Frá Leó R. Óla

Frá Leó R. Óla Leó R. Óla er ansi skemmtilegur maður að mínu mati og skrifar skemmtilega texta.

Fréttir

Frá Leó R. Óla

Leó R. Óla er ansi skemmtilegur maður að mínu mati og skrifar skemmtilega texta.

Þetta fann ég á síðunni hans Leó. Leó fékk sér rúnt til Grindavíkur og er með margar pælingar og gömul kort til að styðjast við í frásögn sinni.



En skoðum hvað Leó hefur um Grindavík að segja.

 

Ekið um Grindavíkurgötur

890. Ég skrapp svolitla hringferð um Reykjanesið í byrjun síðasta mánaðar. Með mér í för var Ásgeir Magnússon, bakari, pípari og fyrrverandi afgreiðslumaður á Laugarásvideó frá því laust fyrir og eftir síðustu aldamót. Við ókum frá Keflavíkurflugvelli upp í Ásbrú, þá áfram suður um Hafnir og skoðuðum á leið okkar m.a. Brúna milli heimsálfanna, Reykjanesvita og Gunnuhver. Síðan héldum við til Grindavíkur og þaðan áfram austur Suðurstrandarveg, um Krýsuvík og loka til Hafnarfjarðar.

 

leó

 

Mér finnst óneitanlega svolítið skrýtið að nálgast Grindavík frá þessu sjónarhorni. Sérstaklega þar sem maður kom árum saman akandi inn í bæinn hina hefðbundnu leið, þ.e. í suðurátt frá Reykjanesbrautinni, yfir hraunið, fram hjá Bláa lóninu og auðvitað Þorbirninum.

Þegar ekið er inn í Staðarhverfið sem er vestan Grindavíkur, blasir sjáfarþorpið við þar sem fiskur var forðum undir steini sem frægt varð.

Um Stað og Staðarhverfi segir: "Kirkja var á Stað allt frá 13.öld til 1907. Í Staðarhverfi var konungsverslun á 18. öld, eða þangað til hún var flutt til Básenda. Árið 1703 var Staðarhverfið fjölmennast í Staðarsókn (Grindavík). Áttatíu árum seinna var þar orðið fámennast. Í dag er enginn íbúi skráður í Staðarhverfi en þar má sjá tóftir tveggja lögbýla og 26 hjáleiga frá mismunandi tímum."

"Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast."

 

leó

 

Þetta myndarlega og upplýsandi söguskilti er á svokölluðum Holuhól sem er nokkuð vestan við kirkjugarð Grindvíkinga, en myndin er einmitt tekin frá nefndum hól. Saga staðarins er bæði löng og merkileg og mun meiri að vöxtum en margur heldur. Hún er svo sannarlega ekki bara fiskvinna alla virka daga og ball í Festi um helgar.

Íbúarnir eru orðnir 2.850, í bænum er glænýtt tjaldstæði, góð sundlaug og 18 holu golfvöllur.

Náttúran og landslagið er með sérstæðara móti, náttúruperlur á borð við Gunnuhver, Brimketil, Eldvörp, Kleifarvatn (já það tilheyrir Grindavík) og Krísuvíkurberg.

Í fjörunum eru fjölmörg gömul og forvitnileg skipsflök, gönguleiðir eru margar s.s. Prestastígur, Skógarfellsvegur, Reykjavegur og er auðvitað við hæfi að rölta upp á bæjarfjallið Þorbjörninn.

 

leó


Það er illa gerlegt að ná þokkalegri mynd að bænum af sléttlendinu sem hann stendur á, nema þá að ganga á Þorbjörninn, en þangað lagði ég ekki leið mina að þessu sinni. Ég fékk því þessa loftmynd lánaða af vefnum visitgrindavik.is og vonast auðvitað til þess að komast upp með glæpinn.

"Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi árið 1974. Í Landnámabók segir að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans námu land í Grindavík. Þar segir svo: ,Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrugnir og Þórður leggjaldi. Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans að hann varð vellauðugur á skömmum tíma; síðan var hann Hafur-Björn kallaður.

Þegar einokunarverslun komst á árið 1602 var Grindavík ein af lögskipuðum verslunarhöfnum".

 

leó

 

Tyrkjaránið var atburður í sögu Íslands sem átti sér stað árið 1627 þegar sjóræningjar rændu fólki í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og seldu í þrældóm í Barbaríinu sem svo var nefnt Nokkuð af fólkinu var síðar leyst út, snéri heim aftur og sagði sögu sína. Þekktust þeirra er Guðríður Símonardóttir (Tyrkja Gudda), sem síðar giftist Hallgrími Péturssyni og Halldór Hertekni sem síðar varð lögréttumaður og bjó á Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Jan Janszoon van Haarlem var hollenskur sjóræningi sem gengið hafði í þjónustu Ottómanaveldisins og kallaðist þar oftast Murat Reis aðmíráll. Hann varð fyrsti landstjóri og stóraðmíráll borgríkisins Salé á strönd Marokkó, en höfnin þar var miðstöð sjóræningja sem herjuðu á nærliggjandi hafsvæði. Árið 1627 skipaði Janszoon dönskum þræl úr áhöfn sinni sem hafði komið til Íslands, að stýra skipi sínu þangað sem engum hafði áður dottið í hug að fremja sjórán. Annað skip, sem var frá Algeirsborg, lagði einnig af stað í ránsferð til Íslands en kom þangað mun síðar og er ekki ljóst hvort skipin höfðu eitthvert samflot í upphafi eða samráð um Íslandsferðina.

Ræningjarnir frá Salé undir forystu Janszoons komu til Grindavíkur 20. júní 1627. Danski kaupmaðurinn í Grindavík, Lauritz Bentson, sendi átta menn á báti til að athuga hvaða skip væri þarna á ferðinni og fóru þeir um borð en ræningjarnir tóku þá og fengu þá til að upplýsa að fátt væri um varnir í landi. Þeir náðu líka á sitt vald dönsku kaupskipi sem lá á höfninni. Murat Reis fór svo með þrjátíu menn í land og rændu þeir kaupmannsbúðina en kaupmanninum tókst að flýja ásamt öðrum dönskum mönnum nema þeim þremur sem verið höfðu um borð í danska skipinu.

Síðan rændu þeir bæina í víkinni, hirtu það sem þeim þótti fémætt en tóku 15 manns höndum og særðu tvo illa. Margir gátu þó flúið og falið sig í hrauninu. Ræningjarnir sigldu svo frá Grindavík en á útsiglingunni urðu þeir varir við danskt kaupskip sem var á leið til Vestfjarða. Þeim tókst að blekkja skipverja með því að draga upp falskt flagg og ná skipinu á sitt vald og höfðu þeir nú þrjú skip.

Ræningjarnir munu sjálfir hafa haft í huga að fara til Vestfjarða og ræna þar en hættu við það og ætluðu að ráðast að konungsmönnum á Bessastöðum en þar voru menn viðbúnir þeim og höfðu safnað liði og mannað fallbyssur. Eftir að eitt skipanna steytti á skeri utan við Bessastaði gáfust ræningjarnir upp á fyrirætlunum sínum og sigldu þ. 24. júní frá landinu og héldu heim á leið með fólkið, sem var svo selt var í  ánauð í Salé. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Járngerðarstöðum og Halldór bróðir hennar losnuðu fljótt úr haldi og komu aftur til Íslands 1628, en Helgi sonur Guðrúnar var keyptur laus 1636 og kom þá heim. Hinir níu Grindvíkingarnir sneru ekki aftur.

 

leó

 

Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður  21. júní 2012.

"Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.Árin 1946 og '47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár."

 

leó

 


Engin viðdvöl var höfð við í Grindavík, enda tíminn knappur og ferðalagið sem ekki einu sinni átti að verða neitt, hafði tekið dágóðan tíma.

Áður en lagt var af stað áleiðis til Hafnarfjarðar um Krýsuvík og Suðurstrandarveg, var staldrað við í Járngerðarstaðahverfi og teknar nokkrar myndir. Auðvitað var svo ákveðið að fara þessa leið aftur og gefa sér þá góðan tíma til þess. Vonandi gengur það eftir.


Hér geturðu farið beint á heimasíðuna hjá Leó.


Athugasemdir

02.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst