Fótboltastuð á Sigló
Það var mikið fótboltastuð á Sigló í gærkveldi þegar landsleikurinn í fótbolta fór fram.
Eftir þokkalega öruggum heimildum stóðu íslensku fótboltamennirnir sig víst bara mjög vel.
Siglfirðingar stóðu sig einnig mjög vel í alls konar fagnaðarlátum, hvatningarorðum, upphrópunum, alls konar handapati og speggúleringum í skiptingum, stöðum og rangstöðum og ég veit ekki hvað og ég veit bara alls ekki hvað.
Þar sem ég hef mjög takmarkaðan áhuga á fótbolta þá fór ég einn göngutúr til þess að sjá stemninguna á stöðum bæjarins sem auglýstu beina útsendingu frá landsleiknum. Ég verð að viðurkenna það að ég hafði virkilega gaman af því að fylgjast með fótboltaáhugamönnum skemmta sér konunglega yfir fótboltaleiknum.
Ég fékk það staðfest frá einum ef ekki tveimur fótboltaáhugamönnum að einhver fótboltamaður úr íslenska fótbolta-landsliðinu var víst rekinn út af og ef það hefði ekki gerst hefðum við líklega unnið allan fótboltaleikinn. Sem er víst bara nokkuð gott.







Athugasemdir