Bítlafárið

Bítlafárið Ég rak fyrir helgina augun í ansi hreint stórt skilti sem þrátt fyrir stærðina týnist svolítið utan á þessum risastóra vegg sem hin nýmúraða

Fréttir

Bítlafárið

Ég rak fyrir helgina augun í ansi hreint stórt skilti sem þrátt fyrir stærðina týnist svolítið utan á þessum risastóra vegg sem hin nýmúraða norðurhlið Sparisjóðsins er.

Ég ákvað að hafa samband við fyrrum (og hugsanlega núverandi, hver veit) KONUNG brekkuguttanna gömlu, þ.e.a.s. Leó R. Ólason, og fá hjá honum nánari upplýsingar um hvað til stendur að gera um verslunarmannahelgina. Það stóð ekki á svari frá Leó, það kom um hæl og má sjá hér að neðan.

-

Já, þarna er að öllum líkindum komin langstærsta auglýsing um skemmtun og/eða dansleik sem hengd hefur verið upp á Siglufirði allt frá landnámsöld, en plakatið er prentað á striga og er heilir 8 fermetrar að stærð. Okkur þótti nefnilega rétt að láta vita af væntanlegum Bítlagerning með viðeigandi stæl, því segja má að það sé eiginlega búið að leggja sálina svolítið mikið í allan undirbúning og þess vegna réttlætanlegt að flagga stórt. Svo þarf auðvitað prentarinn, auglýsingagúrúinn og trommarinn Biggi Ingimars að fá að njóta sín, enda vel menntaður í slíkum fræðum frá Siglufjarðarprentsmiðju.

En þess utan stendur til að rifja upp Bítlaárin, bæði úti í hinum stóra heimi, en ekki síður hvernig þau gerðu sig hér heima á Sigló þar sem gróskan var mikil á þeim tónlistarlegu umbrotatímum.

-
bitlafarid


Ég var eitthvað búin að heyra af þessu bandi og að þeir sem að því stóðu hafi verið að spila í Bátahúsinu síðustu páska. Ég því miður komst ekki þangað á Bítlafárið, en hins vegar heyrði ég að þetta hafi verið alveg hreint ljómandi góð skemmtun og menn voru víst ansi hreint vel spilandi. Þar var víst klappað og sungið með þannig að hrikti bæði í fölskum tönnum og göngugrindum.

-

Jú, það þurfti svo sannarlega ekki að kvarta undan viðtökunum, stemmingin var ágæt í Bátahúsinu um páskana þótt að hafi alveg verið pláss fyrir nokkra í viðbót. En eitt af því sem við gerðum var að varpa textum laganna á tjald um leið og við spiluðum lögin, sem varð til þess að áheyrendur tóku duglega undir. Og það er líklega til marks um andann í húsinu að í síðustu lögunum voru all margir dagfarsprúðir og virðulegir borgarar staðnir upp af stólum sínum, tóku nokkur létt dansspor í kring um þá, klöppuðu og stöppuðu, en einmitt svoleiðis lýsir alvöru bítlaæði sér. Þetta voru akkúrat einkennin og svoleiðis á þetta líka að vera. Ég held að ég geti alveg leyft mér að segja að flutningurinn hafi tekist alveg ágætlega þó það sé nú líklega frekar annarra að dæma um það, en undirbúningurinn var líka búinn að vera mikill og góður.

En nú erum við búnir að bæta, auðga og stækka prógrammið á alla lund og höfum einnig fengið mikinn og góðan liðsauka síðan þá. Þarna munu mæta þeir Ómar Hauks og Þorvaldur Halldórs til að rifja upp nokkrar óborganlegar smásögur frá þessum gullaldarárum auk þess sem alveg má reikna með að Þorvaldur taki nokkur vel valin lög með bandinu. Við ætlum að sýna gamla mynd með hljómsveitinni Stormum á bryggjuballi sem er líklega frá 1966 eða 67, en hún mun ekki áður hafa verið sýnd óstytt. Við erum ákaflega þakklátir Jónasi Ragnars, bróður Óla Ragnars sem tók myndina á sínum tíma fyrir hans hjálp og framlag, bæði við útvegun þess gullmola sem ég vil hiklaust kalla þessa ómetanlegu heimild þar sem segja má að stórleikarinn Theódór Júlíusson stigi raunverulega sín fyrstu skref á tjaldinu, svo og annars myndefnis sem við höfum ekki séð áður og er gríðarmikill fengur af. Þá mun hinn vel mælandi fjölmiðlamaður Þröstur Emilsson sjá um kynningar og alla umsjón með dagskrárliðum kvöldsins.

-

Ég spurði hann einnig um væntanlega dagskrá og hljóðfæraskipan í Bítlaæðisbandinu.

-

Dagurinn er föstudagurinn 2. ágúst nk., staðurinn er hin glæsilega Rauðka nútímans, og dagskráin hefst með þriggja rétta kvöldverði kl. 19.00. Yfir borðum hef ég hugsað mér að framreiða nokkra ljúfa dinnertóna, en það er loforð af okkar hálfu að ræðuhöld verða engin. Við munum síðan hefjast handa um kl. 21.00 við að rifja upp Bítlaárin og því verður vart lokið fyrr en um kl. 23.00, en þá hefst dansleikur þar sem Bítlabandið (Vanir Menn & co.) mun standa á palli fram á rauða nótt.
Um hljóðfæraskipan er það að segja að áðurnefndur Biggi Inga er trommuleikari að vanda, Maggi Guðbrands spilar á bassa og gítar, en ég á hljómborð eins og ég á oftar en ekki vanda til gera við slík tækifæri. Hinn stórflinki gítarleikari og bakraddasérfræðingur Grímur Sigurðsson verður einnig með okkur, en um hann er það að segja að hann spilaði til margra ára með Ragga Bjarna og Ingimar Eydal, og til gamans má gjarnan geta þess að hann söng einmitt lagið um Róda raunamædda á síðustu plötu Hljómsveitar Ingimars Eydal. Þá er eftir að geta Ara Jónssonar sem trommaði og söng með "Bítlabandinu" Roof Tops á sjöunda áratugnum, en síðar Pónik og fleiri stórhljómsveitum. Um hann hefur verið sagt að hann hafi svo einstaklega bítlalega rödd að ef maður lokar augunum er stundum eins og Paul sé sjálfur mættur til leiks, en Ari hefur gjarnan verið kallaður til þegar eitthvað Bítlakyns hefur verið sett upp undnfarin ár og áratugi.

-



Og að síðustu má gjarnan minna á eftirfarandi:

-

Okkur þykir rétt að benda á að það er aðeins boðið upp á u.þ.b. 110 miða á hinn þriggja rétta kvöldverð plús Bítlaárin, svo ekki er öruggt að allir komist að sem vilja og þess vegna betra að tryggja sér miða í tíma, en húsið verður síðan opnað fyrir ballgesti um kl. 23.00

Miðasala er þegar hafin í Rauðku og þar fást allar frekari upplýsingar í síma 467-7733


Athugasemdir

04.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst