Foreldrar í tvo daga
sksiglo.is | Almennt | 25.03.2011 | 19:57 | Siglosport | Lestrar 672 | Athugasemdir ( )
Grunnskóli Fjallabyggðar hefur fengið styrk frá Ólafsfjarðardeild og Siglufjarðardeild Rauða Krossins til að taka þátt í forvarnar- og fræðsluverkefninu Hugsað um barn. Verkefnið er forvarnarverkefni gegn ótímabæru kynlífi og þungunum ásamt fræðslu um skaðsemi áfengis- og vímuefnaneyslu í tengslum við meðgöngu.
Í verkefninu fá nemendur afhent “raunveruleikabarn” sem þeir fara með heim yfir helgi. “Raunveruleikabarnið” er dúkka sem hermir eftir hljóðum og atferli ungbarna. Nemendurnir þurfa að skrá bleyjuskipti, pelagjafir eða bara allt sem við kemur uppeldi á ungabarni, ekki er hægt að senda barnið í pössun til ömmu og afa. Nemendurnir geta einnig hringt í ákveðið neyðarnúmer ef upp kemur sú staða.
Markmið verkefnisins er að nemendur öðlist skilning á þörfum nýfæddra barna og þeirri ábyrgð sem felst í því að eignast barn og sinna öllum þörfum þess. Einnig að þeir geri sér grein fyrir þeim breytingum sem verða á persónulegu lífi unglings við það að eignast barn og verða foreldri. Í verkefninu verður nemendum einnig kennt að setja sér markmið og að forgangsraða lífsgildum sínum þannig að þeir sjái mikilvægi þess að leggja rækt við nám sitt.
Þeir nemendur sem ekki geta tekið að sér raunveruleikabarnið þurfa að skila 5 blaðsíðna ritgerð um viðfangsefnið „Að verða ungt foreldri“.
Verkefnið hefur fengið foreldraverðlaun Heimilis og skóla.
Hér að neðan má sjá myndir af stoltum foreldrum í dag er þau fengu börnin afhent.
Athugasemdir