Farandsýning Síldarminjasafnsins „Fiskimjöls og lýsisiðnaður í 100 ár“

Farandsýning Síldarminjasafnsins „Fiskimjöls og lýsisiðnaður í 100 ár“ Síldarminjasafnið hefur nú sett upp farandsýningu á Grand Hótel í Reykjavík með

Fréttir

Farandsýning Síldarminjasafnsins „Fiskimjöls og lýsisiðnaður í 100 ár“

Frá sýningunni á Grand Hótel. Ljósmynd: Aníta
Frá sýningunni á Grand Hótel. Ljósmynd: Aníta

Síldarminjasafnið hefur nú sett upp farandsýningu á Grand Hótel í Reykjavík með yfirskriftinni „Fiskimjöls og lýsisiðnaður í 100 ár“. Aníta Elefsen, fór suður til að opna og kynna sýninguna fyrir viðstöddum.

Að sögn Anítu fékk sýningin góðar viðtökur. Um 100 manns voru við opnun sýningarinnar á fimmtudag, sýndu þeir henni mikinn áhuga og hrósuðu sýningunni mikið. Aníta hefur trú á að sýningin fari víða og að þetta hafi verið besti upphafsstaðurinn fyrir hana en hún var opnuð á vorráðstefnu Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda (FÍF) á Grand Hótel í Reykjavík. Næstu áningarstaðir sýningarinnar verða á Norðfirði og Eskifirði í vor. Í upphafi ráðstefnunnar flutti Anita Elefsen rekstrarstjóri safnsins erindi og fylgja hér á eftir nokkur atriði úr því. -ök

"Fyrir mér opnaðist ný veröld með verkefninu - sem starfsmaður á Síldarminjasafninu og leiðsögumaður þar hafði ég helstu staðreyndir á hreinu; upphaf síldarbræðslu, fjölda verksmiðja á staðnum og útskýringar á bræðsluferlinu; hvað gerist í verksmiðjuni? En sagan er svo mikið stærri, áhugaverðari og aðdáunarverðari en ég hafði gert mér grein fyrir. Yfir áttatíu verksmiðjur á fjörtíu og fimm stöðum víðs vegar um landið! Þar sem hver á sína sögu – stutta eða langa – sem ýmist einkenndist af ótrúlegri velgengni, eða verulegum hrakförum.

Sýningin samanstendur af textum og myndefni á fimmtán skiltum þar sem hinum margvíslegu þáttum sem snerta bræðslusöguna eru gerð skil. Verkefnið hefur orðið okkur á Síldarminjasafninu til góðs. Við ráðgerum að sýningin muni héðan í frá hafa fast aðsetur í Gránu, verksmiðjuhúsinu okkar. En á sama tíma vonum við að sýningin sé ykkur í bræðsluiðnaðinum líka til góðs og að þið getið nýtt ykkur þetta sögulega yfirlit.

Grand Hótel í Reykjavík er fyrsti áfangastaður sýningarinnar. Öllum bræðslustöðum á landinu, núverandi og fyrrverandi, gefst kostur á að fá til sín sýninguna, og gerum við ráð fyrir að hún ferðist landshorna á milli næstu tvö til þrjú árin.

Þetta var mikið verk og dýrt og fengum við dýrmætan stuðning frá Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda, Menningarráðum Eyþings og Austurlands og vil ég hér með, fyrir hönd Síldarminjasafnsins, þakka kærlega fyrir rausnarlega styrki."

Farandsýning Síldarminjasafnsins

Anita ásamt Jóhanni P Andersen framkvæmdastjóra FÍF og Jóni Má Jónssyni formanni FÍF.

Farandsýning Síldarminjasafnsins

Farandsýning Síldarminjasafnsins

Farandsýning Síldarminjasafnsins

Frá uppsetningu sýningarinnar á Grand Hótel.

Ljósmyndir: Aníta Elefsen

Texti að hluta á www.sild.is 


Athugasemdir

29.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst