Allt krökkt af bláberjum á Siglufirði
„Ég skrapp í berjamó um helgina og það var nóg af bláberjum. Þau eru að vísu ekki orðin stór, þau bragðast mjög vel en gætu átt eftir að stækka aðeins meira,“ segir Arnar Freyr Þrastarson, íbúi á Siglufirði.
Borist hafa spurnir af því að þurrkar hamli berjasprettunni í ár og hafa margir óttast lélega heimtu berja. Til dæmis sagði frá því í frétt mbl.is fyrir nokkrum dögum að lítil berjaspretta yrði norðan heiða.
Það virðist hafa mismikil áhrif eftir landsvæðum. Arnar Freyr segist ekki vita til þess að ber hafi áður þroskast svo snemma sumars og segist ekki hafa átt von á því vegna mikilla þurrka í sumar.
Berin tíndi Arnar Freyr við snjóflóðagarðana ofan við bæinn, sunnan við svokallaðan Litla Bola. Hann segir nokkuð af fólki hafa verið við berjatínslu á þeim slóðum um helgina.
„Þetta lofar góðu, það hefur aldrei verið hægt að fara svona snemma. Berin bragðast eins og best verður á kosið,“ segir Arnar Freyr.
Athugasemdir