Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 útnefndur

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 útnefndur Í gær fór fram fjórða útnefning bæjarlistamanns Fjallabyggðar. Fjölmargir gestir voru mættir í Ljóðasetrið

Fréttir

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 útnefndur

Í gær fór fram fjórða útnefning bæjarlistamanns Fjallabyggðar.

Fjölmargir gestir voru mættir í Ljóðasetrið þar sem Fjallabyggð bauð upp á léttar veitingar í tilefni dagsins.

Karítas Skarphéðinsdóttir Neff fræðslu- og mennigarfulltrúi bauð alla velkomna og sagði meðal annars:

"Tóti glæðir Fjallabyggð nýju lífi".


Bjarkey Gunnarsdóttir formaður menningarnefndar ávarpaði samkomuna og hóf mál sitt á ljóði Kristjáns Hreinssonar um leiksýningu daganna sem hún sagði lýsa bæjarlistamanninum vel.

Er leiksýning daganna læðist af stað
þú leggur þinn metnað að veði
þú dásamar lífið svo langar þig að
leika þitt hlutverk af gleði

Þú gengur um sviðið og glaðværðin þín
með geislum allt umhverfið baðar
því yndisleg birta úr augunum skín
og einlægni þín er til staðar

Þú auðvitað lofar þitt eilífa happ
er alla með leiknum þú gleður
og þegar að lokum hér þiggur þú klapp
þá þakkar þú fyrir og kveður


Bæjarlistamaður Fjallabyggðar er útnefndur til eins árs, og miðast útnefningin við almanaksárið.
Þeir sem hafa borið titilinn fram til þessa eru:

Bergþór Morthens, Örlygur Kristfinnsson og Guðrún Þórisdóttir "Garún".

Bjarkey tilkynnti að Menningarnefnd Fjallabyggðar hefur ákveðið að útnefna Þórarin Hannesson, Tóta, bæjarlistamann Fjallabyggðar 2013.

Tóti er allt í senn: söngva- og ljóðskáld, tónlistarmaður, kennari, íþróttaþjálfari, einn af stofnendum ungmennafélagsins Glóa og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, sem vígt var 8. júlí 2011.

Bjarkey minnti á mikilvægi lista og menningar og lét þess getið að mörg afleidd störf verða til í samfélaginu vegna þeirra sem vinna við hinar skapandi greinar.  Hún hvatti íbúa Fjallabyggðar og gesti til að sækja alla þá fjölbreyttu viðburði sem í boði í samfélaginu allt árið um kring.

Að lokum afhenti hún Tóta viðurkenningarskjal, verðlaun og blómvönd.

Tóti þakkaði fyrir viðurkenninguna og hlý orð, og fór yfir það helsta sem framundan er hjá honum, sem er æði margt, m.a. ljóðabækur, geisladiskar og fleira.

Það verður spennandi að fylgjast með Bæjarlistamanninum okkar í framtíðinni, til hamingju Tóti !!

 Karítas Skarphéðinsdóttir Neff

Bjarkey Gunnarsdóttir

Þórarinn Hannesson - Tóti

Þórarinn Hannesson - Tóti

Gestir

Gestir

Sigurður Fanndal og Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri


Athugasemdir

26.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst