Færeyskir frændur í toghlera-söluferð og Siggi Samúels á Berglín GK.
Ég hitti 2 kappa frá Færeyjum á bryggjunni þegar þeir voru á spjalli við Sigga Samúels skipstjóra á Berglín GK-300. Þess má geta að Berglín GK landar oft á Siglufirði.
Þeir voru að fara yfir toghleramál. Sem ég skildi hvorki upp né niður í þó ég sé sjómannssonur og alloft mígið í brimsaltan sjó og stundum jafnvel út fyrir. En þess má geta að Siggi talar reiprennandi færeysku og talaði hann við þá félaga á því tungumáli, ekki ein enskusletta. Og þess má einnig geta að pabbi hans Sigga, hann Samúel er með þær al-stærstu hendur sem ég hef á ævinni séð, en það kemur þér náttúrlega bara alls ekkert við þannig að ég hætti að skrifa um það núna.
Ég var frekar utangátta þegar samtalið átti sér stað og var alltaf að skjóta inn í "og hvað var hann að segja núna Siggi?"og reyndi að hlæja vandræðalega með þegar þeir hlógu. Ég held að ég hafi náð einni setningu sem hljóðaði einhvern veginn svona "joi er LIMUR í fjelag foyroyar-island". Ég veit ekki hvort að ég hafi skilið þetta vegna þess að mér datt eitthvað klúrt í hug en setningin situr í hausnum á mér.
Þessir færeysku frændur okkar voru bráðskemmtilegir þó svo að ég hafi ekki skilið alveg allt sem þeir sögðu, (allavega var flest skemmtilegt sem Siggi sagði að þeir hefðu sagt.) Mér skildist á þeim að þeirra fyrirtæki hafi selt toghlera á 17 skip hérna og ég vona svo sannarlega að þetta gangi vel hjá þeim í framtíðinni. En ef þið hafið brennandi áhuga á toghlerum, sem jafnvel gæti nýst einhverjum landkrabbanum sem garðaskraut til dæmis, þá er slóð á síðuna hjá þeim hér www.rock.fo.
Annars leiddi Siggi Samúels mig um skipið og fræddi mig um eitt og annað en þó mest í sambandi við tæknilegu hliðarnar upp í brú. Ég fékk að sjá allt mögulegt og ómögulegt sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til um borð í svona skipi. Eina vandamálið er það að ég er svo sjálfhverfur að ég hugsaði allan tímann um hvað ég væri flottur skipstjóri á svona skipi og man eiginlega ekkert hvað Siggi var að segja mér í sambandi við "mælaborðið" í brúnni. En ég ætla að hitta Sigga aftur þegar hann kemur í land og mun þá líklega taka með mér blað og penna svo hann geti bara skrifað þetta sjálfur niður á meðan ég pæli í því hvað ég væri flottur skipper.
Athugasemdir