“Eftir ballið” þrítugt.

“Eftir ballið” þrítugt. Úrklippan hér að ofan er úr Dagblaðinu föstudaginn 3. júlí 1981, og er því orðin 30 ára gömul og rúmlega mánuði betur. En þar

Fréttir

“Eftir ballið” þrítugt.

Miðaldarmenn komnir á skífu
Miðaldarmenn komnir á skífu

Úrklippan hér að ofan er úr Dagblaðinu föstudaginn 3. júlí 1981, og er því orðin 30 ára gömul og rúmlega mánuði betur. En þar sem úrklippan er orðin bæði gömul og máð er rétt að textinn fylgi, en þar segir:


 

Út er komin 4ra laga hljómplata með siglfirzku hljómsveitinni Miðaldamenn. Platan ber  nafnið ,,Eftir ballið" eftir fyrsta laginu á plötunni, en það lag var númer 8 í sönglagakeppni sjónvarpsins nú í vor. Lagið er sungið af hinni þekktu söngkonu Erlu Stefánsdóttur, en hún sér einnig um raddir ásamt Snorra Guðvarðssyni, sem er aðalsöngvarinn í laginu um plötusnúðinn. Það lag er sett saman úr þekktum erlendum lögum, og tvinnað kringum það íslenzkur texti.


Auk Erlu og Snorra koma fram á plötunni Leó Torfason sem sér um allan gítarleik og Viðar Eðvarðsson sem blæs í saxófón. Þeir Miðafdamenn heita: Leó Ólason, sem spilar á hljómborð, Birgir Ingimarsson er lemur húðir og Sturlaugur Kristjánsson er snertir bassastrengi. Tvö önnur lög eru á plötunni en þau heita Galdralagið, sem er eftir Baldur Brjánsson, en það lag er mjög töfrandi. Hitt lagið heitir More; á Islenzku heitir það Meir og var flutt áður fyrr af Ellý Vilhjálms, en nú er það i diskóútsetningu og er án söngs. Platan er pressuð í Alfa hf. Upptakan var gerð i Studio Bimbó á Akureyri um páskana. Útgáfa og dreifing er í umsjá Bimbó.



Orgelleikarinn með gamla Farfisa orgelið sitt sem er enn til.

Forsaga málsins er sú að auglýst var eftir lögum í Söngvakeppni Sjónvarpsins og ég sendi lag inn í keppnina, en það hafði þá þegar verið gert “demó” af því. Ekki bjóst ég þó við miklu þar sem það hafði kvisast út að hvorki meira né minna en 550 lög hefðu borist. Það var haldin eins konar undankeppni nokkur laugardagskvöld í röð, sem ég náði að horfa á nema það síðasta. Það kvöld vorum við að spila í Landsbankanum á Akureyri í kveðjuhófi sem var haldið fyrir Jón Sólnes, en hann var þá að hætta þar störfum sem bankastjóri. Ég var kallaður í símann um það bil sem dansinn var að hefjast og óttaðist hið versta, því mér var sagt að símtalið væri mjög áríðandi. En þá fékk ég að vita að það væri einmitt og akkúrat núna verið að flytja lagið mitt í sjónvarpinu. Söngvarar í keppninni voru m.a. Pálmi Gunnarsson, Haukur Mortens, Ragnhildur Gísladóttir og Jóhann Helgason, en það kom í hlut Ragnhildar að flytja mitt lag. Á úrslitakvöldinu varð lagið númer 8 í röðinni, en “Af litlum neista” sungið af Pálma bar sigur úr býtum. Það var auðvitað ákveðið að reyna að nýta þetta tækifæri okkur til framdráttar og við höfðum samband við Röggu. Hún var ekki tilbúin til að fara í hljóðver með okkur sveitalubbunum, svo við höfðum þá samband við Erlu Stefánsdóttir sem hafði m.a. sungið með hljómsveitinni Póló á Akureyri. Hún sló til og lagið var tekið upp ásamt nokkrum “aukalögum” í Stúdeó Bimbó á Akureyri. Afraksturinn var síðan gefinn út og útgefandinn var Stúdeo Bimbó. Lagið varð síðan 15. mest spilaða lagið á Rás 2 það árið, en það er nokkuð ljóst að þar nutum við velvildar Fúsa tæknimanns sem er dóttursonur Sigurjóns prentara. Við höfðum vanist því að þegar hringt var í okkur og leitað eftir þjónustu sveitarinnar, var fyrsta spurningin oftast; hvað kostar hljómsveitin? Sú breyting varð á við útgáfu plötunnar að nú var spurt hvort við ættu lausa helgi.

Birgir og Sturlaugur.

Í kjölfarið var efnt til útgáfutónleika eða öllu heldur útgáfudansleikja eina helgi snemmsumars. Þau Erla, Viðar og Leó Torfason komu til Siglufjarðar og við sneysafylltum Hótel Höfn á föstudagskvöldi. Daginn eftir var svo spilað í Ljósvetningabúð í Köldukinn, en Erla er einmitt þaðan. Það félagsheimili hafði löngum átt mjög svo undir högg að sækja vegna vinsælda Skjólbrekku sem var langsamlega mest sótti sveitaballstaður í S-Þingeyjasýslu. En að þessu sinni flæddi mannhafið út úr dyrum í Ljósvetningabúð og veggirnir hreinlega grétu hita og svitaperlum vegna rakans sem steig upp af iðandi kösinni á dansgólfinu.

Sprungið á hljómsveitarbíllum á heimleið eftir ball að vetrarlagi.

Það er af hjálparmönnum okkar að segja, að flestir fóru þeir suður og sumir þó öllu lengra. Erla sem hafði lengi búið að Þórisstöðum austan Eyjafjarðarárinnar, flutti suður og býr nú eftir því sem ég best veit í Hafnarfirði. Hún er enn að syngja á mannamótum og nýtur þá aðstorðar hljómborðsleikara sem ég kann reyndar ekki deili á. Leó G. Torfason gaf út sólódiskinn “Draumsýn” árið 1996 og átti líka lagið “Horft á strauminn” á disknum Pottþétt vitund 2. Þegar ferðaleikhúsið sýndi “Endurnýjun lífdaga”, var hann einn af höfundum tónlistarinnar ásamt ekki ómerkari mönnum en Hilmari Erni Hilmarssyni og Jóni Leifs. Hann var einnig einn hljóðfæraleikaranna á Gaia, hljómplötu Valgeirs Guðjónssonar. Saxófónleikarinn Viðar Eðvarðsson lærði til læknis og fór til U.S.A. til framhaldsnáms. Hann starfar nú sem sérfræðingur í barnalækningum í Reykjavík, en hefur þó ekki lagt saxann alveg á hilluna og spilar stundum jazz með félögum sínum á góðum stundum. Snorri Guðvarðsson er sonur “Varða málara” sem bjó á Siglufirði fyrir meira en hálfri öld og bjó þá í Túngötu 10. Um Snorra, sem einnig er málari og sérhæfir sig ásamt konu sinni í að mála gamlar kirkjur í því sem næst upphaflegum litum og helst upp úr “orginal” málningu, var fjallað um í þættinum “Landinn” fyrir nokkru síðan. Upptökumaðurinn og útgefandinn Pálmi Guðmundsson sem margir þekkja þó aðeins undir nafninu Bimbó, bjó í Kópavogi síðast þegar ég vissi. Hann starfar þar sem ljósmyndari, rekur Íslensku ljósmyndaþjónustuna, vefinn ljósmyndari.is og heldur ljósmyndanámskeið. Um eins eða tveggja áratuga skeið var  ljósmyndin sem birtist í dagskrárlok í sjónvarpinu frá honum komin.

Miðaldarmenn fyrir 30 árum.

Texti: Leó R. Ólason.

Ljósmyndarar eru ókunnir.




 




Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst