun á sparnaði sem hlýst af þessum framkvæmdum. Ég hef ekki fengið nægjanlegar upplýsingar til að geta mótað afstöðu mína í þessu máli. Með þessu er ég ekki að leggjast gegn þessum framkvæmdum, en óska eftir því að tímasettum ákvörðunum verði frestað þar til fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Þannig að því sé til haga haldið, þá styð ég uppbyggingu í skólamálum, nemendum, kennurum og starfsfólki skólans til heilla.

Nú er verið að leggja til fjárfestingu uppá 400m, án þess að ég hafi fengið fullnægjandi svör við mínum spurningum. Sennilega mun aldrei, hvorki fyrr né síðar, verða tekin ákvörðun um jafn stóra fjárfestingu. Slíka ákvörðun á ekki að taka undir tímapressu, sérstaklega þegar um ræðir fjárfestingu sem á að hefjast að ári liðnu.

Við höfum ekkert val á Ólafsfirði, þar er brýn nauðsyn að byggja enda styð ég þá framkvæmd. Hinsvegar höfum við val á Siglufirði, ég vil horfa fordómalaust á þá kosti sem við stöndum frammi fyrir, út frá því hvað hagkvæmast er fyrir bæjarfélagið.

Því óska ég eftir því að ákvörðun um fyrirkomulag og tímasetningu á skólahúsnæði á Siglufirði verði frestað.

Ég óskaði eftir almennum félagsfundi í Framsóknarfélagi Fjallabyggðar til að ræða þessi mál, en þeirri beiðni var neitað, síðan hef ég reynt að afla mér upplýsinga, en ég hef ekki fengið nægjanlegar upplýsingar til að geta myndað afstöðu. Nú hefur verið lagt að mér að víkja sæti í þessu máli. Ég tel það vera skyldu mína sem bæjarfulltrúi í svo stórri ákvörðun að taka upplýsta ákvörðun byggða á fullnægjandi upplýsingum.

Það skal tekið fram að ég hef síður en svo sagt skilið við Framsóknarflokkinn, úrsögn mín einskorðast við þetta félag.

Ég mun hér eftir sem hingað til starfa eftir gildum Framsóknarflokksins, enda verið félagi í Framsóknarflokknum frá árinu 1992.

Texti: Sólrún Júlíusdóttir

Mynd: GJS




Athugasemdir

26.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst