Bergþór Morthens sýnir í Fredriksborgarhöll
Bergþór Morthens myndlistamaður kemur til með að sýna þrjár portrett myndir í Fredriksborgarhöll í Danmörku. Sýningin heitir Portræt Nu og er hér á ferðinni samnorræn portrettsýning sem fyrst var sett upp árið 2008.
Á sýningunni er að finna verk frá öllum Norðurlöndunum og er öllum birtingarformum portrettlistarinnar gert jafn hátt undir höfði. Norræn dómnefnd velur verk inn á sýninguna og er valið úr gríðarlegum fjölda verka þannig að um mikinn heiður er að ræða fyrir listamanninn.
Myndirnar sem um ræðir eru úr seríu þar sem Bergþór málaði 17 andlitsmyndir af mönnum sem eiga það sameiginlegt að heita Jón Sigurðsson.
Aðspurður sagði Bergþór að um frábært tækifæri væri að ræða og gaman að fá slíka viðurkenningu. Þá sagði Bergþór að það væri skemmtilegt að sjá Jón Sigurðsson fara aftur á gamlar slóðir í Danmörku, en Jón Sigurðsson heldur einmitt upp á 200 ára afmæli sitt í ár.
Bergþór hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið og tók nýverið þátt í sýningu í Aþenu þar sem saman komu myndlistamenn sem eiga það sameiginlegt að vinna á fígúratívan hátt í myndlist sinni.
Bergþór kemur svo til með að sýna með bandaríska listamanninum Paul Lajeunesse í Menningarhúsinu Berg í júlí. Paul er Siglfirðingum að góðu kunnur en hann dvaldi um tíma í Herhúsinu árið 2007. Siglfirðingar geta svo séð verk þeirra félaga um verslunarmannahelgina.
Sýningin í Frederiksborgarhöll opnar þann 7. maí næstkomandi og stendur til 31. Júlí.
Athugasemdir