Er þetta mögulega Rammasamningur?
Svo hljóðaði athugasemd frá Vali Hilmarssyni sem gagnrýndi harðlega vinnubrögðin við skýrslugerðina og lýsti yfir vantrausti á bæjarstjórn en eins og kunnugt er sinnir Valur starfi garðyrkjustjóra. Starfi sem bæjarstjórn hyggst leggja niður.
Valur fór vel yfir það hvernig vinna skýrslunnar fór fram frá hans sjónarhorni og gagnrýnir að þar hafi víða verið pottur brotinn. Haraldur L. Haraldsson, skýrsluhöfundur, hafi til að mynda lýst yfir við hann sjálfan að hann hafi klárlega of mikið af verkefnum en þegar á hólmann sé komið þá leggi hann samt sem áður til að starfið verði lagt niður. Valur spurði þá Harald hvort hann líti svo á að hann hafi hreinlega ekki unnið neitt eða hvort hann líti svo á að þeir sem þurfa að taka við störfum hans hafi ekki haft nóg að gera.
Garðyrkjustjóri í Fjallabyggð hefur gegnt störfum langt út fyrir starfssvið hans enda hafi á hann verið hent hverju verkefninu á fætur öðru. Garðyrkjustjórar í öðrum bæjarfélögum hafa ávalt mun hnitmiðaðari verkefni og séu tölur varðandi hans starf því mjög skekktar í þessari skýrslu segir Valur. Tók hann þá fram að bæði hann sjálfur og Karítas væru ofhlaðin verkefnum að sögn Haraldar. Mikilvægt er að skilja að mesta fjölgun ferðamanna á öllu landinu hefur orðið á Siglufirði frá opnun gangnanna. Því er starf sem stuðlar að fegrun umhverfisins mjög mikilvægt á þessum tímum.
Þá spurði Valur bæjarstjórnina hvort virkilega hafi verið sett krafa á það frá Óla Marteinssyni að ef farið væri í stjórnsýsluúttekt þá yrði farið í einu og öllu eftir niðurstöðum hennar. Hvernig er hægt að samþykkja skýrslu fyrirfram spurði hann, var þetta kannski bara Rammasamningur? Loks spurði hann Harald um kostnað við skýrslugerðina.
Í svörum Haraldar kom fram að kostnaður við skýrsluna hafi verið um 5m.kr. Með skýrslunni sé hinsvegar ekki verið að gera lítið úr störfum einstaklinga eða leggja mat á það hvort mikið eða lítið felist í starfinu. Skýrslan lýsi hans skoðunum á því hvernig hægt sé að hagræða í rekstri bæjarfélagsins til að eiga fyrir framtíðarskuldbindingum hans. Skýrslan byggir á því sem reynst hefur vel í öðrum bæjarfélögum og hann hafi lagt mat á að sé hagkvæmt í tilfelli Fjallabyggðar út frá yfir 20 ára reynslu hans í bæjarmálum. Þá tók hann einnig fram að skýrslan sé leiðbeinandi skjal en það sé bæjarstjórnar að ákveða hvernig hún sé nýtt.
Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar, svaraði Vali varðandi skýrsluna að engar ákvarðanir hafi verið teknar fyrr en hún hafi legið fyrir bæjarstjórn. Það er því ekki rétt að halda því fram að niðurstöður hennar hafi verið fyrirfram ákveðnar, að ferlinu hafi verið stýrt á einhvern hátt eða að kröfur hafi verið á því.
Athugasemdir