Bítlar í Bátahúsinu föstudaginn langa
Það verður mikið um að vera um páskana á Sigló en föstudaginn langa ætlar Hljómsveitin Vanir Menn ásamt bítlasöngvaranum Ara Jóns úr gullaldarhljómsveitinni Roof Tops að stíga á þilfar Týs í Bátahúsinu.
Biggi Ingimars segir að tilefni sé til að halda þar heilmikla bítlatónleika þar sem hálf öld er nú liðin síðan að hljómsveit allra hljómsveita gaf út sína fyrstu LP plötu. Þetta verða engir venjulegir tónleikar segir Biggi, því gömlu góðu lögin munu hljóma í bland við stórskemmtilega fróðleiksmola ásamt myndefni sem tónleikagestir munu geta fylgst með á stóru tjaldi yfir höfðum meðlima hljómsveitarinnar.
Vanir Menn eru Siglfirðingum vel kunnugir en þeir hafa verið duglegir að koma fram frá því þeir stigu svo eftirminnilega aftur á stokk um verslunarmannahelgina hjá Rauðku árið 2010. Hljómsveitina skipa þeir Magnús Guðbrandsson, Birgir Ingimarsson og Leó Ólason. Samkvæmt Bigga er sérlegur styrktaraðili bandsins að þessu sinni síðan gítarleikarinn Grímur Sigurðsson sem spilaði lengi með Ingimar Eydal og síðar Ragga Bjarna á Hótel Sögu.
Ara Jóns þarf vart að kynna, því sá hluti þjóðarinnar sem kominn er til vits og ára hefur þekkt vel til hans allt síðan hann söng einn mesta risasmell blómatímabilsins og hippaáranna, Söknuður með Roof Tops árið 1969. Bítlalög eru hans sérgrein og hann hefur sungið þau á óteljandi bítlatónleikum sem haldnir hafa verið undanfarin ár, eða kannski mætti frekar segja undanfarna áratugi. Tónleikarnir eða skemmtunin byrjar kl 20:00 og er forsala miða í Siglósport.
Athugasemdir