Endurheimt búsvæða í Hólsá
Endurheimt búsvæða í Hólsá liður í gerð nýs golfvallar Hefur alla burði til að vera gjöful veiðiá, segir fiskifræðingur. Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur gefið út framkvæmdaleyfi vegna nýs golfvallar og útivistarsvæðis í Hólsdal.
Leyfið er veitt með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, sem fundar 13. júní nk., og er fyrirhugað að framkvæmdir hefjist þegar að samþykkt fenginni.Hugmynd um hinn nýja golfvöll, sem ætlað er að koma í stað gamla vallarins að Hóli, byggist á því að vinna við gerð hans geti m.a. falið í sér umtalsverðar úrbæturá lífríki Hólsár og Leyningsár, sem hefur skaðast verulega af mannavöldum.
Framkvæmdir munu því fela í sér efnisflutninga stórvirkra vinnuvéla í farvegi Hólsár, sem fara munu fram undir leiðsögn Bjarna Jónssonar fiskifræðings. Bjarni gerði athugun á ánni sl. ár að beiðni Golfkúbbs Siglufjarðar og Rauðku ehf. með tilliti til uppeldisskilyrða fyrir laxfiska og þá sérstaklega sjóbleikju og í samstarfi við hönnuð golfvallarins, Edwin Roald. Er einnig fyrirhugað að staðsetja og útfæra sem flesta ákjósanlega veiðistaði og tryggja viðunandi aðgengi að þeim.
Um ána segir Bjarni: „Áin er af náttúrunnar hendi einstaklega hentug fyrir nýliðun og uppeldi bleikjuseiða og hefur alla burði til að vera góð og gjöful veiðiá. Talsvert hefur hinsvegar verið gengið á búsvæði í ánni á umliðnum árum og veiðistaðir spillst, ekki síst vegna umfangsmikils efnisnáms á svæðum í neðri hluta árinnar. Einnig hafa orðið breytingar á vatnasviði árinnar af manna völdum, lækjum og kvíslum sem koma niður á lífríki hennar og nánasta umhverfi árinnar.
Þar sem efnisnámið hefur verið mest hafa orðið gríðarlegar breytingar á farvegi árinnar og efnistilfærslur og farvegs og bakkarof á talsverðum kafla ofan aðalathafnasvæðisins. Farvegur árinnar hefur lækkað mikið þar sem malarnámið hefur verið mest og hefur það mikil áhrif á rennslishegðun árinnar á því svæði. Botngerð er þar óhentug og óstöðug fyrir seiði og gæði veiðistaða takmarkað. Þá vantar upp á að gengið hafi verið nægjanlega vel frá námasvæðinu, ójöfnur og smærri malarhaugar eru þar áberandi og svæðið heldur tætingslegt að sjá yfir.
Hægt er með ýmsum hætti að endurheimta búsvæði fyrir seiði, veiðistaði og hlúa að lífríki árinnar og þess svæðis sem hún rennur um. Sú aðgerð sem skiptir þar hvað mestu máli er að lagfæra farveg árinnar á þeim stað sem efnisnámið hefur verið mest. Færa þarf til efni í og við farveginn til að lagfæra rennsli og færa botngerð og svipgerð árinnar nær upprunalegu horfi. Þar þarf að huga að endurheimt hrygningarstaða, uppeldissvæða og svo endurgerð veiðistaða.
Hér er um framkvæmd að ræða sem hefur mikla þýðingu fyrir lífríki árinnar og er til þess fallinn að styrkja ásýnd svæðisins til fjölbreyttrar útivistar,“ segir Bjarni Jónsson fiskifræðingur.
Þótt hér sé um að ræða framkvæmd við golfvöll er ljóst að með henni er stefnt að því að gera Hólsdalinn að alhiða útivistarsvæði þar sem Hólsáin fær virkilega að njóta sín í fallegu umhverfi sem ekki síst er að þakka þrotlausri vinnu skógræktarfólks í gegnum árin. Hönnunin gengur út á það að hestamenn, kylfingar, stangveiðimenn og annað útivistarfólk geti notið umhverfisins hver á sinn hátt.
Hólsá
Hólsá
Hólsá
Leyningsá
Leyningsá
Leyningsás ses.
Myndir: GJS
Athugasemdir